VALMYND ×

Fréttir

Stöðvum einelti!

Nemendur láta sig svo sannarlega einelti varða. Nokkrar stelpur í 9. bekk, þær Birta Dögg Guðnadóttir, Ingigerður Anna Bergvinsdóttir, Kolfinna Rós Veigarsdóttir Olsen og Natalía Kaja Fjölnisdóttir, tóku sig því til og gerðu myndband um einelti og hræðilegar afleiðingar þess. 

Myndbandið hefur vakið mikla athygli strax fyrsta sólarhringinn og m.a. verið birt á síðunni bleikt.is. 

Gott framtak hjá stelpunum, sem vita sem er að einelti á ekki að líðast og öll getum við lagt okkar af mörkum.

Söngkeppni Samfés

Í kvöld fer fram söngkeppni félagsmiðstöðva á Vestfjörðum. Keppnin fer fram á Hólmavík í þetta skiptið og koma keppendur frá flestum félagsmiðstöðvum á norðanverðum Vestfjörðum. Hópur nemenda frá G.Í. leggur af stað nú um hádegið, bæði keppendur og stuðningsmenn, ásamt starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar Djúpsins.

Við óskum ferðalöngunum góðrar ferðar og góðs gengis, en keyrt verður heim aftur í nótt.

Mikolaj í 3. sæti í Þýskalandi

Mikolaj Ólafur Frach, pínaóleikari
Mikolaj Ólafur Frach, pínaóleikari

Nú á dögunum tók Mikolaj Ólafur Frach, nemandi í 8. bekk, þátt í alþjóðlegri píanókeppni í Austur-Þýskalandi. Þátttakendur voru 120 úrvalsnemendur frá mörgum Evrópulöndum en Mikolaj var eini Íslendingurinn og er þetta fyrsta keppnin hans á erlendri grundu, að sögn Januszar Frach, föður hans.

Það er skemmst frá því að segja að Mikolaj hafnaði í 3. sæti í sínum aldursflokki, sem er aldeilis frábær árangur hjá þessum unga tónlistarmanni og óskum við honum innilega til hamingju.

Fyrirlestur um samskipti

Wilhelm Norðfjörð skólasálfræðingur mun verða með fyrirlestur um samskipti í sal skólans miðvikudaginn 15. janúar frá kl. 20-21. Fyrirlesturinn er öllum opinn og kostar ekkert.

Comeniusarverkefni 10. bekkjar

10. bekkur vinnur að Comeniusarverkefni í vetur eins og áður hefur komið fram. Því fylgja ýmis verkefni, stór og smá. Eitt af þeim var að nemendur áttu að lýsa jólaundirbúningi í skólanum okkar. Þá var þetta myndband tekið saman en í því má sjá að það er margt fallegt og skemmtilegt sem gert er í skólanum fyrir jólin og ekki hægt að segja annað en að 10. bekkur taki sig býsna vel út. 

Vísindamenn í 1. bekk

Nemendur í 1. bekk hafa fengist við ýmis rannsóknarverkefni í náttúrufræðinni í vetur. Að sjálfsögðu vinna þeir eins og alvöru vísindamenn, setja fram tilgátu, gera tilraun og skrá niðurstöður í tilraunabók.  Viðfangsefni gærdagsins var að kanna bráðnun á snjó.  Strax í gærmorgun voru tvær könnur fylltar af snjó. Önnur kannan var vafin inn í lopahúfu eða lopasjal en hin var látin standa óvarin. Krakkarnir settu fram tilgátu um hvað myndi gerast. Allir vissu að snjórinn bráðnar inni í hitanum en spurningin var í hvorri könnunni bráðnaði fyrr.  Nokkrar umræður urðu um þetta og reyndi á krakkana að geta útskýrt og rökstutt svar sitt.  Flestir héldu því fram að þar sem ullin heldur okkur heitum myndi snjórinn bráðna hraðar inni í lopanum, hann væri jú heitur.   Þeir skráðu tilgátuna í tilraunabókina og síðan hófst biðin eftir niðurstöðunum.  Eftir hádegi var hulunni svipt af könnunni og urðu margir hissa. Snjórinn í ullinni hafði bráðnað mun minna en snjórinn í hinni könnunni. Síðan var hlutunum velt fyrir sér og spurningar eins og af hverju og hvernig getur þetta verið.  

Niðurstaða tilraunarinnar varð sú að ullin einangarði svo vel að hún „héldi“ kuldanum inni í könnunni en hitanum frá. 

Það er sem sagt hægt að nota ull eins og hitabrúsa þ.e. hægt að setja heitt eða kalt á flösku og setja síðan flöskuna  í ull til að halda henni heitri eða kaldri.  Niðurstöðurnar voru síðan skráðar í tilraunabókina.

Gísli Jörgen handknattleiksmaður Harðar

Gísli Jörgen Gíslason (mynd: visir.is)
Gísli Jörgen Gíslason (mynd: visir.is)

Gísli Jörgen Gíslason, nemandi í 10.bekk G.Í. hefur verið útnefndur handknattleiksmaður Knattspyrnufélagsins Harðar og er hann jafnframt tilnefndur sem íþróttamaður Ísafjarðar fyrir árið 2013. Hann hefur sýnt mikinn metnað í handknattleiknum, mætir á allar æfingar, æfir eins mikið aukalega og kostur er og er í U16 landsliðsúrtaki fyrir 1998 árganginn. Gísli Jörgen sem leikur stöðu vinstri skyttu hjá Herði gegnir lykilhlutverki hjá 4.flokki félagsins ásamt því að spila einnig mikið með 2.flokki, að því er fram kemur á heimasíðu Harðar.
Við óskum Gísla Jörgen innilega til hamingju með þessu miklu viðurkenningu og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Fjölbreytt námskeið í frístund

Í haust hefur ákveðinn hópur nemenda í 1. - 4. bekk verið á valnámskeiði hjá Albertu G. Guðbjartsdóttur og Snorra S. Jónssyni, starfsmönnum dægradvalar, en valnámskeiðið er hluti af frístund nemenda á milli kl. 11 og 12 á daginn. Verkefnin hafa verið fjölbreytt s.s. spil, bingó, tafl, föndur, teikning og málun. Einnig hefur hópurinn farið í heimsóknir í hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir í bænum.

Það hefur greinilega verið mjög gaman á þessu valnámskeiði eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi

Jólaleyfi

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum sínum, fjölskyldum þeirra og öðrum velunnurum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.

Kennsla hefst á nýju ári þriðjudaginn 7. janúar kl. 8:00.

Skreytingardagur og litlu jól

Á morgun, fimmtudaginn 19. desember, er svokallaður skreytingardagur hér í skólanum. Þá ljúka nemendur við að skreyta og ganga frá bekkjarstofum sínum fyrir litlu jólin og koma öllu í hátíðlegan búning. Viðveran hjá 1. - 4. bekk er eins og venjulega frá 8 - 14, en eldri nemendur verða búnir kl. 13:00. Mötuneytið verður opið í síðasta sinn á þessu ári.

Á föstudaginn verða svo litlu jólin haldin hátíðleg. Þá mæta allir prúðbúnir kl. 9:00 og mæta í sínar bekkjarstofur. Þar verður hátíðleg stund, en auk þess verður gengið í kringum jólatréð samkvæmt venju og einhverjir rauðklæddir sveinar kíkja í heimsókn. Skóladegi lýkur kl. 12:00 og fer strætó kl. 12:10. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00 - 16:00 og þar með hefst jólaleyfi nemenda.

Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 7. janúar 2014 samkvæmt stundaskrá.