VALMYND ×

Fréttir

Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS

Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS 2013 fer fram í Laugardalshöll fimmtudaginn 2. maí kl. 20:00. Grunnskólinn á Ísafirði sigraði sinn riðil í undanúrslitunum og keppir því til úrslita ásamt ellefu öðrum skólum víðs vegar að af landinu. RÚV sýnir beint frá keppninni kl. 20:00.

Stuðningsmenn G.Í. fjölmenna suður til að styðja við bakið á sínu liði og fer rúta á fimmtudagsmorgun frá skólanum. Keppendur G.Í. eru Friðrik Þórir Hjaltason, Patrekur Brimar Viðarsson, Eva Rún Andradóttir og Guðný Birna Sigurðardóttir, sem er ný í liðinu. Til vara eru þau Gísli Rafnsson og Elín Ólöf Sveinsdóttir og þjálfari er Árni Heiðar Ívarsson.

Við óskum krökkunum góðs gengis og fylgjumst að sjálfsögðu með í sjónvarpinu.

Fjögurra daga vinnuvika

Í þessari viku eru einungis fjórir skóladagar, þar sem fyrsta maí ber upp á miðvikudag og er sá dagur lögbundinn frídagur og alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins.

Gleðilegt sumar

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum gleðilegs sumars.

Alþjóðlegur dagur bókarinnar

Alþjóðlegur dagur bókarinnar er haldinn hátíðlegur í dag 23. apríl. Unesco tók daginn upp 1995 og miðar mörg sín verkefni tengd lestri og bókmenntum að þessum degi. Dagurinn á að hvetja ungt fólk til þess að lesa og stunda yndislestur. Hann er einnig tileinkaður rithöfundum og útgefendum.

23. apríl er viðeigandi dagsetning en dagurinn er fæðingardagur Halldórs Laxness og dánardagur hins enska Shakespeare og Miguel de Cervantes sem var spænskur leikritahöfundur og ljóðskáld. 

Nú stendur einmitt yfir lestrarlota hér í skólanum, sem lýkur á morgun, en nemendur hafa byrjað hvern skóladag síðustu vikuna á hljóðlestri.

Löng helgi framundan

Þessi vika verður stutt í annan endann, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og vorfrí hjá nemendum og starfsfólki á föstudaginn. Margir eru á leið til Akureyrar á Andrésar andar leikana og koma þessi auka frídagar sér vel fyrir þann hóp sem og aðra.

Á sumardaginn fyrsta hefst harpa, fyrsti mánuður sumars, en hér áður fyrr hétu sumarmánuðirnir harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður og haustmánuður. Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld og eru mun eldri en jólagjafir. Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomunni og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur frýs saman aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Eins átti sá sem kom auga á fyrsta tungl sumarsins að steinþegja þar til einhver ávarpaði hann. 

Sjálfstyrkingarnámskeið

Þessa viku er 10. bekkur á sjálfstyrkingarnámskeiði, en markmiðið með því er að efla sjálfsmynd í gegnum listræna sköpun og tjáningu. Sjálfskoðunin fer fram í gegnum samskipti og tjáningu þar sem lögð eru fyrir ýmis verkefni í myndlist, orðlist og leiklist. Einstaklingar vinna einir, í pörum og/eða í hópum. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Elísabet Lorange, kennari og listmerðferðarfræðingur Foreldrahúss, en hún hefur margra ára reynslu að vinna með börnum og unglingum í einstaklings- og hópavinnu í skólum, leikskólum, meðferðarheimilum og á námskeiðum. 

Heimsókn á bílaverkstæði

Í fyrradag fóru nemendur 2. bekkjar í heimsókn á bílaverkstæði SB.  Þar tók Guðmundur Sigurlaugsson á móti þeim og sýndi nemendum hvar gert er við bíla, bílvél, gírkassa og fleira. Einnig komust nemendur að því að mikið af viðgerðum á bílum og bilanagreiningar fara fram í tölvu.  Að lokum fengu allir að prófa að setja loft í dekk.  

Að heimsókn lokinni stöldruðu nemendur við á Skipagöturóló og léku sér góða stund.

Fjármálafræðsla

Nemendur nutu fróðleiks og veitinga
Nemendur nutu fróðleiks og veitinga

Nú nýlega fóru nemendur 9. bekkjar í heimsókn í banka bæjarins og fengu fræðslu um ýmislegt sem viðkemur fjármálum. Skipt var í tvo hópa, annar hópurinn fór í Landsbankann og hinn í Íslandsbanka. Báðir hóparnir stóðu sig mjög vel, nemendur voru kurteisir og prúðir og spurðu gáfulegra spurninga eins og þeirra var von og vísa. Móttökurnar voru glæsilegar á báðum stöðum, góðar veitingar og mikilvægar upplýsingar. Var gerður góður rómur að þessum heimsóknum, nemendur voru margs vísari þegar heim kom og hafa eflaust getað frætt fólkið sitt heima.

Nemendur 10. bekkjar fengu einnig fjármálafræðslu í síðustu viku, þegar Rósa Ingólfsdóttir skattstjóri kom í heimsókn og fræddi þá um skattamál. Flutti hún góðan fyrirlestur og voru nemendur mjög duglegir að spyrja um ýmislegt sem brann á vörum þeirra varðandi þeirra skattamál.

Skólahreysti

Keppendur G.Í. frá vinstri: Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli Rafn og Friðrik Þórir.
Keppendur G.Í. frá vinstri: Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli Rafn og Friðrik Þórir.

Í kvöld sýnir RÚV frá undankeppninni í Vestfjarðariðli Skólahreysti, sem fram fór í síðasta mánuði. Grunnskólinn á Ísafirði tryggði sér þar sigur í riðlinum og þar með þátttökurétt í úrslitum Skólahreysti MS 2013, sem fram fara í Laugardalshöll 2. maí n.k.

Nú er um að gera að setjast fyrir framan skjáinn kl. 21:10 í kvöld og sjá þessi glæsilegu ungmenni okkar taka á því.

Lestrarlota

Í dag hefst lestrarlota hér í skólanum og munu þá allir, bæði starfsfólk og nemendur,  lesa í hljóði frá kl. 8:10 - 8:30 á morgnana, fram í næstu viku. Þriðjudaginn 23. apríl er alþjóðlegur dagur bókarinnar, en sá dagur er fæðingardagur Halldórs Kiljan Laxness og dánardagur William Shakespeares. Dagurinn er ætlaður til að hvetja ungt fólk til yndislesturs og er hann ennfremur tileinkaður rithöfundum og útgefendum. Lestrarlotunni lýkur miðvikudaginn 24. apríl.