VALMYND ×

Fréttir

Framfarir og sköpun

Þemadagar undir yfirskriftinni Framfarir og sköpun verða á morgun og föstudag. Nemendur hafa nú valið sér viðfangsefni eftir flokkum, en þeir eru:

  • Tækninýjungar - saga tækninnar og nýsköpun
  • Vísindamenn / uppfinningamenn
  • Skip tengd Skutulsfirði
  • Ísafjörður - menning og listir
  • Ísafjörður - framfarir og skipulag. 

Búast má við lífi í tuskunum næstu daga og verður virkilega spennandi að sjá nálgun nemenda á viðfangsefnunum. Á föstudag verður svo afraksturinn sýnilegur í nýja anddyri skólans og aðliggjandi göngum og eru allir að sjálfsögðu velkomnir að koma við hjá okkur í hádeginu á milli kl. 12:00 og 13:00.

Skóla lýkur kl. 13:00 þessa tvo daga og færist frístundin sem vera á á morgnana, til kl. 13:00. Dægradvölin verður einnig opnuð um leið og skóla lýkur.

Jól í skókassa

7.HS með jólagjafir handa fátækum í Úkraínu
7.HS með jólagjafir handa fátækum í Úkraínu

Verkefnið Jól í skókassa er hafið en það var fyrst framkvæmt haustið 2004. Þetta samstarfsverkefni KFUM og KFUK á Íslandi við KFUM í Úkraínu hefur skilað þúsundum skókassa með jólagjöfum til fátækra og munaðarlausra barna í Úkraínu og hafa fjölmargir lagt verkefninu lið. Frá því að verkefnið hófst hafa safnast ríflega 33.000 gjafir sem sendar hafa verið til Úkraínu og dreift af KFUM þar í landi á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Nemendur G.Í. eru svo sannarlega engir eftirbátar annarra og hafa 7. bekkingar verið að pakka inn gjöfum undanfarna daga. Í morgun fór svo 7. HS með 9 skókassa upp í Ísafjarðarkirkju, sem tekur við kössunum og kemur þeim áleiðis. Móttaka skókassana verður í Ísafjarðarkirkju alla virka daga frá klukkan 10 til 16 og er síðastii skiladagur föstudaginn 1. nóvember. Upplýsingar um hvað má fara í kassana og hvernig eigi að ganga frá þeim, er hægt að finna á vefsíðu verkefnisins en einnig er hægt að hafa samband við Ragney Líf Stefánsdóttur æskulýðsfulltrúa Æskulýðsfélags Ísafjarðarkirkju í síma 847 5240. 

Sjáumst í vetur!

Tími endurskinsmerkja er runninn upp og viljum við minna alla nemendur á að nota endurskinsmerki eða endurskinsvesti. Einnig viljum við minna á að þeir sem ferðast um á hjóli verða að útvega sér ljós á hjólið, bæði að framan og aftan. Við hvetjum alla foreldra og forráðamenn til að fylgja þessu eftir heima og aðstoða börn sín að setja merkin á réttu staðina.

Endurskinsmerkin og vestin eru lífsnauðsynleg eftir að dimma tekur. Sjónarhorn ökumanna er annað en gangandi og hjólandi vegfarenda þegar ferðast er um í myrkri. Ökumenn sjá ekki aðra vegfarendur úr fjarlægð nema að þeir noti ljós og/eða gott endurskin.

Höfum þetta hugfast og verum vel upplýst í umferðinni og sjáumst í vetur.

Á flekamótum

Laugardaginn 26. október standa DKG konur á norðanverðum Vestfjörðum fyrir ráðstefnu um skil milli hinna ólíku viðfangsefna sem manneskjan vinnur að á ævi sinni. Ráðstefnan sem verður haldin í Háskólasetri Vestfjarða er öllum opin en þátttakendur beðnir um að skrá sig á netfangið jonabene@gmail.com


Meira

Löng helgi

Framundan er löng helgi, þar sem vetrarfrí er föstudaginn 18. október og mánudaginn 21. október. Þriðjudaginn 22. október er svo starfsdagur kennara, þannig að nemendur eiga 5 daga frí.

Fjölbreytni í skólastarfinu

Í vetur er boðið upp á valgreinar á miðstigi þar sem hægt er að velja mósaík, stuttmyndagerð, íþróttir og útivist, skák, skrautskrift, myndmennt, FabLab, dans, spil, lúðrasveit, kór, námskeið hjá Rauða krossinum eða skartgripagerð. Nemendur fá að fara á 8 stöðvar á skólaárinu og nú er fyrstu umferð að ljúka.

Hópurinn í stuttmyndagerð vann myndasýningu í Movie Maker og má sjá afrakstur þeirrar vinnu hér.

Krakkarnir í mósaík unnu listaverk á spegla og hönnuðu svo glæsilega spegla eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og einnig inni á myndasafni skólans. 

Íþróttahátíð

Í dag, föstudaginn 11. október verður haldin í Bolungarvík hin árlega íþróttahátíð grunnskóla á Vestfjörðum.  Keppni hefst kl. 11:00 og er áætlað að henni ljúki milli 18:30 og 19:00. Hlé verður gert til kl. 20:00 en þá hefst ball í skólanum sem lýkur kl. 23:30 og er aðgangseyrir kr. 1.500. Engin kennsla er því hjá 8. - 10. bekk í dag.

Keppnisgreinar eru hefðbundnar s.s. skák, sund, fótboti, körfubolti, badminton, dans, förðun, spurningakeppni og borðtennis.

Nánari upplýsingar hafa verið sendar heim til foreldra og forráðamanna.

Skáld í skólum

Í dag er nemendum G.Í. boðið upp á bókmenntadagskrána Skáld í skólum, sem er á vegum Rithöfundasambands Íslands í samvinnu við Miðstöð íslenskra bókmennta. Rithöfundarnir Hildur Knútsdóttir og Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl stinga á kýlum og leika fyrir lærdómi, lesa ljóð og prósa, sýna teiknimyndir og leiknar stuttmyndir, og ræða hvaða merkingu það hefur að vera skáld, verða skáld og þurfa alltaf að vera þetta andskotans skáld - eins og segir í kynningu

Um er að ræða 40 mínútna dagskrá í Hömrum í dag,  sem hentar öllum aldurshópum.

Forvarnardagurinn

Forvarnardagurinn er í dag, miðvikudaginn 9. október. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Nánari upplýsingar varðandi forvarnardaginn er á heimasíðu verkefnisins.

Nóg um að vera í Djúpinu

Vetrarstarf félagsmiðstöðvarinnar Djúpsins er nú hafið af fullum krafti. Að sögn Estherar Óskar Arnórsdóttur, forstöðumanns, er þétt dagskrá framundan og ljóst að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Síðastliðinn föstudag var Beggi blindi með uppistand og í kvöld er förðunarkeppni. Á næstunni eru fyrirhugaðir lufsufundir fyrir stelpur, ullarsokkabandí, V.I.P. fundir fyrir stráka, foreldrakvöld, hæfileikakeppni, ratleikur, brennibolti, Great Gatsby ball og ýmislegt fleira.

Djúpið er opið á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar. Nánari upplýsingar má sjá hér á Facebook síðu Djúpsins.