VALMYND ×

Fréttir

Comeniusarverkefni í 10. bekk

Í vetur vinnur 10. bekkur G.Í. að Comeniusarverkefni í samstarfi við skóla í Rúmeníu, Portúgal, Kýpur og Póllandi. Yfirskrift verkefnisins er: All different, all the same, Europe‘s children!

Verkefninu verður hrundið af stað á Evrópska tungumáladeginum 26. sept. og unnið jafnt og þétt allan veturinn. Áhersla verður á ýmiss konar samskipti, gagnkvæmar heimsóknir og samskipti á netinu og fara öll samskipti fram á ensku.

Nánari upplýsingar varðandi þetta verkefni er að finna á heimasíðu 10. bekkjar.

Samræmd könnunarpróf hefjast í dag

Samkvæmt grunnskólalögum nr. 91/2008, skal leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4., 7. og 10. bekk að hausti ár hvert. Meginhlutverk prófanna er að veita nemendum, foreldrum þeirra og skólum, upplýsingar um námsstöðu við upphaf skólaársins.

 
Dagsetningar samræmdra könnunarprófa þetta haustið eru:

Mánudagur 23. september Íslenska 10. bekkur

Þriðjudagur 24. september Enska 10. bekkur

Miðvikudagur 25. september Stærðfræði 10. bekkur

Fimmtudagur 26. september Íslenska 4. og 7. bekkur

Föstudagur 27. september Stærðfræði 4. og 7. bekkur

 

Allar nánari upplýsingar varðandi prófin má nálgast á heimasíðu Námsmatsstofnunar.

Hreystibrautin formlega afhent

Ómar Helgason og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir
Ómar Helgason og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir
1 af 4

Í dag afhenti Ómar Helgason skólanum formlega hreystibrautina sem sett var upp á skólalóðinni nú í haust. Ómar smíðaði sjálfur þessa braut og setti hana upp, en auk hans lögðu Íslandsbanki, Landsbankinn, 3X Technology, Sjóvá, TM, VÍS og Húsasmiðjan sitt af mörkum til að þessi draumur gæti orðið að veruleika.

Skólinn þakkar öllum hlutaðeigandi kærlega fyrir þetta frábæra framtak. Það hefur verið virkilega gaman að sjá hversu góð nýting er á þessum tækjum, bæði á skólatíma sem utan hans.

Danskur farkennari að störfum í G.Í.

Julie Fleischmann að störfum í 7.HS
Julie Fleischmann að störfum í 7.HS

Síðastliðið vor gerðu Ísafjarðarbær og Menntavísindasvið Háskóla Íslands samning sín á milli vegna starfa dansks farkennara í skólum sveitarfélagsins. Samningurinn er gerður í tengslum við danskt-íslenskt samstarfsverkefni um stuðning við dönskukennslu á Íslandi.

Farkennarinn Julie Fleischmann kom til starfa í G.Í. 1. september s.l. og mun einnig heimsækja minni skóla sveitarfélagsins og starfa í 4 - 6 vikur á hverjum stað. Hún mun dvelja hér fram í desember og efla dönskukennslu, sérstaklega með tilliti til kennslu í munnlegri tjáningu og miðlun danskrar menningar.

Skólanum færð vegleg gjöf

f.v. Árný Halldórsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri.
f.v. Árný Halldórsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri.

Styrktarfélag fatlaðra á Vestfjörðum færði Grunnskólanum á Ísafirði gjafabréf að fjárhæð kr. 200.000 í morgun. Gjöfinni er ætlað að nýtast nemendum með sérþarfir og kemur svo sannarlega að góðum notum.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, veitti gjafabréfinu móttöku úr höndum Þuríðar Sigurðardóttur formanns styrktarfélagsins og Árnýjar Halldórsdóttur gjaldkera. Skólinn færir styrktarfélaginu hugheilar þakkir fyrir höfðinglega gjöf.

