VALMYND ×

Fréttir

Kórsöngur

1 af 4

Í morgun fengu nemendur góða heimsókn, þegar tveir kórar Tónlistarskóla Ísafjarðar stigu á stokk og sungu nokkur jólalög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur við undirleik Péturs Ernis Svavarssonar. Yngri kórinn er skipaður nemendum úr 1. - 4. bekk G.Í. og sá eldri nemendum 5. - 7. bekkjar og eru kóræfingar hluti af valgreinum nemenda hér í skólanum.

Áheyrendur kunnu vel að meta þessa heimsókn og þökkum við kórunum kærlega fyrir þetta skemmtilega framlag. Hér er hægt að nálgast upptöku frá tónleikunum.

Lesið fyrir nemendur

Þröstur Jóhannesson með nýútkomna bók sína. (Mynd: www.vf.is)
Þröstur Jóhannesson með nýútkomna bók sína. (Mynd: www.vf.is)

Í morgun kom rithöfundurinn Þröstur Jóhannesson og bauð 5. - 7. bekk upp á upplestur úr nýútkominni bók sinni ,,Sagan af Jóa". Sagan fjallar um hinn 11 ára gamla Jóa, sem er með mjög ríkt ímyndunarafl. Í huga hans flýgur sjóræningjaskipið Algata og er förinni heitið til London að bjarga pabba Jóa úr ógöngum. Í raunveruleikanum hefur Jói tekið afdrifaríka ákvörðun sem dregur dilk á eftir sér og ekki skánar ástandið þegar raunveruleikinn og hinn ímyndaði sjóræningjaheimur fara að renna saman í eitt. Allt virðist stefna í óefni og Jói veltir fyrir sér hvort sjóræningjum sé yfir höfuð treystandi.

Nemendur kunnu vel að meta upplestur höfundar og kunnum við honum kærar þakkir fyrir.

Þess má til gamans geta að Pétur Guðmundsson, myndmenntakennari við skólann, myndskreytti bókina eins og honum er einum lagið.

Kakó í skammdeginu

Það er ýmislegt hægt að gera núna í svartasta skammdeginu annað en að grúfa yfir bókarskruddum. Í vikunni fór 1. bekkur upp í Jónsgarð, hitaði sér kakó yfir eldi og átti þar notalega stund. Krakkarnir hengdu ljósluktir á greinarnar til að skapa notalega stemningu og tókst það svo sannarlega.  Á meðan vatnið hitnaði voru margir snjókarlar sem lifnuðu við og í bakaleiðinni renndu krakkarnir sér nokkrar ferðir á stórum hól og höfðu gaman af.

Nemendum boðið á jólasýningu Safnahúss

Jólatré fyrri tíma
Jólatré fyrri tíma
1 af 2

Þessa dagana er nemendum skólans boðið á jólasýningu í Safnahúsinu á Ísafirði. Þar kynnir Jóna Símonía Bjarnadóttir, sagnfræðingur, jólahald á Íslandi á 5. tug síðustu aldar. Sýningin ber yfirskriftina Í hátíðarskapi og er samstarfsverkefni  Byggðasafns Vestfjarða, Bæjar- og héraðsbókasafnsins, Ljósmyndasafnsins á Ísafirði, Héraðsskjalasafnsins á Ísafirði og Listasafns Ísafjarðar.

Í morgun þáði 7.HS boðið og var margt sem kom nemendum á óvart varðandi jólahald fyrri ára. Krakkarnir voru sammála um það að við hefðum það gott í dag og býsna margt sem við megum þakka fyrir.

Tarzan tekur völdin

Núna í tveimur síðustu vikunum fyrir jól er mikil gleði í íþróttatímunum. Tarzan tekur öll völd í íþróttasalnum við Austurveg og á Torfnesi, þar sem boðið er upp á hinn vinsæla Tarzanleik þar sem nemendur sveifla sér í köðlum og leika hinu ýmsu listir sínar.

Í síðasta sundtímanum fyrir jól fá svo allir nemendur að hafa sundleikföng meðferðis ef þeir kjósa svo. Skilyrði er þó að að allar fígúrur séu uppblásnar og geymdar í Sundhöllinni fyrir og eftir sundtíma til að einfalda krökkunum skipulagið og utanumhaldið.

Það má því búast við miklu fjöri í íþróttatímunum fram að jólaleyfi.

Eldvarnarvika

Í vikunni fékk 3. bekkur heimsókn frá tveimur starfsmönnum slökkviliðs Ísafjarðar sem fræddu nemendur um eldvarnir og mikilvægi rýmingaráætlunar í heimahúsum. Þeir komu einnig færandi hendi því krakkarnir fóru heim með plakat af Loga og Glóð, bók um eldvarnir, sögubók um Loga og Glóð og vasaljós. Aftast í sögubókinni eru svo spurningar sem krakkarnir eiga að svara við lestur bókarinnar og skila svo til kennarans.  Þar með eru þeir þátttakendur í eldvarnagetraun sem haldin er fyrir þriðja bekk ár hvert.  Vegleg verðlaun hafa verið fyrir þá sem vinna í þessari getraun og hafa vinningshafar oft komið frá Ísafirði og vonum við að svo verði einnig núna.

Grænmetisfat með ítölsku ívafi

Í heimilisfræðitíma nú á dögunum fengu nemendur í 5. bekk hráefni í ,,Grænmetisfat með ítölsku ívafi". Útfærslan var með frjálsri aðferð og gaman var að sjá skemmtilega  ólíka útkomu hjá hópunum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hæfileikaríkir 3. bekkingar

1 af 4

Hér í skólanum er margt gert til að brjóta upp hefðbundið skólastarf. Eitt af því er að halda svokallaðar bekkjarskemmtanir, þar sem nemendur sýna hinar ýmsu listir sínar og skemmta sér og öðrum. Krakkarnir í 3. bekk héldu eina slíka í síðustu viku og var virkilega glatt á hjalla hjá þeim eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Sagðir voru brandarar, farið með gátur, spilað á hljóðfæri, sungið,  sýnd töfrabrögð og lögð brella fyrir saklausan sjálfboðaliða.  

Dagur íslenskrar tónlistar

1. desember er dagur íslenskrar tónlistar en þar sem hann ber upp á sunnudag munum við halda upp á hann á mánudaginn, 2. desember. Þann dag klukkan 11:15 munu útvarpsstöðvar landsins spila þrjú íslensk lög og ætlum við að sameinast við útvarpstækin og syngja saman til heiðurs íslenskri tónlist. 

Opinn dagur

Mánudaginn 2. desember er opinn dagur hér í skólanum. Þá eru foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir sérstaklega hvattir til að koma í heimsókn inn í kennslustofur.