VALMYND ×

Fréttir

Páskaleyfi

Nú hefst páskaleyfi eftir glæsilega tveggja daga árshátíð, þar sem allir nemendur skólans skiluðu sínu með miklum sóma. Kennsla hefst að páskaleyfi loknu miðvikudaginn 3. apríl samkvæmt stundaskrá. 
Starfsfólk skólans óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öllum öðrum gleðilegra páska.

Árshátíð G.Í.

Árshátíð Grunnskólans á Ísafirði verður haldin fimmtudaginn 21. og föstudaginn 22. mars n.k. Þar munu allir árgangar stíga á stokk og sýna atriði sín undir yfirskriftinni Lífið er leikur.

Síðustu dagar hafa einkennst af undirbúningi fyrir árshátíðina, enda er mikið í lagt og allir nemendur skólans koma að skipulagningunni á einn eða annan hátt, þó svo að ekki alveg allir stígi á svið, en langflestir þó. Skólinn býður upp á fimm sýningar til að koma öllum að og er aðgangseyrir kr. 1.000 sem rennur í ferðasjóð verðandi 7. bekkjar fyrir skólabúðaferð að Reykjum í Hrútafirði næsta haust.

 

1. sýning – fimmtudaginn 21. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

2. sýning – fimmtudaginn 21. mars kl. 11:00.

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og gestir (t.d. þeir sem ekki komast á öðrum tíma)

 

3. sýning – fimmtudaginn 21. mars kl. 20:00.

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Foreldrar, gestir og almenningur.  Þetta er ekki nemendasýning.

 

4. sýning – föstudaginn 22. mars kl. 9:00.

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

5. sýning – föstudaginn 22. mars kl. 20:00.

Flytjendur: 7.–10. bekkur,

Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra

Ball (fyrir nem. 8.-10. bk.) er að lokinni sýningu til miðnættis.

 

 

 


Kann 85 aukastafi Pí

Rebekka Skarphéðinsdóttir
Rebekka Skarphéðinsdóttir

Hugtakið Pí er stærðfræðilegur fasti og var upphaflega skilgreindur sem hlutfallið milli ummáls og þvermáls í hring og oftast skrifað með einungis tveimur aukastöfum þ.e. 3,14. Aukastafirnir eru þó óendanlega margir og fáir sem leggja á sig að festa fleiri en nokkra á minnið.


Rebekka Skarphéðinsdóttir, nemandi í 5. bekk G.Í. hefur þó heldur betur lagt fleiri aukastafi á minnið og þylur upp hvorki fleiri né færri en 85 eins og ekkert sé, þrátt fyrir að vera ekki farin að læra neitt ennþá um pí í námsefni stærðfræðinnar.

Að sögn Lindu Bjarkar Pétursdóttur, móður Rebekku, þá byrjaði hún smátt og smátt að bæta í minnisbankann frá því í haust. Hún sá þetta fyrst í myndinni Night at the museum og hófst þá handa. Brátt urðu aukastafirnir 20, svo 30 og ákvað hún þá að sjá til hversu langt hún næði fyrir alþjóðlega Pí-daginn 14. mars s.l., en þá voru þeir orðnir 85 talsins. 

Linda Björk segir dótturina vera algjöran límheila og hún geti t.d. þulið upp slagorð, auglýsingar og samtöl í teiknimyndum með léttum leik.

Hér má sjá myndband þar sem Rebekka hin 10 ára þylur upp Pí með 85 aukastöfum, geri aðrir betur!

Deildarmeistarar 2. deildar í handbolta

mynd: Hermann Þorsteinsson
mynd: Hermann Þorsteinsson

Strákarnir í 4. flokki handknattleiksdeildar Harðar gerðu sér lítið fyrir um helgina og urðu deildarmeistarar 2. deildar. Strákarnir fögnuðu vel og innilega eftir 10 marka sigur í lokaleik sínum í deildarkeppni vetrarins, en nú tekur við úrslitakeppni á meðal 8 bestu liða landsins.

Flestir þessara stráka eru í 9. bekk G.Í., en það eru þeir Friðrik Þórir Hjaltason, Jens Ingvar Gíslason, Gísli Jörgen Gíslason, Hjalti Hermann Gíslason, Eggert Karvel Haraldsson og Jakob Jóhann Veigarsson.

Við óskum strákunum innilega til hamingju með titilinn.

Nemendur G.Í. gera það gott í tónlistinni

Í gær voru haldnir svæðistónleikar Nótunnar, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu. Þátttakendur komu frá sex tónlistarskólum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Tónlistarskóli Ísafjarðar valdi þrjú atriði til þátttöku og voru nemendur G.Í. í þeim öllum.

Tónleikarnir skiptust í þrjá flokka, þ.e. grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Í grunnnámi léku Unnur Eyrún Kristjánsdóttir á píanó og Jóhanna María Steinþórsdóttir á saxófón. Í miðnámi sungu Birta Rós Þrastardóttir, Hekla Hallgrímsdóttir, Brynja Sólrún Árnadóttir, Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson ásamt 9 öðrum í skólakór T.Í. Í framhaldsnámi lék svo Hilmar Adam Jóhannsson á fiðlu og píanó í hljómsveit píanónemenda, ásamt sjö öðrum. Allir þessir nemendur stóðu sig mjög vel og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Skólakórinn og píanóhljómsveitin fengu bæði verðlaun fyrir framúrskarandi tónlistaratriði, auk þess sem þau voru bæði valin fyrir hönd svæðisins til að taka þátt í lokatónleikum Nótunnar, sem haldnir verða í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 14. apríl n.k.

