Íslenskir þjóðbúningar voru áberandi á þorrablóti 10. bekkjar
Góð mæting var á blótið
Í kvöld var þorrablót 10. bekkjar haldið í sal skólans. Það eru foreldrar og forráðamenn nemenda í 10. bekk sem hafa veg og vanda að blótinu og er þetta einn elsti og skemmtilegasti menningarviðburðurinn í skólastarfinu.
Kristján Andri Guðjónsson sá um veislustjórn af mikilli röggsemi og stýrði einnig fjöldasöng ásamt Ingunni Ósk Sturludóttur, við undirleik Beötu Joó.
Eftir að allir höfðu snætt sinn þorramat úr trogum buðu foreldrar og kennarar upp á skemmtiatriði, sem var mjög vel tekið. Að borðhaldi loknu var svo stiginn dans við harmóníkuleik og var virkilega gaman að sjá unglingana dansa gömlu dansana við foreldra, afa og ömmur. Íslenski þjóðbúningurinn var áberandi í kvöld og skörtuðu allar stúlkur 10. bekkjar slíkum búningum og setti það svo sannarlega skemmtilegan hátíðarsvip á samkomuna.
Til marks um það hversu mikilvægur þáttur þorrablótið er, þá fékk það tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2011. Þar kom fram að verkefnið miði að því að viðhalda sterkri hefð í skólanum. Tilgangurinn sé margþættur og megi í því sambandi nefna liðsheild innan foreldrahópsins, sem skipti miklu máli í samstarfi foreldra og unglinga.
Fjölmargar myndir frá þorrablótinu má finna hér inni á heimasíðu 10. bekkjar.