1. bekkur í ævintýraheimi

Elfar Logi Hannesson afhendir hljóðdiskinn góða
Elfar Logi Hannesson afhendir hljóðdiskinn góða

Síðastliðinn föstudag kom leikarinn Elfar Logi Hannesson í heimsókn í 1. bekk og var með mjög skemmtilega sýningu fyrir nemendur. Ferðaðist hann með nemendum í ævintýraheima þar sem krakkarnir rákust á ýmsar skrýtnar verur eins og þrjá tröllabræður, feimnu Búkollu og fleiri.

 

Að lokum gaf hann báðum bekkjadeildum sinn hvorn hljóðdiskinn af Galdrasögum.
1. bekkur þakkar Elfari Loga kærlega fyrir góða heimsókn og þessar höfðinglegu gjafir.

Tónlist fyrir alla

Hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans mun koma í heimsókn til okkar á morgun á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Hljómsveitin ætlar að fara með okkur í stutt ferðalag í máli, myndum og tónum til nokkurra af Balkanlöndunum. Á tónleikunum verður spilað á allskonar skemmtileg hljóðfæri s.s. saxófón, klarínett, tamboura, bouzouki, saz, tapan o.fl.

Tónleikarnir verða í Hömrum sem hér segir:
kl. 11:15 - 11:55  8.-10. bekkur

kl. 12:20 - 13:00  5.-7. bekkur og

kl. 13:00 - 13:40  1.-4. bekkur.  

 

Upphaf skólatónleika á Íslandi má rekja aftur til ársins 1994, þegar íslensku þjóðinni barst peningagjöf frá Norðmönnum í tilefni af lýðveldisafmæli Íslands árið 1994 og skyldu þessir fjármunir notaðir til að efla tónlistar- og menningarstarf í grunnskólum á Íslandi.

Allt frá árinu 1995 hefur verði staðið fyrir tónleikum í grunnskólum landsins þar sem boðið er upp á vandaða skólatónleika fyrir börn þar sem skemmtun og menntun haldast í hendur.

Kynningarfundur um nýja aðalnámskrá

Ný aðalnámskrá boðar talsverðar breytingar og uppstokkun á starfsháttum og inntaki náms á Íslandi. Af þeim sökum standa Heimili og skóli fyrir kynningarfundum víðs vegar um landið árið 2013 þar sem foreldrum er boðið að koma og fræðast um nýja námskrá. Á kynningunum verður farið í eftirfarandi atriði:

• Grunnþættir menntunar
• Ný og fjölbreytt vinnubrögð
• Hæfni og lykilhæfni
• Nýtt námsmat
• Skörun hæfniþrepa

Næsti fundur verður haldinn fimmtudaginn 12. september kl. 19.30 á sal Grunnskólans á Ísafirði.

Mér finnst rigningin góð...

Það voru hressir og sprækir grunnskólanemendur sem tóku þátt í Norræna skólahlaupinu í gær og létu ekki rigninguna á sig fá. Krakkarnir hlupu ýmist að Engi, Seljalandi eða alla leið inn að tjaldstæðinu í Tungudal og til baka aftur að Bæjarbrekku.

Myndir frá hlaupinu má sjá hér.

Norræna skólahlaupið

Miðvikdaginn 11. september verður hið árlega Norræna skólahlaup. Hlaupið verður frá Bæjarbrekku við Seljalandsveg og inn Seljalandsveg að Seljalandi og þangað áfram inn í skóg.

 

Kl. 10.00  1. - 4. bekkur fer að Engi

Kl. 10.05  5. - 7. bekkur fer að Seljalandi

Kl. 10.10  8. - 10. bekkur getur valið um hlaup að Seljalandi eða inn að tjaldsvæðinu í Tungudal.

 

Starfsmenn áhaldahúss bæjarins ásamt lögreglu munu leggja okkur lið hvað varðar umferðaröryggi og verður helstu götum lokað á meðan á hlaupinu stendur.