VALMYND ×

Fréttir

Fjármálafræðsla

Nemendur nutu fróðleiks og veitinga
Nemendur nutu fróðleiks og veitinga

Nú nýlega fóru nemendur 9. bekkjar í heimsókn í banka bæjarins og fengu fræðslu um ýmislegt sem viðkemur fjármálum. Skipt var í tvo hópa, annar hópurinn fór í Landsbankann og hinn í Íslandsbanka. Báðir hóparnir stóðu sig mjög vel, nemendur voru kurteisir og prúðir og spurðu gáfulegra spurninga eins og þeirra var von og vísa. Móttökurnar voru glæsilegar á báðum stöðum, góðar veitingar og mikilvægar upplýsingar. Var gerður góður rómur að þessum heimsóknum, nemendur voru margs vísari þegar heim kom og hafa eflaust getað frætt fólkið sitt heima.

Nemendur 10. bekkjar fengu einnig fjármálafræðslu í síðustu viku, þegar Rósa Ingólfsdóttir skattstjóri kom í heimsókn og fræddi þá um skattamál. Flutti hún góðan fyrirlestur og voru nemendur mjög duglegir að spyrja um ýmislegt sem brann á vörum þeirra varðandi þeirra skattamál.

Skólahreysti

Keppendur G.Í. frá vinstri: Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli Rafn og Friðrik Þórir.
Keppendur G.Í. frá vinstri: Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli Rafn og Friðrik Þórir.

Í kvöld sýnir RÚV frá undankeppninni í Vestfjarðariðli Skólahreysti, sem fram fór í síðasta mánuði. Grunnskólinn á Ísafirði tryggði sér þar sigur í riðlinum og þar með þátttökurétt í úrslitum Skólahreysti MS 2013, sem fram fara í Laugardalshöll 2. maí n.k.

Nú er um að gera að setjast fyrir framan skjáinn kl. 21:10 í kvöld og sjá þessi glæsilegu ungmenni okkar taka á því.

Lestrarlota

Í dag hefst lestrarlota hér í skólanum og munu þá allir, bæði starfsfólk og nemendur,  lesa í hljóði frá kl. 8:10 - 8:30 á morgnana, fram í næstu viku. Þriðjudaginn 23. apríl er alþjóðlegur dagur bókarinnar, en sá dagur er fæðingardagur Halldórs Kiljan Laxness og dánardagur William Shakespeares. Dagurinn er ætlaður til að hvetja ungt fólk til yndislesturs og er hann ennfremur tileinkaður rithöfundum og útgefendum. Lestrarlotunni lýkur miðvikudaginn 24. apríl.

Sigursælir nemendur

Keppendurnir allir ásamt kennurum og skólastjóra T.Í.
Keppendurnir allir ásamt kennurum og skólastjóra T.Í.

Báðir hópar tónlistarnemendanna sem kepptu á lokahátíð Nótunnar í Hörpunni um liðna helgi, gerðu sér lítið fyrir og unnu báðir til verðlauna. Skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar vann Nótuna í miðnámi ásamt tveimur öðrum atriðum og hljómsveit píanónemenda vann sérstök ÍSMÚS verðlaun fyrir frumlegasta atriði hátíðarinnar.

Glæsileg frammistaða hjá þessu unga fólki okkar, sem við óskum svo sannarlega til hamingju með árangurinn.

Fylgdu hjartanu

Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson

Í fyrradag kom Þorgrímur Þráinsson í heimsókn í 10. bekk með forvarnafræðslu undir yfirskriftinni Fylgdu hjartanu. Þessi fræðsla Þorgríms beinist að því að styrkja sjálfsmeðvitund nemenda áður en þeir fara í framhaldsskóla, ekki síst að setja sér markmið í lífinu og ná þeim. 

Nemendur létu mjög vel af fræðslu Þorgríms og þótti hún gagnleg.

