VALMYND ×

Fréttir

Annaskil

Nú fer að líða að lokum haustannar með viðeigandi námsmati, en önninni lýkur 18. janúar.

Í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla er skólum gert að taka tillit til fleiri þátta en þeirra sem við höfum til þessa kallað hefðbundið námsmat. Það mat hefur miðast að mestu leyti við árangur nemenda í einstökum námsgreinum. Nú skal einnig, innan hvers námssviðs, leggja mat á hæfni nemenda í grunnþáttum almennrar menntunar. Þar ber helst að nefna þætti eins og samskipti og samstarf, þekkingu og leikni, hæfni til að miðla þekkingu sinni og beita gagnrýninni hugsun, hæfni til að vinna undir leiðsögn ásamt hæfni til sjálfstæðra vinnubragða og ábyrgðar á eigin námi.

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur nú þegar farið fram mikil vinna við endurskipulag á námsmati en þó er ljóst að þegar um svona miklar breytingar er að ræða verður að fikra sig áfram og hrinda þeim í framkvæmd í nokkrum skrefum. Skólinn lagði af stað með töluverðar breytingar haustið 2011 en námsmatið hefur verið í stöðugri þróun síðustu ár í átt að nýjum markmiðum aðalnámskrár. 

Vegleg gjöf frá kvenfélaginu Hvöt

Kvenfélagið Hvöt varð 100 ára þann 29. des s.l. og af því tilefni var ákveðið að styrkja nokkur góð málefni í heimabyggð. Verkefni í byrjendalæsi G.Í. hlaut 200.000 kr. í styrk og er þeim fjármunum ætlað að fara í kaup á kennslugögnum sem nýtast í því verkefni.


Byrjendalæsi er ný aðferð til að kenna ungum börnum lestur og miðar að því að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngunni. Aðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms í skólastarfi á landinu og nú er svo komið að yfir 70 grunnskólar af þeim 174 sem starfa á landinu styðjast við aðferðina og alltaf bætast fleiri í hópinn. Grunnskólinn á Ísafirði tók byrjendalæsi upp nú í haust í samstarfi við skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Aðferðin lofar góðu, en með henni er reynt að setja skilning ungra barna í forgrunn í lestrarkennslu í stað þess að einblína á lestrartækni og hraðan lestur.  

 

Styrkur kvenfélagsins Hvatar kemur sér afar vel í þessu stóra verkefni sem byrjendalæsið er og þakkar skólinn höfðinglega gjöf.

Þrettándinn

Frá þrettándagleði á Ísafirði 2012. Mynd: bb.is
Frá þrettándagleði á Ísafirði 2012. Mynd: bb.is

Þann 6. janúar er þrettándinn en þá er síðasti dagur jóla. Síðasti jólasveinninn fer þá aftur til fjalla eins og eftirfarandi vísubrot eftir Jóhannes úr Kötlum ber vott um: 

Svo tíndust þeir í burtu, 
- það tók þá frost og snjór. 
Á Þrettándanum síðasti 
sveinstaulinn fór. 

Margt skemmtilegt er um að vera á þrettándanum. Þann dag eiga kýr að geta talað mannamál og álfar fara á kreik. Fólk kveður gjarnan jólin með því að safnast saman við þrettándabrennur, skýtur upp flugeldum og syngur. Álfar, huldufólk og jafnvel tröll sjást á sveimi. Einnig má stundum rekast á einn og einn jólasvein sem ekki hefur skilað sér aftur upp til fjalla. (Heimild: Námsgagnastofnun).

Íþróttafatnaður

Allt of mikið er um að nemendur skólans vanti íþróttaföt eða handklæði þegar þeir eiga að fara í íþróttir. Starfsmenn íþróttahúsanna hafa lánað nemendum föt og handklæði en það á aðeins að vera neyðarráðstöfun. Í morgun hafa verið lánuð handklæði sem nemur þremur þvottavélum í sundhöllinni einni. Það segir sig sjálft að þetta þarf að bæta.

Foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að skoða hvort börnin eiga að fara í sund eða leikfimi og senda viðeigandi búnað með þeim. 

