VALMYND ×

Fréttir

Nikodem á leið í Hörpuna

Bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach. (Mynd: tonis.is)
Bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach. (Mynd: tonis.is)

Síðastliðna helgi voru haldnir svæðistónleikar Nótunnar, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu. Tónleikarnir voru haldnir í Borgarnesi að þessu sinni og sendi Tónlistarskóli Ísafjarðar þrjú atriði til þátttöku. Pétur Ernir Svavarsson, nemandi í 8. bekk G.Í. lék frumsamið lag á píanó og Þormóður Eiríksson nemandi í M.Í. lék eigið verk á gítar.

Nikodem Júlíus Frach, nemandi í 6. bekk G.Í. lék verkið Country eftir Dabski á fiðlu, en bræður hans þeir Mikolaj Ólafur Frach og Maksymilian Haraldur Frach léku undir á píanó á og kontrabassa.

Öll þessi atriði hlutu Nótuna, sem er verðlaunagripur fyrir framúrskarandi atriði. Auk þess var Nikodem valinn til áframhaldandi þátttöku á lokahátíð Nótunnar, sem fram fer í Hörpu sunnudaginn 23. mars n.k.  

Við óskum öllum þessum hæfileikaríku hljóðfæraleikurum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Vel heppnaður útivistardagur í Tungudal

Í dag tókst loks að halda skíða- og útivistardag í Tungudal hjá 5. - 10. bekk. Um 230 nemendur auk starfsfólks var á dalnum í dag og naut útivistar í veðurblíðunni. Nemendur og aðrir voru ýmist á svigskíðum, gönguskíðum, brettum eða sleðum þannig að engum leiddist og hafa eflaust allir farið heim endurnærðir á sál og líkama.

Skíða- og útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  miðvikudaginn 11. mars  fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 10:00-13:30. 

Við förum þess á leit við foreldra að þeir keyri börn sín á skíðasvæðið og sæki þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir auðvelt með það og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 9:45 og  frá skíðasvæðinu kl 13:40.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 1500 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Sú nýbreytni verður í ár að útbúinn verður gönguhringur við skálann fyrir þá sem vilja mæta með gönguskíði. Hægt verður að leigja gönguskíði. 

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru þar í áskrift.  Aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum (það má nota reiðhjólahjálma).

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og sérstaklega vel þegið að fá skíðandi foreldrar.

Frestun á skíða- og útivistardegi

Fresta þarf skíða- og útivistardegi sem áætlaður var á morgun, þriðjudag, vegna óhagstæðrar veðurspár. Ný dagsetning verður tilkynnt síðar.

Fulltrúar G.Í. valdir í Stóru upplestrarkeppninni

Fulltrúar G.Í. talið frá vinstri: Sigríður Erla Magnúsdóttir, Þórður Gunnar Hafþórsson, Emil Eiríkur Cruz, Hlynur Ingi Árnason, Rakel María Björnsdóttir og Jakob Daníelsson
Fulltrúar G.Í. talið frá vinstri: Sigríður Erla Magnúsdóttir, Þórður Gunnar Hafþórsson, Emil Eiríkur Cruz, Hlynur Ingi Árnason, Rakel María Björnsdóttir og Jakob Daníelsson
1 af 4

Í morgun voru sex nemendur úr 7. bekk valdir til að keppa fyrir hönd skólans á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar, sem fram fer í Hömrum föstudaginn 14. mars n.k. Tíu nemendur lásu sögubrot og ljóð að eigin vali fyrir gesti og dómefnd, en 6. bekk var sérstaklega boðið til áheyrnar. Í hléi léku Ásdís Halla Guðmundsdóttir og Davíð Hjaltason fjórhent á píanó og sýnt var myndbrot frá dvöl 7. bekkjar í Skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði s.l. haust.

Dómurum var vandi á höndum að velja úr hópi mjög frambærilegra nemenda, en dómarar að þessu sinni voru þau Ingunn Ósk Sturludóttir, Pétur Markan og Rannveig Þorvaldsdóttir. Niðurstaðan varð sú að fulltrúar skólans verða þau Emil Eiríkur Cruz, Hlynur Ingi Árnason, Jakob Daníelsson, Rakel María Björnsdóttir, Sigríður Erla Magnúsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson. Varamenn verða þau Magni Jóhannes Þrastarson og Margrét Inga Gylfadóttir.

