Vel heppnuð Portúgalsferð
Fyrr í þessum mánuði fóru 10 nemendur úr 10. bekk ásamt kennurum og skólastjóra til Portúgals, en ferðin er hluti af Comeniusarverkefninu sem skólinn tekur þátt í. Ferðin gekk mjög vel og alveg samkvæmt áætlun. Dagskrá heimsóknarinnar var mjög þétt og löng, svo að iðulega var farið að sofa eftir miðnætti og á fætur kl. 7.
Fyrsta daginn var farið á karnival í bænum Nazaré og var gaman að sjá hvernig Portúgalir halda upp á föstuinnganginn. Næsta dag var farið í bæ sem heitir Fatima og er að mestu byggður í kringum sögu af kraftaverki þar sem börn sáu Maríu mey birtast sér úti í haga. Þar voru aðallega skoðaðar kirkjur og fleiri helgir staðir. Síðustu tveir dagarnir voru svo nýttir til að heimsækja skólann í Leiria og var það mjög fróðlegt og skemmtilegt. Hópurinn fékk örstutta skoðunarferð í Lissabon á heimleiðinni, rétt nógu langa til að vita að þangað þarf maður að koma aftur í betra tómi.
Nemendurnir voru til mikils sóma og vöktu alls staðar athygli fyrir fallega og skemmtilega framkomu, svo að þeir sjálfir og allir þeirra aðstandendur geta verið stoltir af.
Deila