VALMYND ×

Fréttir

Tarzan tekur völdin

Núna í tveimur síðustu vikunum fyrir jól er mikil gleði í íþróttatímunum. Tarzan tekur öll völd í íþróttasalnum við Austurveg og á Torfnesi, þar sem boðið er upp á hinn vinsæla Tarzanleik þar sem nemendur sveifla sér í köðlum og leika hinu ýmsu listir sínar.

Í síðasta sundtímanum fyrir jól fá svo allir nemendur að hafa sundleikföng meðferðis ef þeir kjósa svo. Skilyrði er þó að að allar fígúrur séu uppblásnar og geymdar í Sundhöllinni fyrir og eftir sundtíma til að einfalda krökkunum skipulagið og utanumhaldið.

Það má því búast við miklu fjöri í íþróttatímunum fram að jólaleyfi.

Eldvarnarvika

Í vikunni fékk 3. bekkur heimsókn frá tveimur starfsmönnum slökkviliðs Ísafjarðar sem fræddu nemendur um eldvarnir og mikilvægi rýmingaráætlunar í heimahúsum. Þeir komu einnig færandi hendi því krakkarnir fóru heim með plakat af Loga og Glóð, bók um eldvarnir, sögubók um Loga og Glóð og vasaljós. Aftast í sögubókinni eru svo spurningar sem krakkarnir eiga að svara við lestur bókarinnar og skila svo til kennarans.  Þar með eru þeir þátttakendur í eldvarnagetraun sem haldin er fyrir þriðja bekk ár hvert.  Vegleg verðlaun hafa verið fyrir þá sem vinna í þessari getraun og hafa vinningshafar oft komið frá Ísafirði og vonum við að svo verði einnig núna.

Grænmetisfat með ítölsku ívafi

Í heimilisfræðitíma nú á dögunum fengu nemendur í 5. bekk hráefni í ,,Grænmetisfat með ítölsku ívafi". Útfærslan var með frjálsri aðferð og gaman var að sjá skemmtilega  ólíka útkomu hjá hópunum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hæfileikaríkir 3. bekkingar

1 af 4

Hér í skólanum er margt gert til að brjóta upp hefðbundið skólastarf. Eitt af því er að halda svokallaðar bekkjarskemmtanir, þar sem nemendur sýna hinar ýmsu listir sínar og skemmta sér og öðrum. Krakkarnir í 3. bekk héldu eina slíka í síðustu viku og var virkilega glatt á hjalla hjá þeim eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Sagðir voru brandarar, farið með gátur, spilað á hljóðfæri, sungið,  sýnd töfrabrögð og lögð brella fyrir saklausan sjálfboðaliða.  

Dagur íslenskrar tónlistar

1. desember er dagur íslenskrar tónlistar en þar sem hann ber upp á sunnudag munum við halda upp á hann á mánudaginn, 2. desember. Þann dag klukkan 11:15 munu útvarpsstöðvar landsins spila þrjú íslensk lög og ætlum við að sameinast við útvarpstækin og syngja saman til heiðurs íslenskri tónlist. 

Opinn dagur

Mánudaginn 2. desember er opinn dagur hér í skólanum. Þá eru foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir sérstaklega hvattir til að koma í heimsókn inn í kennslustofur.

Umferðarkönnun nemenda

Auður Yngvadóttir, ökukennari, ásamt nemendum sínum frá Grunnskólanum á Ísafirði og Suðureyri.
Auður Yngvadóttir, ökukennari, ásamt nemendum sínum frá Grunnskólanum á Ísafirði og Suðureyri.

Nemendur í fornámi ökunáms, sem er valfag hér í skólanum, framkvæmdu umferðarkönnun hér í miðbænum nú fyrr í haust. Þeir skiptu með sér verkum og komu sér fyrir á fyrirfram ákveðnum stöðum í bænum þar sem auðvelt  var að hafa yfirsýn yfir hinar ýmsu aðstæður sem tengjast umferðinni. 

 

Niðurstöðurnar komu nemendum á óvart og þótti nokkuð sláandi hversu illa vegfarendur sinntu þeim fáu þáttum umferðarinnar sem kannaðir voru.  Sérstaklega voru það hámarkshraði, bílbeltanotkun og fjöldi þeirra sem ekki virtu stöðvunarskyldu, sem vakti athygli nemendanna.

  • Taldir voru 28 bílar sem óku inn í Krók af Hnífsdalsvegi. Af þeim óku 13 of hratt, eða 46% samkvæmt  hraðaskilti sem þar er.
  • Hvað stöðvunarskyldu varðar, þá stöðvaði aðeins einn ökumaður af sautján við stöðvunarskyldu við Hrannargötu gagnvart umferð um Fjarðarstræti,  eða aðeins 5,88%. Sláandi er hversu margir ökumenn virða ekki stöðvunarskylduna, þar sem þarna er um að ræða mjög hættuleg og blind gatnamót við stöðvunarskylduna. 
  • Þá voru einungis 53 farþegar af 94 með spennt öryggisbelti, eða 56,3% sem leið áttu um Skutulsfjarðarbraut þessar 40 mínútur sem könnunin tók. 

Þó svo könnunin sem slík sé ekki fyllilega marktæk sýna niðurstöður hennar að átaks sé þörf og mögulegt að nýta þær sem leiðarljós að bættri umferðarmenningu okkar bæjarbúa.

Jólaföndur Foreldrafélags G.Í.

Frá jólaföndri foreldrafélagsins fyrir nokkrum árum. (Mynd: bb.is)
Frá jólaföndri foreldrafélagsins fyrir nokkrum árum. (Mynd: bb.is)

Laugardaginn 30. nóvember heldur Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði jólaföndur í sal skólans frá kl. 11:00 - 13:00. Föndur verður selt á staðnum á hóflegu verði og einnig verður boðið upp á léttar veitingar.

Jólaföndur þetta er orðinn árviss atburður hjá foreldrafélaginu og hefur mælt mjög vel fyrir. Ætíð hefur verið góð þátttaka og sannkölluð jólastemning.


Lúsin á kreiki

Höfuðlús
Höfuðlús

Nú hefur höfuðlúsin gert vart við sig í nokkrum árgöngum skólans. Foreldrar eru þess vegna beðnir að fylgjast vel með hári barna sinna og annarra fjölskyldumeðlima. Mikilvægt er að allir sem fengið hafa bréf frá skólahjúkrunarfræðingi sýni samstöðu og fari að þeirri beiðni að kemba hár allra fjölskyldumeðlima reglubundið næstu tvær vikurnar, til að uppræta þennan vágest sem höfuðlúsin er.

Símatruflanir

Undanfarna daga hafa verið truflanir á símakerfi skólans. Við biðjumst afsökunar á þessum truflunum og biðjum fólk um að sýna þolinmæði þar til viðgerð hefur farið fram.