VALMYND ×

Fréttir

Foreldradagur

Á morgun eru foreldraviðtöl í skólanum, en þá mæta nemendur ásamt foreldrum/forráðamönnum til umsjónarkennara. Aðrir kennarar verða líka til viðtals eftir þörfum hvers og eins. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að foreldrar bóka tíma sjálfir á mentor.is eftir því hvaða tími hentar hverjum og einum.

Engin kennsla verður því á morgun, en dægradvöl er opin frá kl. 14:00 - 16:00.

Dagur gegn einelti

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Markmiðið með þessum baráttudegi er að berjast gegn einelti, en ekki síður að benda á það sem vel er gert í þeim málum. 

Í Grunnskólanum á Ísafirði er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vegna eineltis. Einelti, í hvaða mynd sem er, líðst ekki í skólanum og er leitað allra leiða til að fyrirbyggja það og leysa þau mál sem upp koma. Öllum á að líða vel í skólanum, þannig tryggjum við farsælt og árangursríkt skólastarf.

Ef minnsti grunur vaknar um einelti, skal annað hvort tilkynna það til umsjónarkennara eða stjórnenda eða fylla út eyðublað sem nálgast má hér á heimasíðunni.

Bókanir foreldraviðtala

Foreldraviðtöl í skólanum verða miðvikudaginn 13. nóvember n.k. Í stað þess að kennarar úthluti foreldrum fundartíma munu foreldrar sjálfir skrá sig í viðtölin á mentor.  Þeir foreldrar sem ekki eru með lykilorð að mentor geta sótt um það á forsíðu mentors, en þar er flipi fyrir gleymt lykilorð.

Þegar búið er að skrá sig inn, er fjólublár reitur sem heitir fjölskylduvefur og er hann valinn. Þegar það er gert kemur upp síða þar sem hægt er að skoða ástundun, dagbók og ýmislegt fleira.  Á stiku hægra megin er svo hægt að bóka foreldraviðal. Foreldrar skrá sig hjá umsjónarkennara barnsins en aðrir kennarar verða til viðtals eftir óskum hvers og eins. Gott er að hafa í huga að gefa sér smá tíma til að komast á milli viðtala (ef börnin eru fleiri en eitt). 

Opnað verður fyrir skráningar á morgun, fimmtudaginn 7. nóvember kl. 12:00.  Þau viðtöl sem bókuð eru fyrir þann tíma eru ekki tekin gild.

Skólaþing

Laugardaginn 2. nóvember komu foreldrar og starfsmenn saman í Grunnskólanum á Ísafirði á skólaþing.  Byrjað var á að skilgreina hvaða aðilar mynda samfélagið í kringum skólann og hvert hlutverk þeirra er.  Unnið var í níu hópum sem fjölluðu um hvers aðilar skólasamfélagsins geta vænst af skólanum og svo hvers skólinn getur vænst af samfélaginu.  Niðurstöður hópanna voru margþættar og gott að fá mismunandi sjónarhorn í umræðuna.  Sem aðilar að skólasamfélaginu voru nefndir nemendur, starfsfólk og foreldrar en einnig stjórnvöld, heilsugæsla og fjölmiðlar svo eitthvað sé nefnt.  Allir voru á því að aðilar skólasamfélagsins gætu vænst fagmennsku, trúnaðar, metnaðar, ábyrgðar og góðs samstarfs af skólanum og skólinn gæti vænst virkni, þátttöku, góðs samstarfs og sanngjarns umtals af viðkomandi.  Í lokin ræddu þátttakendur svo spurninguna: Hvað kemur barni best til að ná árangri í lífinu.  Niðurstöður þar voru svipaðar hjá öllum hópum og nefndu flestir jákvæða sjálfsmynd, sjálfstraust, þrautseigju, að geta tekist á við mótlæti, hæfni til að tileinka sér nýja þekkingu og upplýsingalæsi. 

Skólaþingið er einn þáttur í áætlun Grunnskólans um að auka þátttöku foreldra í stefnumótun og skólastarfi.  Búið er að halda sambærilegt nemendaþing og verða niðurstöður þinganna notaðar við skólanámskrárvinnu þannig að námskrá skólans endurspegli eins vel og hægt er hvernig skólinn ætlar að koma til móts við þarfir samfélagsins. 

 

 

Mikolaj með píanótónleika

Mikolaj Ólafur Frach (Mynd: T.Í.)
Mikolaj Ólafur Frach (Mynd: T.Í.)

Í dag hélt Mikolaj Ólafur Frach, 13 ára nemandi í 8. bekk G.Í., píanótónleika í Hömrum á Ísafirði. Húsfyllir var á tónleikunum og voru gestir hugfangnir af þessum unga píanósnillingi, sem spilaði verk eftir Schumann, Bach, Tchaikovsky, Moszkowski, Chopin og Beethoven.

Við eigum örugglega eftir að heyra mikið meira frá þessum unga píanóleikara í framtíðinni og óskum honum alls hins besta í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Afrakstur þemadaga kynntur

1 af 3

Í dag lauk þemadögum með yfirgripsmikilli sýningu í nýja anddyri skólans. Þar gat að líta ýmsar útfærslur á vinnu nemenda síðustu tvo daga. Framfarir og sköpun var yfirskrift þemadaganna að þessu sinni og mátti sjá samantekt og myndir frá framförum í gegnum tíðina og allt til nýsköpunar á hinum ýmsu tækjum og tólum. Krakkarnir stóðu sig einstaklega vel í öllu þessu umstangi sem þemadögum fylgir eins og á afrakstrinum sést.