Við óskum þessu unga og efnilega tónlistarfólki innilega til hamingju með árangurinn.

Heimsókn í Edinborgarhúsið

Í vikunni þáðu nemendur í 5. og 6. bekk heimboð í menningarhúsið Edinborg. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hússins tók á móti nemendum og sagði þeim frá tilgangi menningarhússins.  Einnig kynnti hún margmiðlunarsýninguna Útsýni, sem er verk listakonunnar Kristjönu Rósar Oddsdóttur Guðjohnsen, en sýningin hefur staðið yfir frá því í febrúar.

Nemendur kunnu vel að meta sýninguna og eru margs vísari um hugsun listakonunnar á bak við verkin.

Útivist

Nikola, Gabriela, Hanna Þórey, Kolfinna og Jessica í 6. bekk tilbúnar  að láta sig vaða niður brekkuna.
Nikola, Gabriela, Hanna Þórey, Kolfinna og Jessica í 6. bekk tilbúnar að láta sig vaða niður brekkuna.
1 af 4

Nemendur í 6. - 10. bekk hafa undanfarið fengið svokallað valtímabil í íþróttum. Eitt af því sem þá er í boði er útivist. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hafa krakkarnir notið góða veðursins og renndu sér á ruslapokum niður brekkuna við Seljalandsveginn.

G.Í. sigraði Vestfjarðariðilinn í Skólahreysti

Í dag keppti Grunnskólinn á Ísafirði í Vestfjarðariðli Skólahreystis, ásamt Grunnskólanum á Þingeyri, Grunnskóla Bolungarvíkur og Tálknafjarðarskóla, en keppnin fór fram í íþróttahúsi Breiðabliks í Smáranum í Kópavogi. G.Í. sigraði riðilinn og er því komið áfram í úrslitakeppnina, sem haldin verður innan nokkurra vikna.

Fyrir G.Í. keppa þau Aldís Huld Höskuldsdóttir, Patrekur Brimar Viðarsson, Elín Ólöf Sveinsdóttir og Friðrik Þórir Hjaltason. Gísli Rafnsson og Eva Rún Andradóttir eru varamenn.

Það gekk á ýmsu fyrir keppnina þar sem Aldís Huld meiddist í upphitun og þá þurfti Eva Rún að koma inn fyrir hana. Elín Ólöf tók að sér að fara hraðaþrautina í stað þess að keppa í armbeygjum og hreystigreip eins og til stóð. Þetta hafðist á endanum og krakkarnir stóðu uppi sem sigurvegarar eftir harða keppni við Grunnskólann á Þingeyri sem endaði í öðru sæti, einu stigi á eftir G.Í. og fast þar á eftir komu Bolvíkingar. Fararstjóri og þjálfari liðsins er Atli Freyr Rúnarsson.

Við óskum þátttakendunum öllum innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim í úrslitakeppninni.

Úrslit í stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri: Svanhildur Helgadóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Birkir Eydal
Frá vinstri: Svanhildur Helgadóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Birkir Eydal

Í gærkvöld fór fram lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum. Níu nemendur frá grunnskólum á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt þetta árið, en það eru þeir nemendur sem skarað hafa fram úr í sínum skólum. Fyrir hönd G.Í. tóku þátt þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Snjólaug Björnsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson og stóðu þau sig öll með mikilli prýði.

Skáld keppninnar þetta árið eru þau Friðrik Erlingsson og Þóra Jónsdóttir. Keppendur lásu brot úr sögunni Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson, ljóð eftir Þóru Jónsdóttur og eitt ljóð að eigin vali.

Úrslit urðu þau að Svanhildur Helgadóttir frá Grunnskóla Bolungarvíkur sigraði, í öðru sæti varð Pétur Ernir Svavarsson G.Í. og Birkir Eydal G.Í. hafnaði í því þriðja. 

Dómarar voru þau Halldóra Rósa Björnsdóttir, Ingvar Örn Ákason, Sigrún Sigurðardóttir og Bergur Torfason.

Í hléi var boðið upp á tónlistarflutning 7. bekkinga G.Í. Jóhanna Ósk Gísladóttir lék á fiðlu við undirleik Ivonu Frach, Guðrún Kristín Kristinsdóttir og Ína Guðrún Gísladóttir léku fjórhent á píanó og Mikolaj Frach lék einleik á píanó við góðar viðtökur áheyrenda.

Við óskum öllum þessum krökkum innilega til hamingju með góða frammistöðu.

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fer fram miðvikudagskvöldið 13. mars n.k. kl. 20:00 í Hömrum. Þar koma fram nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum, sem æft hafa framsögn af kappi í vetur. Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember, og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.

Fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði keppa þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Snjólaug Ásta Björnsdóttir. Til vara eru þau Benedikt Hrafn Guðnason og Guðrún Kristín Kristinsdóttir.