VALMYND ×

Fréttir

Söngvaseiður

Julie Andrews í hlutverki sínu í Söngvaseið árið 1965.
Julie Andrews í hlutverki sínu í Söngvaseið árið 1965.

Hin árlega 1. des. hátíð skólans verður haldin föstudaginn 29. nóvember næstkomandi.  Þá verður söngleikurinn Söngvaseiður (The sound of music) frumsýndur kl. 20:00 undir leikstjórn Elfars Loga Hannessonar, en sú sýning er einungis fyrir unglingastig skólans. Á eftir munu unglingarnir svo stíga dans fram undir miðnætti.


Aðrar sýningar verða  laugardaginn 30. nóvember kl. 14:00 og sunnudaginn 1. desember kl. 14:00. Miðaverð er kr. 1.500 fyrir almenning, en kr. 1.000 fyrir grunnskólanemendur og eldri borgara. Ókeypis er fyrir 6 ára og yngri.

 

Við hvetjum alla til að koma og sjá þessa skemmtilegu leiksýningu, sem nemendur hafa lagt mjög mikla vinnu í, hvort heldur eru leikæfingar, lýsing, hljóð, leikmynd eða annað.

Listhneigðir nemendur

1 af 4

Þessa dagana hanga uppi á veggjum skólans ýmis glæsileg myndlistaverk sem nemendur hafa unnið að undanfarnar vikur. Náttúrmyndir eru áberandi, enda var eitt viðfangsefnið ,,Fjallasýn og umhverfið við Norðurtanga" og var það vatnslitað í haustveðrinu. Sjá má ýmis kennileiti og örnefni sem fyrir augu bar s.s. Naustahvilft, Snæfjallaströnd, Kirkjubólshlíð og Eyrarhlíð.


Þá hafa nemendur einnig verið að mála vetrarmyndir í ýmsum útgáfum og má sjá afraksturinn hér inni á myndasíðu skólans. Aldeilis efnilegir myndlistarmenn hér á ferð.

Vel heppnuð rýmingaræfing

Í gær var rýmingaræfing hér í skólanum í samstarfi við Slökkvilið Ísafjarðarbæjar. Nauðsynlegt er að æfa útgönguleiðir og skipulag ef til bruna kæmi. Allir árgangar eiga sinn ákveðna stað í nágrenni skólans til að safnast saman og þurfa þá nafnalistar að vera klárir til að bregðast við ef einhver nemandi skilar sér ekki á söfnunarstað. Eins er með starfsfólk að merkja þarf við alla viðstadda til að stemma allt af.

Rýmingaræfingin tókst vel í alla staði og tók rétt rúmar 2 mínútur að tæma alla bygginguna.

Stóra upplestrarkeppnin sett formlega

Nemendur 8. bekkjar lásu upp og léku á hljóðfæri
Nemendur 8. bekkjar lásu upp og léku á hljóðfæri
1 af 10

Í dag var stóra upplestrarkeppnin sett formlega í Hömrum. Nemendur 8. bekkjar, sem tóku þátt í fyrra, lásu sögubrot og ljóð og  léku á píanó og harmóníku. Nemendur 7. bekkjar voru sérstakir gestir, þar sem þeir taka við keflinu og hefja nú markvissar æfingar í framsögn næstu mánuði. 

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni. Þetta á ekki síst við um lokahátíð keppninnar, sem haldin verður í mars 2014.

Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Skáldavika

Þórarinn Eldjárn
Þórarinn Eldjárn

Undanfarin ár hafa verið haldnar skáldavikur hér í skólanum, þar sem eitt ákveðið íslenskt skáld er kynnt sérstaklega. Þetta árið varð Þórarinn Eldjárn fyrir valinu og munu nemendur vinna fjölbreytt verkefni út frá verkum hans. Frá árinu 1975 hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi og hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagna og skáldsagna.  Þórarinn hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur fyrir börn í samstarfi við systur sína, myndlistarkonuna Sigrúnu Eldjárn og hafa þær hlotið fjölmargar viðurkenningar. 

Samvinnuverkefni nemenda

Nemendur í tölvuvali hafa undanfarið skilgreint hlutverk nemenda og kennara út frá uppbyggingarstefnunni sem skólinn vinnur eftir. Því næst tóku nemendur í Fablab vali við og útbjuggu límmiða fyrir hlutverkin sem tölvuvalsnemendur límdu að lokum upp á vegg í tölvuveri skólans. Afraksturinn sést á myndinni hér til hliðar.

Netnotkun barna og unglinga

SAFT  (Samfélag, fjölskylda og tækni) stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna  og  unglinga  hér  á  landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar  til vitundarvakningar  um möguleika  netsins  og örugga  netnotkun  barna  og  unglinga. 

Í könnuninni voru nokkrar spurningar um aðgengi barna og unglinga að klámi. Öll börn og unglingar í könnuninni voru spurð hvort þau hefðu óvart farið inn á vefsíður með myndum eða myndböndum af nöktu fólki/klámi á sl. 12 mánuðum en að auki voru þátttakendur í 6.-10. bekk spurðir hvort þeir hefðu viljandi farið inn á slíkar vefsíður auk annarra spurninga því tengt.



Meira

Dagur íslenskrar tungu

Á morgun, laugardaginn 16. nóvember, er dagur íslenskrar tungu. Hann hefur verið haldinn hátíðlegur um allt land frá árinu 1996 á þessum degi sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. 

Á mánudaginn verður dagskrá í Hömrum af þessu tilefni og mun Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk verða sett þá. Einnig hefst svokölluð skáldavika, þar sem eitt íslenskt skáld er kynnt sérstaklega og varð Þórarinn Eldjárn fyrir valinu í þetta skiptið.

Lummubakstur utan dyra

1 af 2

Í vetur er boðið upp á hinar ýmsu valgreinar á miðstigi, þ.e. í 5. - 7. bekk og er ein þeirra greina útivist. Í morgun skelltu krakkarnir sér í lummubakstur, utan dyra að sjálfsögðu. Gleðin skein úr andlitum krakkanna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, enda er fátt sem stenst samanburð við heitar lummur á köldum vetrarmorgni.

Foreldradagur

Á morgun eru foreldraviðtöl í skólanum, en þá mæta nemendur ásamt foreldrum/forráðamönnum til umsjónarkennara. Aðrir kennarar verða líka til viðtals eftir þörfum hvers og eins. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að foreldrar bóka tíma sjálfir á mentor.is eftir því hvaða tími hentar hverjum og einum.

Engin kennsla verður því á morgun, en dægradvöl er opin frá kl. 14:00 - 16:00.