Margir foreldrar og velunnarar skólans komu og skoðuðu sýninguna í dag og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Sýningin verður opin á næstunni og er öllum velkomið að koma við og sjá hvað ungdómurinn er frjór í hugsun.


Nálgast má myndir og myndbönd frá þemadögunum og sýningunni sjálfri hér til vinstri á síðunni, undir hnöppunum myndasafn og myndbönd.

Saman sköpum við skóla

Skólinn er stofnun sem hefur margháttað hlutverk í samfélaginu.  Eitt af hlutverkum hans er að þjóna þörfum samfélagsins hvað varðar uppeldi og menntun ungmenna.  Til að vel geti tekist til með þetta hlutverk þarf starfsfólk skólans að þekkja þessar þarfir svo hægt sé að velja skynsamlegar leiðir til að vinna að því að uppfylla þær.  En skólinn á líka að hafa mótandi áhrif í samfélaginu og á að vinna með samfélaginu að því að styrkja jákvæða samfélagsþætti og leiðrétta þætti sem hafa neikvæð samfélagsleg áhrif.  Samfélagið þarf að standa með skólanum í þessu.  Til að við getum sem best unnið saman að því að skapa skólann sem við viljum ,,eiga“ hér á Ísafirði er nauðsynlegt að við tölum saman um hvaða þættir það eru sem okkur finnast mikilvægir og hvernig við getum hjálpast að við að efla þá.  Í byrjun október héldum við samræðufund með nemendum þar sem þeir lýstu sinni sýn á skólastarfið og komu með tillögur um hvernig væri hægt að gera betur og nú er komið að foreldrum og starfsmönnum.  Laugardaginn 2. nóvember bjóðum við öllum foreldrum og starfsmönnum  til samræðufundar um skólastarfið.  Fundurinn verður í sal skólans og hefst  kl. 10:00 og gera má ráð fyrir að hann standi til 14:00.  Unnið verður með þjóðfundasniði að því að finna leiðir til að gera skólann okkar betri. Súpa og brauð verður í boði foreldrafélagsins í hádeginu.

Foreldrar eru beðnir um að skrá sig á netfangið sveinfridurve@isafjordur.is fyrir föstudaginn 1. nóvember. Skoðanir foreldra eru mikilvægar fyrir skólastarfið og því vonumst við til að sjá sem flesta.

Framfarir og sköpun

Þemadagar undir yfirskriftinni Framfarir og sköpun verða á morgun og föstudag. Nemendur hafa nú valið sér viðfangsefni eftir flokkum, en þeir eru:

  • Tækninýjungar - saga tækninnar og nýsköpun
  • Vísindamenn / uppfinningamenn
  • Skip tengd Skutulsfirði
  • Ísafjörður - menning og listir
  • Ísafjörður - framfarir og skipulag. 

Búast má við lífi í tuskunum næstu daga og verður virkilega spennandi að sjá nálgun nemenda á viðfangsefnunum. Á föstudag verður svo afraksturinn sýnilegur í nýja anddyri skólans og aðliggjandi göngum og eru allir að sjálfsögðu velkomnir að koma við hjá okkur í hádeginu á milli kl. 12:00 og 13:00.

Skóla lýkur kl. 13:00 þessa tvo daga og færist frístundin sem vera á á morgnana, til kl. 13:00. Dægradvölin verður einnig opnuð um leið og skóla lýkur.

Jól í skókassa

7.HS með jólagjafir handa fátækum í Úkraínu
7.HS með jólagjafir handa fátækum í Úkraínu

Verkefnið Jól í skókassa er hafið en það var fyrst framkvæmt haustið 2004. Þetta samstarfsverkefni KFUM og KFUK á Íslandi við KFUM í Úkraínu hefur skilað þúsundum skókassa með jólagjöfum til fátækra og munaðarlausra barna í Úkraínu og hafa fjölmargir lagt verkefninu lið. Frá því að verkefnið hófst hafa safnast ríflega 33.000 gjafir sem sendar hafa verið til Úkraínu og dreift af KFUM þar í landi á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Nemendur G.Í. eru svo sannarlega engir eftirbátar annarra og hafa 7. bekkingar verið að pakka inn gjöfum undanfarna daga. Í morgun fór svo 7. HS með 9 skókassa upp í Ísafjarðarkirkju, sem tekur við kössunum og kemur þeim áleiðis. Móttaka skókassana verður í Ísafjarðarkirkju alla virka daga frá klukkan 10 til 16 og er síðastii skiladagur föstudaginn 1. nóvember. Upplýsingar um hvað má fara í kassana og hvernig eigi að ganga frá þeim, er hægt að finna á vefsíðu verkefnisins en einnig er hægt að hafa samband við Ragney Líf Stefánsdóttur æskulýðsfulltrúa Æskulýðsfélags Ísafjarðarkirkju í síma 847 5240. 

Sjáumst í vetur!

Tími endurskinsmerkja er runninn upp og viljum við minna alla nemendur á að nota endurskinsmerki eða endurskinsvesti. Einnig viljum við minna á að þeir sem ferðast um á hjóli verða að útvega sér ljós á hjólið, bæði að framan og aftan. Við hvetjum alla foreldra og forráðamenn til að fylgja þessu eftir heima og aðstoða börn sín að setja merkin á réttu staðina.

Endurskinsmerkin og vestin eru lífsnauðsynleg eftir að dimma tekur. Sjónarhorn ökumanna er annað en gangandi og hjólandi vegfarenda þegar ferðast er um í myrkri. Ökumenn sjá ekki aðra vegfarendur úr fjarlægð nema að þeir noti ljós og/eða gott endurskin.

Höfum þetta hugfast og verum vel upplýst í umferðinni og sjáumst í vetur.