VALMYND ×

Fréttir

Samvera hjá 3. og 4. bekk

Nemendur spiluðu á flygilinn
Nemendur spiluðu á flygilinn
1 af 2

Í dag voru krakkarnir í 3. og  4. bekk með samverustund. Byrjað var í nýja anddyrinu, þar sem nokkrir krakkar spiluðu á flygilinn og því næst var haldið inn í skólastofu þar sem nemendur buðu upp á fjölmörg tónlistaratriði. Nemendur léku á fiðlu, gítar, þverflautu og harmónikku, auk þess sem sagðir voru brandarar, sýnt leikrit og spilagaldur.

Það er greinilegt að mikið er um virkilega hæfileikaríka krakka í þessum bekkjum og voru þeir mjög duglegir og ófeimnir að koma fram fyrir áhorfendur. 

9. bekkur kominn í ferðamannabransann

Þessa dagana er 9. bekkur að ljúka við verkefni sem unnið er sameiginlega í ensku og dönsku og gengur út á það að útbúa ferðabækling og annast leiðsögn fyrir ferðamenn um Ísafjörð. Krakkarnir stofna ferðaskrifstofu, ákveða hver markhópur skrifstofunnar er, og hvaða staðir verða heimsóttir. Síðan gera þau bækling á ensku og dönsku um þessa staði, setja inn myndir og upplýsingar og prenta hann út í lit. Að lokum fer hópurinn saman í göngu um bæinn og allir spreyta sig á að leika leiðsögumenn og kynna einhvern stað, bæði á ensku og dönsku. Þetta er skemmtilegt verkefni sem tekur tvær vikur og reynir á marga þætti. Vonandi viðrar vel á "túristana og leiðsögumennina" á föstudaginn þegar við förum í skoðunarferðina.

Markhópar þessara ferðaskrifstofa eru mjög margvíslegir, ferðirnar eru ætlaðar m.a. unglingum, þýskum ellilífeyrisþegum, fólki sem er í megrun, fuglaáhugafólki o.s.frv. svo að væntanlega verða viðkomustaðirnir líka fjölbreyttir og áhugaverðir.

Ástarsaga úr fjöllunum

Úr sýningunni Ástarsaga úr fjöllunum. (Mynd: moguleikhusid.is).
Úr sýningunni Ástarsaga úr fjöllunum. (Mynd: moguleikhusid.is).

Í morgun bauð skólinn nemendum 1. - 4. bekkjar upp á leiksýninguna Ástarsaga úr fjöllunum, sem sýnd er af Möguleikhúsinu. Leikritið byggir á hinni sívinsælu sögu Guðrúnar Helgadóttur og fjallar um tröllskessuna Flumbru og tröllastrákana hennar átta.

Leikgerð og söngtextar eru eftir Pétur Eggerz, sem einnig annast leikstjórn, en höfundur tónlistar er Guðni Franzson. Það eru leik- og söngkonan Margrét Pétursdóttir og leikarinn og tónlistarmaðurinn Valgeir Skagfjörð sem leika sýninguna, en leikmynd og búningar eru eftir Messíönu Tómasdóttur. 

Ferð í Haukadal

Elfar Logi Hannesson tók á móti hópnum í Haukadal
Elfar Logi Hannesson tók á móti hópnum í Haukadal
Í síðustu viku fóru krakkarnir í 10. bekk ásamt íslenskukennurum sínum og skólastjóra í rútuferð í Haukadal í Dýrafirði
til að kynna sér söguslóðir Gísla Súrssonar.  Elfar Logi Hannesson, leikari með meiru, tók á móti hópnum og leiddi um allar trissur til að upplýsa um helstu staðhætti og hvað gerðist hvar.
Krakkarnir voru vel með á nótunum og ættu nú að vera orðnir nokkuð kunnugir Gísla sögu Súrssonar, enda eru þeir nú búnir að sjá bæði leikritið og kvikmyndina, lesa bókina, sjá sjónvarpsþátt um söguna og skrifa heilmikla ritgerð auk þess að heimsækja söguslóðir með leiðsögn.

Veðrið lék við hópinn, það var hlýtt og yndislegt, vorilmur og fuglasöngur í lofti, svo allir gátu notið útiverunnar. Eftir gönguna var farið heim í bústað hjá Elfari Loga og öllum boðið inn. Það vill svo heppilega til að húsið er fyrrum félagsheimili svo þar var nóg pláss og allir gátu borðað nestið sitt í makindum og fengu meira að segja heitt kakó að drekka í boði skólans.

