VALMYND ×

Fréttir

Alþjóðlegur dagur læsis

Alþjóðlegur dagur læsis er sunnudaginn 8. september. Af því tilefni ætlar Grunnskólinn á Ísafirði að hafa bangsadag í skólanum á mánudaginn fyrir nemendur í 1. - 6. bekk en þá mega börnin koma með bangsann sinn í skólann og verða bangsabækur í stóru hlutverki á skólasafninu.  

Mánudaginn 9. september hefst einnig fyrsta lestrarlota skólans þennan veturinn en hún stendur yfir í tvær vikur. Þá lesa nemendur skólans í a.m.k. 15 mínútur á dag í skólanum til viðbótar við heimalesturinn.

Útivist í blíðskaparveðri

5.EJ við Skíðheima á Seljalandsdal
5.EJ við Skíðheima á Seljalandsdal

Þessa dagana eru grunnskólanemendur í sínum árlegu fjallgöngum. Það viðraði aldeilis vel á 5. bekkinga í morgun, en þeir hjóluðu inn að Seljalandi og gengu inn í skóg. Þaðan lá leiðin upp með Buná, sem er nokkuð bratt og einnig var nokkuð hált vegna rigningar undanfarna daga. Krakkarnir röltu svo niður að Seljalandi aftur og hjóluðu heim á leið glaðir í bragði.

Starfsdagur

Föstudaginn 6. september er starfsdagur og því frí hjá nemendum.

Göngum í skólann

Verkefninu Göngum í skólann verður hleypt af stokkunum í sjöunda sinn miðvikudaginn 4. september næst komandi og lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október.

Markmið verkefnisins eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ferðast með virkum og öruggum hætti í skólann. Á vef Samgöngustofu má lesa frétt um mikilvægi þess að kenna börnum á umferðina, en þar eru meðal annars talin upp 10 góð ráð sem mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn hafi í huga og fræði börnin sín um.

Grunnskólinn á Ísafirði tekur þátt í þessu verkefni og hvetur alla til að ganga eða hjóla í skólann. Í lok átaksins stendur svo til að marsera um bæinn líkt og undanfarin ár og enda með samverustund á Silfurtorgi.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins Göngum í skólann.

Nemendafélaginu færð gjöf

Árgangur 1967 heimsótti skólann nú á dögunum, en árgangurinn er 30 ára gagnfræðingar í ár. Af því tilefni færði hópurinn nemendafélagi Grunnskólans á Ísafirði kr. 50.000 til tækjakaupa, með von um að þeir fjármunir nýtist vel.

Nemendafélagið og skólinn þakka kærlega höfðinglega gjöf.

Heimför frá Reykjum

Vegna slæmrar veðurspár á morgun hefur verið ákveðið að flýta heimför 7.bekkja frá Reykjum í Hrútafirði.  Gert er ráð fyrir að leggja af stað kl. 9 (föstudagsmorgun) og heimkoma á milli 14 og 15.  Nánari upplýsinga er svo að vænta á morgun.

9. bekkur á Kistufelli

9. bekkur
9. bekkur

Í gær fór 9. bekkur í hina árlegu fjallgöngu og var að þessu sinnu gengið á Kistufell. Gengið var frá gönguskíðaskálanum á Seljalandsdal og tók gangan upp á Kistufell tvo og hálfan tíma.

Þegar þangað var komið var notið útsýnis til allra átta s.s til Bolungarvíkur, niður í Hnífsdal og Skutulsfjörð og var þetta alveg magnað að sögn kennara.

Nemendur stóðu sig frábærlega eins og við var að búast. Á niðurleið var komið við á snjóskafli einum í Miðfellinu og renndu nemendur sér nokkrar ferðir sælir og glaðir eftir góða göngu.

7. bekkur kominn á Reyki

7. bekkur kom hingað að Reykjum í Hrútafirði laust fyrir kl. 13:30 í dag og gekk ferðin að vestan vel, enginn bílveikur og allir sprækir. Fréttir af hópnum munu koma daglega inn á bekkjarsíðu árgangsins, ásamt myndum.