VALMYND ×

Fréttir

Mikolaj með píanótónleika

Mikolaj Ólafur Frach (Mynd: T.Í.)
Mikolaj Ólafur Frach (Mynd: T.Í.)

Í dag hélt Mikolaj Ólafur Frach, 13 ára nemandi í 8. bekk G.Í., píanótónleika í Hömrum á Ísafirði. Húsfyllir var á tónleikunum og voru gestir hugfangnir af þessum unga píanósnillingi, sem spilaði verk eftir Schumann, Bach, Tchaikovsky, Moszkowski, Chopin og Beethoven.

Við eigum örugglega eftir að heyra mikið meira frá þessum unga píanóleikara í framtíðinni og óskum honum alls hins besta í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Afrakstur þemadaga kynntur

1 af 3

Í dag lauk þemadögum með yfirgripsmikilli sýningu í nýja anddyri skólans. Þar gat að líta ýmsar útfærslur á vinnu nemenda síðustu tvo daga. Framfarir og sköpun var yfirskrift þemadaganna að þessu sinni og mátti sjá samantekt og myndir frá framförum í gegnum tíðina og allt til nýsköpunar á hinum ýmsu tækjum og tólum. Krakkarnir stóðu sig einstaklega vel í öllu þessu umstangi sem þemadögum fylgir eins og á afrakstrinum sést.

Margir foreldrar og velunnarar skólans komu og skoðuðu sýninguna í dag og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Sýningin verður opin á næstunni og er öllum velkomið að koma við og sjá hvað ungdómurinn er frjór í hugsun.


Nálgast má myndir og myndbönd frá þemadögunum og sýningunni sjálfri hér til vinstri á síðunni, undir hnöppunum myndasafn og myndbönd.

Saman sköpum við skóla

Skólinn er stofnun sem hefur margháttað hlutverk í samfélaginu.  Eitt af hlutverkum hans er að þjóna þörfum samfélagsins hvað varðar uppeldi og menntun ungmenna.  Til að vel geti tekist til með þetta hlutverk þarf starfsfólk skólans að þekkja þessar þarfir svo hægt sé að velja skynsamlegar leiðir til að vinna að því að uppfylla þær.  En skólinn á líka að hafa mótandi áhrif í samfélaginu og á að vinna með samfélaginu að því að styrkja jákvæða samfélagsþætti og leiðrétta þætti sem hafa neikvæð samfélagsleg áhrif.  Samfélagið þarf að standa með skólanum í þessu.  Til að við getum sem best unnið saman að því að skapa skólann sem við viljum ,,eiga“ hér á Ísafirði er nauðsynlegt að við tölum saman um hvaða þættir það eru sem okkur finnast mikilvægir og hvernig við getum hjálpast að við að efla þá.  Í byrjun október héldum við samræðufund með nemendum þar sem þeir lýstu sinni sýn á skólastarfið og komu með tillögur um hvernig væri hægt að gera betur og nú er komið að foreldrum og starfsmönnum.  Laugardaginn 2. nóvember bjóðum við öllum foreldrum og starfsmönnum  til samræðufundar um skólastarfið.  Fundurinn verður í sal skólans og hefst  kl. 10:00 og gera má ráð fyrir að hann standi til 14:00.  Unnið verður með þjóðfundasniði að því að finna leiðir til að gera skólann okkar betri. Súpa og brauð verður í boði foreldrafélagsins í hádeginu.

Foreldrar eru beðnir um að skrá sig á netfangið sveinfridurve@isafjordur.is fyrir föstudaginn 1. nóvember. Skoðanir foreldra eru mikilvægar fyrir skólastarfið og því vonumst við til að sjá sem flesta.

Framfarir og sköpun

Þemadagar undir yfirskriftinni Framfarir og sköpun verða á morgun og föstudag. Nemendur hafa nú valið sér viðfangsefni eftir flokkum, en þeir eru:

  • Tækninýjungar - saga tækninnar og nýsköpun
  • Vísindamenn / uppfinningamenn
  • Skip tengd Skutulsfirði
  • Ísafjörður - menning og listir
  • Ísafjörður - framfarir og skipulag. 

Búast má við lífi í tuskunum næstu daga og verður virkilega spennandi að sjá nálgun nemenda á viðfangsefnunum. Á föstudag verður svo afraksturinn sýnilegur í nýja anddyri skólans og aðliggjandi göngum og eru allir að sjálfsögðu velkomnir að koma við hjá okkur í hádeginu á milli kl. 12:00 og 13:00.

Skóla lýkur kl. 13:00 þessa tvo daga og færist frístundin sem vera á á morgnana, til kl. 13:00. Dægradvölin verður einnig opnuð um leið og skóla lýkur.