Við óskum þátttakendum öllum innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu og hlökkum við til að heyra í keppendum í Hömrum á næsta föstudag.

 

Óskilamunir

Mikið magn óskilamuna hefur safnast upp í skólanum frá því í haust. Meðfylgjandi eru myndir af hluta þess fatnaðar sem liggur frammi í anddyri skólans, Sundhallarmegin. Einnig bendum við eigendum á að hafa samband við skólaliða til að nálgast sínar eigur.

Meðfylgjandi eru myndir af hluta þess fatnaðar sem liggur frammi í skólanum og kjallara Sundhallarinnar.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í fyrramálið kl. 8:15 verður skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar haldin í sal skólans. Þar munu 10 nemendur úr 7. bekk lesa sögubrot og ljóð fyrir sérstaka dómnefnd, sem sker úr um það hverjir munu verða fulltrúar G.Í. á lokahátíð keppninnar, sem fram fer að viku liðinni í Hömrum.

Þeir sem lesa upp á morgun eru: Emil Eiríkur Cruz, Hildur Karen Jónsdóttir, Hlynur Ingi Árnason, Jakob Daníelsson, Lísbet Katla Júlíusdóttir, Magni Jóhannes Þrastarson, Margrét Inga Gylfadóttir, Rakel María Björnsdóttir, Sigríður Erla Magnúsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson. 

Nemendur 7. bekkjar hófu allir þátttöku í keppninni þegar hún var sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember s.l.  og hafa æft vel, sérstaklega síðustu vikurnar.

Líf og fjör á maskadegi

Í morgun mættu margir í grímubúningum í skólann í tilefni maskadagsins. Sjá mátti ýmsar persónur, mennskar sem ómennskar. Slegið var upp þremur grímuböllum fyrir 1. - 7. bekk og dönsuðu allir við taktfasta tónlistina. 
Sjá má fjölmargar myndir frá maskadeginum hér inni á myndasafni skólans.

Í kvöld er svo náttfatanótt hjá unglingunum í félagsmiðstöðinni.

Maskadagur

Föstuinngangur er upphaf langaföstu sem stendur yfir þrjá daga fyrir öskudag, frá sunnudegi til þriðjudags og fer hann víðast fram með fögnuði fyrir föstutímann.  Í meira en 100 ár hafa Ísfirðingar búið sig upp í grímubúning á öðrum degi föstuinngangs og gert sér dagamun.  

Í ár er maskadagurinn mánudaginn 3. mars. Slegið verður upp 3 grímuböllum hér í skólanum þar sem hinar ýmsu persónur og kynjaverur láta sjá sig og verður skipulagið eftirfarandi:

 

kl.   8:20 - 9:10         1. - 3. bekkur (íþróttir falla niður hjá 2.SG)

kl. 10:20 - 11:00        4. - 5. bekkur

kl. 13:10 - 13:40        6. - 7. bekkur (sund fellur niður hjá 7.AY)

 

Á sprengidag er starfsdagur kennara og engin kennsla.

 

 

 

 

 

 

Heimsókn til Portúgals

Nú er komið að því að hópur nemenda úr 10. bekk fari ásamt umsjónarkennurum og skólastjóra í heimsókn til Portúgals. Ferðin er farin í tengslum við Comeniusarverkefnið sem skólinn tekur þátt í undir yfirskriftinni All different, all the same, Europe's Children.

Hópurinn fer út á mánudagsmorguninn, 3. mars og er förinni heitið til Leiria sem er lítill bær skammt norður af Lissabon. Þar munu hittast aðrir hópar kennara og nemenda frá Kýpur, Rúmeníu, Póllandi og að sjálfsögðu Portúgal. Heimsóknin stendur í 5 daga og verður flogið til Íslands á laugardag, 8. mars.

Á dagskrá er margt áhugavert, fyrsta daginn verður karnivalhátíð í Leiria og svo verður farið í skólaheimsókn næstu tvo daga og fylgst með starfinu þar. Auk þess verða nærliggjandi bæir heimsóttir og ýmislegt fleira. Í þessari heimsókn verður sérstök áhersla á að skoða vinnu nemenda með sérþarfir.

Í apríl eigum við svo von á gestum frá þessum löndum til Ísafjarðar og verður það ekki síður áhugavert.