VALMYND ×

Vísindamenn í 1. bekk

Nemendur í 1. bekk hafa fengist við ýmis rannsóknarverkefni í náttúrufræðinni í vetur. Að sjálfsögðu vinna þeir eins og alvöru vísindamenn, setja fram tilgátu, gera tilraun og skrá niðurstöður í tilraunabók.  Viðfangsefni gærdagsins var að kanna bráðnun á snjó.  Strax í gærmorgun voru tvær könnur fylltar af snjó. Önnur kannan var vafin inn í lopahúfu eða lopasjal en hin var látin standa óvarin. Krakkarnir settu fram tilgátu um hvað myndi gerast. Allir vissu að snjórinn bráðnar inni í hitanum en spurningin var í hvorri könnunni bráðnaði fyrr.  Nokkrar umræður urðu um þetta og reyndi á krakkana að geta útskýrt og rökstutt svar sitt.  Flestir héldu því fram að þar sem ullin heldur okkur heitum myndi snjórinn bráðna hraðar inni í lopanum, hann væri jú heitur.   Þeir skráðu tilgátuna í tilraunabókina og síðan hófst biðin eftir niðurstöðunum.  Eftir hádegi var hulunni svipt af könnunni og urðu margir hissa. Snjórinn í ullinni hafði bráðnað mun minna en snjórinn í hinni könnunni. Síðan var hlutunum velt fyrir sér og spurningar eins og af hverju og hvernig getur þetta verið.  

Niðurstaða tilraunarinnar varð sú að ullin einangarði svo vel að hún „héldi“ kuldanum inni í könnunni en hitanum frá. 

Það er sem sagt hægt að nota ull eins og hitabrúsa þ.e. hægt að setja heitt eða kalt á flösku og setja síðan flöskuna  í ull til að halda henni heitri eða kaldri.  Niðurstöðurnar voru síðan skráðar í tilraunabókina.

Deila