Jól í skókassa

7.HS með jólagjafir handa fátækum í Úkraínu
7.HS með jólagjafir handa fátækum í Úkraínu

Verkefnið Jól í skókassa er hafið en það var fyrst framkvæmt haustið 2004. Þetta samstarfsverkefni KFUM og KFUK á Íslandi við KFUM í Úkraínu hefur skilað þúsundum skókassa með jólagjöfum til fátækra og munaðarlausra barna í Úkraínu og hafa fjölmargir lagt verkefninu lið. Frá því að verkefnið hófst hafa safnast ríflega 33.000 gjafir sem sendar hafa verið til Úkraínu og dreift af KFUM þar í landi á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Nemendur G.Í. eru svo sannarlega engir eftirbátar annarra og hafa 7. bekkingar verið að pakka inn gjöfum undanfarna daga. Í morgun fór svo 7. HS með 9 skókassa upp í Ísafjarðarkirkju, sem tekur við kössunum og kemur þeim áleiðis. Móttaka skókassana verður í Ísafjarðarkirkju alla virka daga frá klukkan 10 til 16 og er síðastii skiladagur föstudaginn 1. nóvember. Upplýsingar um hvað má fara í kassana og hvernig eigi að ganga frá þeim, er hægt að finna á vefsíðu verkefnisins en einnig er hægt að hafa samband við Ragney Líf Stefánsdóttur æskulýðsfulltrúa Æskulýðsfélags Ísafjarðarkirkju í síma 847 5240. 

Sjáumst í vetur!

Tími endurskinsmerkja er runninn upp og viljum við minna alla nemendur á að nota endurskinsmerki eða endurskinsvesti. Einnig viljum við minna á að þeir sem ferðast um á hjóli verða að útvega sér ljós á hjólið, bæði að framan og aftan. Við hvetjum alla foreldra og forráðamenn til að fylgja þessu eftir heima og aðstoða börn sín að setja merkin á réttu staðina.

Endurskinsmerkin og vestin eru lífsnauðsynleg eftir að dimma tekur. Sjónarhorn ökumanna er annað en gangandi og hjólandi vegfarenda þegar ferðast er um í myrkri. Ökumenn sjá ekki aðra vegfarendur úr fjarlægð nema að þeir noti ljós og/eða gott endurskin.

Höfum þetta hugfast og verum vel upplýst í umferðinni og sjáumst í vetur.

Á flekamótum

Laugardaginn 26. október standa DKG konur á norðanverðum Vestfjörðum fyrir ráðstefnu um skil milli hinna ólíku viðfangsefna sem manneskjan vinnur að á ævi sinni. Ráðstefnan sem verður haldin í Háskólasetri Vestfjarða er öllum opin en þátttakendur beðnir um að skrá sig á netfangið jonabene@gmail.com


Meira

Löng helgi

Framundan er löng helgi, þar sem vetrarfrí er föstudaginn 18. október og mánudaginn 21. október. Þriðjudaginn 22. október er svo starfsdagur kennara, þannig að nemendur eiga 5 daga frí.

Fjölbreytni í skólastarfinu

Í vetur er boðið upp á valgreinar á miðstigi þar sem hægt er að velja mósaík, stuttmyndagerð, íþróttir og útivist, skák, skrautskrift, myndmennt, FabLab, dans, spil, lúðrasveit, kór, námskeið hjá Rauða krossinum eða skartgripagerð. Nemendur fá að fara á 8 stöðvar á skólaárinu og nú er fyrstu umferð að ljúka.

Hópurinn í stuttmyndagerð vann myndasýningu í Movie Maker og má sjá afrakstur þeirrar vinnu hér.

Krakkarnir í mósaík unnu listaverk á spegla og hönnuðu svo glæsilega spegla eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og einnig inni á myndasafni skólans. 

Íþróttahátíð

Í dag, föstudaginn 11. október verður haldin í Bolungarvík hin árlega íþróttahátíð grunnskóla á Vestfjörðum.  Keppni hefst kl. 11:00 og er áætlað að henni ljúki milli 18:30 og 19:00. Hlé verður gert til kl. 20:00 en þá hefst ball í skólanum sem lýkur kl. 23:30 og er aðgangseyrir kr. 1.500. Engin kennsla er því hjá 8. - 10. bekk í dag.

Keppnisgreinar eru hefðbundnar s.s. skák, sund, fótboti, körfubolti, badminton, dans, förðun, spurningakeppni og borðtennis.

Nánari upplýsingar hafa verið sendar heim til foreldra og forráðamanna.