VALMYND ×

Fréttir

Nemendafélaginu færð gjöf

Árgangur 1967 heimsótti skólann nú á dögunum, en árgangurinn er 30 ára gagnfræðingar í ár. Af því tilefni færði hópurinn nemendafélagi Grunnskólans á Ísafirði kr. 50.000 til tækjakaupa, með von um að þeir fjármunir nýtist vel.

Nemendafélagið og skólinn þakka kærlega höfðinglega gjöf.

Heimför frá Reykjum

Vegna slæmrar veðurspár á morgun hefur verið ákveðið að flýta heimför 7.bekkja frá Reykjum í Hrútafirði.  Gert er ráð fyrir að leggja af stað kl. 9 (föstudagsmorgun) og heimkoma á milli 14 og 15.  Nánari upplýsinga er svo að vænta á morgun.

9. bekkur á Kistufelli

9. bekkur
9. bekkur

Í gær fór 9. bekkur í hina árlegu fjallgöngu og var að þessu sinnu gengið á Kistufell. Gengið var frá gönguskíðaskálanum á Seljalandsdal og tók gangan upp á Kistufell tvo og hálfan tíma.

Þegar þangað var komið var notið útsýnis til allra átta s.s til Bolungarvíkur, niður í Hnífsdal og Skutulsfjörð og var þetta alveg magnað að sögn kennara.

Nemendur stóðu sig frábærlega eins og við var að búast. Á niðurleið var komið við á snjóskafli einum í Miðfellinu og renndu nemendur sér nokkrar ferðir sælir og glaðir eftir góða göngu.

7. bekkur kominn á Reyki

7. bekkur kom hingað að Reykjum í Hrútafirði laust fyrir kl. 13:30 í dag og gekk ferðin að vestan vel, enginn bílveikur og allir sprækir. Fréttir af hópnum munu koma daglega inn á bekkjarsíðu árgangsins, ásamt myndum.

Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði

Mörg undanfarin ár hafa nemendur 7. bekkjar í Grunnskólanum á Ísafirði dvalið í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði í upphafi skólaársins.  Það hefur gefið góða raun og nemendur og kennarar hafa verið ánægðir með dvölina.

Starfið í skólabúðunum á í öllum aðalatriðum að beinast að sömu markmiðum og starfið í almennum grunnskólum. Í skólabúðunum er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi uppeldis- og félagsleg markmið og að því stefnt:

- að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda

- að auka félagslega aðlögun nemenda

- að þroska sjálfstæði nemenda

- að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni

- að nemendur kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta

- að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið og komast að niðurstöðu

- að auka athyglisgáfu nemenda

 

Í næstu viku, þ.e. 26. - 30. ágúst dvelja nemendur 7. bekkjar G.Í. í skólabúðunum og verður lagt af stað strax á mánudagsmorgni kl. 8:00.  Það er nýbreytni nú í ár að Ísafjarðarbær greiðir dvalargjald nemenda sem er 20.000 kr. á hvern nemenda. Aðgangseyrir að árshátíðum skólans fer í að greiða ferðakostnað og því fellur enginn kostnaður á foreldra og forráðamenn vegna skólabúðanna. 

Haustferð 10. bekkjar

Ákveðið hefur verið að fara í hina árlegu haustferð 10. bekkjar þriðjudaginn 27. ágúst n.k.

Mæting verður kl. 8:30 hjá Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar við Sundahöfn, siglt á Flæðareyri, gengið þaðan til Grunnavíkur og gist í tjöldum. Farangurinn verður settur í land í Grunnavík, svo að nemendur þurfi ekki að burðast með hann frá Flæðareyri.

Komið verður heim síðdegis á miðvikudag og að sjálfsögðu er búið að panta gott veður.

Nánari upplýsingar varðandi ferðina eru hér

Heimanámsstefna G.Í.

Síðasta vetur unnu kennarar, foreldrar og nemendur að heimanámsstefnu fyrir skólann. Þessir aðilar komust að þeirri niðurstöðu að dagleg þjálfun sé nauðsynleg til að nemendur geti náð góðum tökum á lestrarfærni og að heimanám sem nemendur eiga hlutdeild í  og ákveða sjálfir eða hafa frumkvæði að, sé vænlegt til árangurs.

Heimanámsstefnuna í heild sinni má lesa hér.

Tómstundir nemenda í 1. - 4. bekk

Eins og kynnt var í vor verður gert hlé á skóladegi barna í 1.-4. bekk á milli kl. 11. og 12 í vetur.  Þann tíma gefst börnunum tækifæri á að sinna ýmsum tómstundum.
Hér má sjá dagskrána fyrir það sem er í boði í frístundinni milli kl. 11 og 12.  Mikilvægt er að börnin séu skráð í eitt viðfangsefni á dag.  Ef nemendur eiga að vera skráðir í tónlistartíma verður að skrá þá fyrst í Tónlistarskólann á Ísafirði og fá þar nöfn á kennurum sem taka að sér kennslu í frístundinni.  Einnig þarf að skrá börnin í íþróttaskóla HSV, ekki er nóg að skrá bara í námskeiðin. Það skal þó tekið fram að börnin eru á ábyrgð skólans og verða undir eftirliti í öllum frístundum.
Á skólasetningardaginn 22. ágúst n.k. verða fulltrúar frá HSV og TÍ í anddyri GÍ og geta leiðbeint við skráningu ef aðstoðar er þörf.