VALMYND ×

Fréttir

Skólanum færð vegleg gjöf

f.v. Árný Halldórsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri.
f.v. Árný Halldórsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri.

Styrktarfélag fatlaðra á Vestfjörðum færði Grunnskólanum á Ísafirði gjafabréf að fjárhæð kr. 200.000 í morgun. Gjöfinni er ætlað að nýtast nemendum með sérþarfir og kemur svo sannarlega að góðum notum.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, veitti gjafabréfinu móttöku úr höndum Þuríðar Sigurðardóttur formanns styrktarfélagsins og Árnýjar Halldórsdóttur gjaldkera. Skólinn færir styrktarfélaginu hugheilar þakkir fyrir höfðinglega gjöf.

1. bekkur í ævintýraheimi

Elfar Logi Hannesson afhendir hljóðdiskinn góða
Elfar Logi Hannesson afhendir hljóðdiskinn góða

Síðastliðinn föstudag kom leikarinn Elfar Logi Hannesson í heimsókn í 1. bekk og var með mjög skemmtilega sýningu fyrir nemendur. Ferðaðist hann með nemendum í ævintýraheima þar sem krakkarnir rákust á ýmsar skrýtnar verur eins og þrjá tröllabræður, feimnu Búkollu og fleiri.

 

Að lokum gaf hann báðum bekkjadeildum sinn hvorn hljóðdiskinn af Galdrasögum.
1. bekkur þakkar Elfari Loga kærlega fyrir góða heimsókn og þessar höfðinglegu gjafir.

Tónlist fyrir alla

Hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans mun koma í heimsókn til okkar á morgun á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Hljómsveitin ætlar að fara með okkur í stutt ferðalag í máli, myndum og tónum til nokkurra af Balkanlöndunum. Á tónleikunum verður spilað á allskonar skemmtileg hljóðfæri s.s. saxófón, klarínett, tamboura, bouzouki, saz, tapan o.fl.

Tónleikarnir verða í Hömrum sem hér segir:
kl. 11:15 - 11:55  8.-10. bekkur

kl. 12:20 - 13:00  5.-7. bekkur og

kl. 13:00 - 13:40  1.-4. bekkur.  

 

Upphaf skólatónleika á Íslandi má rekja aftur til ársins 1994, þegar íslensku þjóðinni barst peningagjöf frá Norðmönnum í tilefni af lýðveldisafmæli Íslands árið 1994 og skyldu þessir fjármunir notaðir til að efla tónlistar- og menningarstarf í grunnskólum á Íslandi.

Allt frá árinu 1995 hefur verði staðið fyrir tónleikum í grunnskólum landsins þar sem boðið er upp á vandaða skólatónleika fyrir börn þar sem skemmtun og menntun haldast í hendur.

Kynningarfundur um nýja aðalnámskrá

Ný aðalnámskrá boðar talsverðar breytingar og uppstokkun á starfsháttum og inntaki náms á Íslandi. Af þeim sökum standa Heimili og skóli fyrir kynningarfundum víðs vegar um landið árið 2013 þar sem foreldrum er boðið að koma og fræðast um nýja námskrá. Á kynningunum verður farið í eftirfarandi atriði:

• Grunnþættir menntunar
• Ný og fjölbreytt vinnubrögð
• Hæfni og lykilhæfni
• Nýtt námsmat
• Skörun hæfniþrepa

Næsti fundur verður haldinn fimmtudaginn 12. september kl. 19.30 á sal Grunnskólans á Ísafirði.

Mér finnst rigningin góð...

Það voru hressir og sprækir grunnskólanemendur sem tóku þátt í Norræna skólahlaupinu í gær og létu ekki rigninguna á sig fá. Krakkarnir hlupu ýmist að Engi, Seljalandi eða alla leið inn að tjaldstæðinu í Tungudal og til baka aftur að Bæjarbrekku.

Myndir frá hlaupinu má sjá hér.

Norræna skólahlaupið

Miðvikdaginn 11. september verður hið árlega Norræna skólahlaup. Hlaupið verður frá Bæjarbrekku við Seljalandsveg og inn Seljalandsveg að Seljalandi og þangað áfram inn í skóg.

 

Kl. 10.00  1. - 4. bekkur fer að Engi

Kl. 10.05  5. - 7. bekkur fer að Seljalandi

Kl. 10.10  8. - 10. bekkur getur valið um hlaup að Seljalandi eða inn að tjaldsvæðinu í Tungudal.

 

Starfsmenn áhaldahúss bæjarins ásamt lögreglu munu leggja okkur lið hvað varðar umferðaröryggi og verður helstu götum lokað á meðan á hlaupinu stendur. 

 

Alþjóðlegur dagur læsis

Alþjóðlegur dagur læsis er sunnudaginn 8. september. Af því tilefni ætlar Grunnskólinn á Ísafirði að hafa bangsadag í skólanum á mánudaginn fyrir nemendur í 1. - 6. bekk en þá mega börnin koma með bangsann sinn í skólann og verða bangsabækur í stóru hlutverki á skólasafninu.  

Mánudaginn 9. september hefst einnig fyrsta lestrarlota skólans þennan veturinn en hún stendur yfir í tvær vikur. Þá lesa nemendur skólans í a.m.k. 15 mínútur á dag í skólanum til viðbótar við heimalesturinn.

Útivist í blíðskaparveðri

5.EJ við Skíðheima á Seljalandsdal
5.EJ við Skíðheima á Seljalandsdal

Þessa dagana eru grunnskólanemendur í sínum árlegu fjallgöngum. Það viðraði aldeilis vel á 5. bekkinga í morgun, en þeir hjóluðu inn að Seljalandi og gengu inn í skóg. Þaðan lá leiðin upp með Buná, sem er nokkuð bratt og einnig var nokkuð hált vegna rigningar undanfarna daga. Krakkarnir röltu svo niður að Seljalandi aftur og hjóluðu heim á leið glaðir í bragði.

Starfsdagur

Föstudaginn 6. september er starfsdagur og því frí hjá nemendum.

Göngum í skólann

Verkefninu Göngum í skólann verður hleypt af stokkunum í sjöunda sinn miðvikudaginn 4. september næst komandi og lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október.

Markmið verkefnisins eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ferðast með virkum og öruggum hætti í skólann. Á vef Samgöngustofu má lesa frétt um mikilvægi þess að kenna börnum á umferðina, en þar eru meðal annars talin upp 10 góð ráð sem mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn hafi í huga og fræði börnin sín um.

Grunnskólinn á Ísafirði tekur þátt í þessu verkefni og hvetur alla til að ganga eða hjóla í skólann. Í lok átaksins stendur svo til að marsera um bæinn líkt og undanfarin ár og enda með samverustund á Silfurtorgi.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins Göngum í skólann.