Nemendur á leið í Hörpuna

Sunnudaginn 14. apríl fer fram Lokahátíð Nótunnar, uppskeruhátíðar íslenskra tónlistarskóla í Eldborgarsal Hörpu í Reykjavík.
Á tónleikunum verða 24 tónlistaratriði, víðs vegar að af landinu, sem valin voru laugardaginn 16. mars á fernum svæðistónleikum á Ísafirði, Egilsstöðum, Reykjavík og Selfossi. Af þremur tónlistaratriðum frá Vesturlandi og Vestfjörðum sem valin voru til þátttöku í Eldborgartónleikunum koma tvö frá Tónlistarskóla Ísafjarðar, en það eru skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar og hljómsveit píanónemenda. Með kórnum syngja nokkrir nemendur G.Í., þau Pétur Ernir Svavarsson, Birta Rós Þrastardóttir, Brynja Sólrún Árnadóttir, Hekla Hallgrímsdóttir og Hilda María Sigurðardóttir. Þá leikur Hilmar Adam Jóhannsson með hljómsveit píanónemenda, bæði á píanó og fiðlu og er yngsti meðlimur hljómsveitarinnar.

Það verður gaman að fylgjast með þessum hæfileikaríku krökkum og óskum við þeim góðs gengis.

Nánari upplýsingar er að finna inni á heimasíðu Tónlistarskóla Ísafjarðar og Nótunnar.

Fundað um framtíð skólalóðarinnar

Í síðustu viku voru lagðar fram tillögur að breyttu skipulagi skólalóðarinnar. Tveir nemendur frá hverjum árgangi frá 3. - 7. bekk fóru á kynningarfund með skólastjórnendum, þar sem tillögurnar voru kynntar. 

Nemendurnir tóku virkan þátt í umræðunum og höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Þeir eru mjög spenntir fyrir þeim framkvæmdum sem eru fyrirhugaðar og hlakka til að fá fjölbreyttari möguleika á hreyfingu í frímínútunum.

Hafragrautnum vel tekið

Tilraunin með hafragrautinn hefur gengið vonum framar. Boðið er upp á graut í hefðbundnum nestistíma nemenda og eru á milli 170 og 200 nemendur sem fá sér graut daglega og fara allt að 50 lítrar á dag. Nemendur eru mjög ánægðir og margir fá sér tvisvar á diskinn. Hjúkrunarfræðingur skólans hefur haft orð á því að mun minna hafi verið um komur nemenda vegna magaverkja í mars heldur en aðra mánuði, þó að ekki séu neinar talningar eða vísindalegar sannanir þar að baki.

Það er því ljóst að við munum halda áfram að bjóða nemendum upp á hafragraut það sem eftir lifir skólaársins.

Páskaleyfi

Nú hefst páskaleyfi eftir glæsilega tveggja daga árshátíð, þar sem allir nemendur skólans skiluðu sínu með miklum sóma. Kennsla hefst að páskaleyfi loknu miðvikudaginn 3. apríl samkvæmt stundaskrá. 
Starfsfólk skólans óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öllum öðrum gleðilegra páska.

Árshátíð G.Í.

Árshátíð Grunnskólans á Ísafirði verður haldin fimmtudaginn 21. og föstudaginn 22. mars n.k. Þar munu allir árgangar stíga á stokk og sýna atriði sín undir yfirskriftinni Lífið er leikur.

Síðustu dagar hafa einkennst af undirbúningi fyrir árshátíðina, enda er mikið í lagt og allir nemendur skólans koma að skipulagningunni á einn eða annan hátt, þó svo að ekki alveg allir stígi á svið, en langflestir þó. Skólinn býður upp á fimm sýningar til að koma öllum að og er aðgangseyrir kr. 1.000 sem rennur í ferðasjóð verðandi 7. bekkjar fyrir skólabúðaferð að Reykjum í Hrútafirði næsta haust.

 

1. sýning – fimmtudaginn 21. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

2. sýning – fimmtudaginn 21. mars kl. 11:00.

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og gestir (t.d. þeir sem ekki komast á öðrum tíma)

 

3. sýning – fimmtudaginn 21. mars kl. 20:00.

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Foreldrar, gestir og almenningur.  Þetta er ekki nemendasýning.

 

4. sýning – föstudaginn 22. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

5. sýning – föstudaginn 22. mars kl. 20:00.

Flytjendur: 7.–10. bekkur,

Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra

Ball (fyrir nem. 8.-10. bk.) er að lokinni sýningu til miðnættis.