Þegar búið var að borða nestið var lagt af stað heimleiðis og var komið að skólanum aftur fyrir hálfeitt og allir lukkulegir með
skemmtilega ferð.

Góðar gjafir til 1. bekkinga

Glaðir og þakklátir 1. bekkingar
Glaðir og þakklátir 1. bekkingar

Á síðustu dögum hafa krakkarnir í 1. bekk fengið góðar gjafir.  Björgunarfélag Ísfjarðar færði öllum nemendum endurskinsvesti og Kiwanismenn færðu þeim reiðhjólahjálma að gjöf.  Það voru þakklát börn sem tóku við þessum rausnarlegu og nytsamlegu gjöfum og senda kærar þakkir til gefenda.

Ljóð unga fólksins

Veturliði Snær Gylfason með ljóðabókina góðu
Veturliði Snær Gylfason með ljóðabókina góðu

Nú er lokið ljóðasamkeppninni Ljóð unga fólksins 2013. Þessi keppni hefur verið við lýði í þó nokkuð mörg ár, á 3-5 ára fresti. Keppnin er undir merkjum Þallar, samstarfshóps um barnamenningu á bókasöfnum og skiptast bókasöfn um land allt á um að halda hana. Vinningshöfum voru afhent verðlaunin 23. apríl, á degi bókarinnar, í tengslum við barnamenningarhátíð í Kringlusafni Borgarbókasafns Reykjavíkur. Keppt var í tveimur flokkum, 9-12 ára og 13-15 ára.

Alls bárust yfir 900 ljóð í keppnina og voru valin úr þeim fjölda rúmlega 70 ljóð sem gefin hafa verið út á bók. 

Veturliði Snær Gylfason, nemandi í 9. bekk G.Í., er einn þeirra höfunda sem á ljóð í bókinni og fékk hann bókina senda í viðurkenningarskyni og óskum við honum innilega til hamingju.

Vorskipulagið

Venju samkvæmt er mikið um að vera í maímánuði og að mörgu að hyggja. Vorskipulagið er að komast á hreint, en þó má alltaf gera ráð fyrir smávægilegum breytingum þegar nær dregur.

Skipulagið í heild sinni er að finna hér og einnig neðst vinstra megin á síðunni.

Útileikfimin

Útileikfimin hefst eftir helgina og er því mikilvægt að allir séu klæddir eftir veðri. Ef ástæða þykir til, þá kippa íþróttakennarar kennslunni inn fyrir dyr, en við vonum að til þess þurfi ekki að koma.

Nýtt fréttabréf

Út er komið fréttabréf aprílmánaðar. Eins og alla aðra mánuði er nóg að gera í skólalífinu utan hins hefðbundna náms. Fréttabréfið má sjá hér.

Úrslit í Skólahreysti MS 2013

F.v. Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli og Friðrik Þórir. Á myndina vantar Guðnýju Birnu sem kom inn í úrslitin í stað Aldísar Huldar.
F.v. Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli og Friðrik Þórir. Á myndina vantar Guðnýju Birnu sem kom inn í úrslitin í stað Aldísar Huldar.

Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS 2013 fór fram í Laugardalshöll í kvöld að viðstöddu fjölmenni. Þeir 12 skólar sem tryggt höfðu sér þátttökurétt í úrslitunum, öttu kappi í hraðaþraut, hreystigreip, dýfum, armbeygjum og upphífingum.

Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti í úrslitunum og stóðu krakkarnir sig allir með miklum sóma. Um 120 skólar, víðs vegar að af landinu tóku þátt í upphafi og megum við því vera virkilega stolt af þessum úrslitum.

Sigurvegarar keppninnar, þriðja árið í röð, var Holtaskóli í Keflavík. Í öðru sæti varð Breiðholtsskóli og Lindaskóla hafnaði í því þriðja.

Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Friðrik Þórir Hjaltason, Patrekur Brimar Viðarsson, Guðný Birna Sigurðardóttir og Eva Rún Andradóttir. Til vara voru þau Gísli Rafnsson og Elín Ólöf Sveinsdóttir, en þjálfari liðsins er Árni Heiðar Ívarsson. Auk keppenda fór full rúta af stuðningsliði suður í morgun til að standa við bakið á okkar fólki. Það krefst mikils líkamlegs sem og andlegs styrks að takast á við keppni sem þessa, fyrir troðfullri Laugardalshöll í beinni sjónvarpsútsendingu. Það er því mjög mikils virði fyrir keppendur að finna þann stuðning sem þeir fengu í höllinni.

Við óskum krökkunum innilega til hamingju með frammistöðuna og óskum þeim góðrar heimferðar.