VALMYND ×

Fréttir

Fáðu já

Í morgun var stuttmyndin Fáðu já frumsýnd í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins, þ.á.m. í 9. og 10. bekk G.Í., en myndin leitast við að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis. Tilgangurinn er einnig að leiðrétta ranghugmyndir unglinga um kynlíf, en nýleg rannsókn sýnir að íslenskir drengir neyta kláms í stórum stíl.

Mælt er með því að aðstandendur barna kynni sér leiðarvísi að stuttmyndinni, sem útskýrir hugmyndafræðina að baki myndinni. 

Handritshöfundar myndarinnar eru Páll Óskar Hjálmtýsson, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir. 

Allar frekari upplýsingar um myndina má finna hér á heimasíðu hennar. 

100 daga hátíð

Á föstudaginn var líf og fjör hjá krökkunum í 1. bekk því að þann dag var hundraðasti skóladagurinn þeirra. Krakkarnir æfðu sig að telja upp í hundrað með því að gera ýmsar æfingar og svo var dansað, hoppað og skoppað og endað daginn á að horfa á myndband og borða popp.  1. bekkingum finnst svo sannarlega alltaf gaman í skólanum!

Leikið í lauginni

7.EJ í leiksundi
7.EJ í leiksundi

Í vikunni sem leið fengu nemendur að koma með allskyns leikföng í sundtímana. Uppblásnar fígúrur af ýmsum gerðum birtust í Sundhöllinni ásamt ýmsum öðrum leikföngum og voru vatnsbyssurnar einnig mjög vinsælar.

Leiksundið er alltaf jafn skemmtilegt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af 7.EJ.

Sólarkaffi

6.HS gæddi sér á sólarpönnukökum í dag
6.HS gæddi sér á sólarpönnukökum í dag

Í dag fögnuðu margir árgangar sólardeginum með sólarpönnukökum í boði foreldra. Sólin náði þó ekki að brjóta sér leið í gegnum skýin, en krakkarnir voru þó vel meðvitaðir um nálægð hennar og bíða spenntir eftir að komast léttklæddari út.

Þorrablót 10. bekkjar

Þá  er komið að hinu margrómaða þorrablóti 10.bekkjar skólans, en það verður haldið á morgun, föstudaginn 25. janúar, á sjálfan bóndadaginn. Nú þegar hafa rúmlega 170 manns skráð sig til þátttöku og stefnir í hörku blót hjá okkur að vanda, en þorrablótið er einn af hápunktunum í menningarstarfi skólans á hverju ári.                                  

Líkt og á mörgum góðum blótum mætir fólk með sinn þorramat fyrir sig og sína í trogum. Einnig þarf fólk að hafa með sér diska og hnífapör og servíettur ef fólk vill. Gos verður selt á staðnum til fjáröflunar fyrir 10. bekk og munu nokkrir  9. bekkingar standa sjoppuvaktina.  Glös verða fengin að láni úr skólaeldhúsinu.

Húsið opnar kl. 19:30 og hefst borðhald kl. 20:00 í hátíðarsal skólans.

Vel heppnuð skautaferð hjá 6. bekk

1 af 4

Í dag fór 6. bekkur í skautaferð inn á gervigrasvöllinn á Torfnesi, sem er ísi lagður. Aðstæður voru allar hinar bestu og nutu krakkarnir útiverunnar og sýndu margir góða takta á skautunum. 

Ekki voru til skautar fyrir alla, en krakkarnir skiptust á og allir fengu að spreyta sig. Skólinn á nú nokkur pör af skautum og þiggur með þökkum fleiri slík af öllum stærðum, ef einhverjir eiga á lausu. Það væri mjög gott að eiga alla vega fyrir eina bekkjardeild svo hægt sé að skella sér á skauta með skömmum fyrirvara.

Fleiri myndir frá þessari vel heppnuðu skautaferð eru inni á myndasíðu 6. bekkjar.

Eva Margrét íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2012

Eva Margrét ásamt bekkjarfélögum sínum í 10. bekk
Eva Margrét ásamt bekkjarfélögum sínum í 10. bekk

Eva Margrét Kristjánsdóttir, leikmaður KFÍ og nemandi í 10. bekk G.Í., var nú um helgina valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar í hófi sem Ísafjarðarbær stóð fyrir. Eva Margrét er vel að þessum titli komin, enda er hún frábær körfuknattleikskona og mikil og góð fyrirmynd og hvatning fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk.

Við óskum Evu Margréti innilega til hamingju með þennan glæsilega titil og það gerðu einnig bekkjarfélagar hennar í 10. bekk í morgun, sem voru mjög stoltir af henni og afhentu henni veglegan blómvönd eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hjalti Hermann boðaður á U-16 æfingar

Hjalti Hermann Gíslason
Hjalti Hermann Gíslason

Hjalti Hermann Gíslason leikmaður 3.flokks BÍ/Bolungarvíkur og nemandi í 9. bekk G.Í. var boðaður á æfingar með U-16 nú um helgina. Hjalti Hermann spilaði með 4.flokki BÍ/Bolungarvík s.l. sumar, sem var hársbreidd frá sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins og sigraði REY-CUP að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvíkur.

Baráttan við höfuðlúsina

Í dag fengu allir nemendur skólans bréf um viðbrögð við höfuðlúsinni sem herjað hefur á ísfirsk heimili undanfarnar vikur. Í bréfinu eru öll heimili beðin um að kemba hár fjölskyldumeðlima nú um helgina.

Nemendur eiga að skila bréfinu til baka í skólann strax á mánudagsmorgni, þar sem staðfest er að kembing hafi farið fram.

Þeir sem ekki verða við þessum tilmælum, verða kembdir hjá skólahjúkrunarfræðingi á mánudaginn.

Von okkar er sú að allir leggist nú á eitt og með þessu móti verði hægt að koma í veg fyrir frekara smit og uppræta þennan hvimleiða gest.

Tónlistarverkefni í 5. bekk

Eins og mörgum er kunnugt um fengu Grunnskólinn á Ísafirði og Tónlistarskóli Ísafjarðar sameiginlegan styrk úr samfélagssjóði Orkubús Vestfjarða nú á dögunum, til að efla tónlistarkennslu.

Ákveðið hefur verið að nýta styrkinn til að bjóða nemendum 5. bekkjar í sérstakt tónlistarverkefni. Öllum nemendum árgangsins mun bjóðast að læra á blásturshljóðfæri núna á vorönn, foreldrum að kostnaðarlausu. Krakkarnir munu fara í hópum, tvisvar í viku í Tónlistarskólann og njóta þar kennslu hjá Madis Maeekalle í tuttugu mínútur í senn, á skólatíma.

Stefnt er að því að hefja námið nú í lok janúar og vonast er til að ljúka verkefninu í maí með því að spila með á lúðrasveitartónleikum Tónlistarskólans.