Eineltismál

Aldrei má sofna á verðinum í umræðunni um einelti. Markmið okkar er að hafa þá umræðu alltaf virka, en auðvitað þarf líka að gera margt fleira í skólanum. Á haustönninni fórum við í sérstakt eineltisverkefni. Þar var lögð áhersla á að nemendur skilgreindu einelti og kynnu ráð til að bregðast við ef þeir teldu að um slíkt væri að ræða. Oft er einelti mjög dulið og stundum upplifa krakkar neikvæð skilaboð vegna samskipta sem aðrir upplifa á allt annan veg. Við því þarf líka að bregðast. Við viljum helst geta leiðrétt neikvæð samskipti áður en þau fara að flokkast sem eineltismál en oft höfum við ekki vitneskju um vanlíðan nemenda því þeir segja okkur ekki alltaf frá.  Stundum segja krakkar líka frá atburðum heima sem þeir vilja ekki segja frá í skólanum. Ef við höfum ekki vitneskju getum við ekkert gert.

Til að auðvelda nemendum og foreldrum að koma til okkar upplýsingum höfum við útbúið sérstakt eyðublað þar sem hægt er að tilkynna um grun um einelti. Við viljum reyna að tryggja að ferlar slíkra mála séu sem skilvirkastir og því teljum við best að fá slíkar upplýsingar skriflega. Eyðublaðið er á heimasíðu skólans, sjá hér

Janúar

Rómverski guðinn Janus
Rómverski guðinn Janus

Nú er janúar, fyrsti mánuður ársins, genginn í garð. Hann hófst með nýársdegi sem til forna var stundum kallaður áttidagur en það þýðir einfaldlega að hann er áttundi dagur jóla. Janúarmánuður heitir eftir Janusi, rómverskum guði, sem var sérstakur fyrir þá sök að hann hafði tvö andlit. Sneri annað fram og hitt aftur en það er hagnýtt fyrir heimilisguð og vísar til þess að hann sér um heima alla og ekkert kemur honum á óvart. Hann táknar þannig upphaf og endi alls, nútíð, fortíð og framtíð. Janus gætti dyra á híbýlum fólks og af nafni hans er enska orðið „janitor“ dregið eða dyravörður (Heimild: Námsgagnastofnun).

Skráning í mötuneyti

Við minnum á að þeir sem hyggja á skráningu í mötuneyti á nýju ári, þurfa að ganga frá þeim málum sem fyrst. Hér á síðunni undir hnappnum mötuneyti er hægt að nálgast skráningareyðublað ásamt matseðlum fram í apríl.

Þá hafa allir nemendur á yngsta- og miðstigi fengið eyðublöð heim til skráningar í mjólkuráskrift, fyrir þá sem það vilja. Þessum eyðublöðum skal skilað til umsjónarkennara eða ritara sem fyrst.

Gleðilegt ár

Starfsfólk G.Í. óskar öllum gleðilegs árs og þakkar liðið ár.


Fimmtudaginn 3. janúar er starfsdagur og hefst kennsla föstudaginn 4. janúar samkvæmt stundaskrá.

Jólakveðja

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum sínum, fjölskyldum þeirra og velunnurum öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Litlu jól og jólaleyfi

Í morgun voru litlu jólin haldin hátíðleg. Allir mættu prúðbúnir og áttu saman notalega stund í sínum bekkjarstofum. Haldnar voru fjórar jólatrésskemmtanir í anddyri nýja skólans þar sem nemendur og starfsfólk sungu saman jólalög og dönsuðu í kringum jólatréð, við undirleik Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur skólastjóra. Jólatrésskemmtanirnar gengu einstaklega vel og gaman að sjá hvað allir nemendur nutu hátíðleikans og samverunnar. Að sjálfsögðu birtust nokkrir rauðklæddir sveinar og létu þeir ekki sitt eftir liggja í söngnum og dansinum, enda engir nýgræðingar þar á ferð.

Að litlu jólunum loknum hófst svo jólaleyfið og verður fyrsti kennsludagur eftir áramótin föstudaginn 4. janúar.