VALMYND ×

Fréttir

Skólakeppni stóru upplestrarkeppninnar

Fulltrúar skólans talið frá vinstri: Guðrún Kristín, Lára Sigrún, Anna María, Snjólaug, Pétur Ernir, Birkir og Benedikt Hrafn.
Fulltrúar skólans talið frá vinstri: Guðrún Kristín, Lára Sigrún, Anna María, Snjólaug, Pétur Ernir, Birkir og Benedikt Hrafn.

Grunnskólinn á Ísafirði hefur um árabil tekið þátt í stóru upplestrarkeppninni, sem haldin er ár hvert á meðal nemenda í 7. bekk. Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði og hefur markvisst verið unnið með þá þætti íslenskunnar í árgangnum í vetur og allir því tekið þátt í keppninni sem slíkri.


Í morgun fór skólahluti keppninnar fram á sal skólans, en þar lásu ellefu nemendur upp sögubrot og ljóð og stóðu þeir sig allir með mikilli prýði.  Af þessum ellefu voru svo fimm nemendur valdir áfram til að taka þátt í aðalkeppninni, sem haldin verður í Hömrum miðvikudaginn 13. mars n.k.

Fulltrúar skólans verða þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Snjólaug Ásta Björnsdóttir. Varamenn þeirra verða Guðrún Kristín Kristinsdóttir og Benedikt Hrafn Guðnason.

Dómarar í morgun voru þau Halldóra Rósa Björnsdóttir, Jóna Benediktsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson.

Við óskum þátttakendum öllum til hamingju með árangurinn og bíðum spennt eftir að fylgjast með okkar fulltrúum í lokakeppninni 13. mars.

 

 

 

Skýrsla um innra mat skólans

Í vetur er starfandi sjálfsmatsteymi við Grunnskólann á Ísafirði. Teymið hefur hist að jafnaði einu sinni í viku og undirbúið innra mat á starfsemi í skólanum, lagt upp spurningar og rýnt í niðurstöður þannig að sem mest gagn megi verða af þeim.

Matsverkefni haustannar fjallar um stjórnun skólans, sjónarhorn foreldra, kennara og annarra starfsmanna á bæði innri og ytri stjórnun skólans. Aðeins er fjallað um sjónarhorn nemenda á innri stjórnun. 

Nú er þessi fyrsta matsskýrsla ársins komin út og er Jóna Benediktsdóttir ábyrgðarmaður hennar. Skýrsluna má finna hér.

Góðverkadagar

Krakkarnir í 4. HA hafa verið að taka þátt í góðverkadögum skátanna. Í vikunni fengu allir með sér heim góðverkadagbókina og allir ætla að reyna að gera að minnsta kosti eitt góðverk á dag. 

Markmiðið með góðverkadögum er að bæta mannlífið með hjálpsemi og vináttu – að gera góðverk. Velvildin og vináttan sem felst í að rétta öðrum hjálparhönd, óumbeðið og án skilmála er dýpri og sannari en almenn hjálpsemi eða dagleg aðstoð – við köllum það góðverk. Umbunin getur falist í þakklætisorðum eða einlægu brosi þess sem þiggur, en ríkulegasta umbunin er þó eigin vellíðan yfir að hafa orðið að liði – unnið góðverk. Góðverkin eru eins og frækorn sáðmannsins, sé þeim sáð í frjóan jarðveg, vaxa þau og dafna á undurhraða, fjölga sér og bera ríkulegan ávöxt.

Strákamál dansaði til sigurs

Sigurvegararnir þeir Bergsteinn Snær, Einar Torfi og Bjarni Pétur ásamt Sigrúnu Lísu Torfadóttur, dansþjálfara þeirra. (Mynd: Sigrún Lísa Torfadóttir).
Sigurvegararnir þeir Bergsteinn Snær, Einar Torfi og Bjarni Pétur ásamt Sigrúnu Lísu Torfadóttur, dansþjálfara þeirra. (Mynd: Sigrún Lísa Torfadóttir).

Í dag var keppt í Freestyle dansi í sal skólans. Sjö hópar spreyttu sig á dansgólfinu, en þeir hafa æft stíft undanfarnar vikur undir leiðsögn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur danskennara.

Danshópurinn Strákamál sigraði, en hópinn skipa þeir Bergsteinn Snær Bjarkason, Bjarni Pétur Jónasson og Einar Torfi Torfason, allir úr 7. bekk.

Í öðru sæti urðu Blood girls, en það eru þær Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Tanja Snót Brynjólfsdóttir og Tinna Dögg Þorbergsdóttir, allar úr 7. bekk.

Í þriðja sæti hafnaði danshópurinn MTV, en það eru þær Hildur Karen Jónsdóttir, Lára Albertsdóttir og Nikola Chylinska, en þær koma úr 6. bekk. 

Dómarar að þessu sinni voru þær Aldís Dröfn Stefánsdóttir, Henna Riikka Nurmi og Margrét Lilja Vilmundardóttir.

Frábær útivistardagur í Tungudal

1 af 3

Í gær var útivistardagur í Tungudal hjá 5. - 10. bekk.  Nemendur mættu kl. 10:00 og voru til kl. 13:30 á skíðasvæðinu, ýmist á svigskíðum, gönguskíðum, brettum, sleðum eða þotum. Veðrið var eins og best var á kosið, stilla og um 8°C.

Dagurinn gekk eins og best var á kosið og allir nutu útiverunnar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Keppni í Freestyle

Keppni í freestyle dansi fer fram í sal skólans á morgun, miðvikudaginn 20. febrúar kl. 17:30. Keppendur eru úr 6. og 7. bekk og hafa þeir æft af miklu kappi undanfarnar vikur. Aðgangseyrir er kr. 700 og eru allir velkomnir.

Útivistardagur í Tungudal

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  þriðjudaginn 19. febrúar  fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 10:00-13:30. 

Við förum þess á leit við foreldra/forráðamenn, að þeir keyri börnin á skíðasvæðið og sæki þau aftur, sé þess nokkur kostur.  Við vitum að ekki eiga allir foreldrar auðvelt með að keyra börnin sín og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 9:45 og  frá skíðasvæðinu kl 13:40.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 2000 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar og verða þær opnar áfram eftir 13:30  og geta nemendur verið lengur ef þeir óska þess. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru í áskrift í mötuneytinu, en aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

 

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir nemendur sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum. Einnig má nota reiðhjólahjálma. Þeir nemendur sem eiga lyftukort eru beðnir að hafa þau með sér.

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og skíðandi foreldrar vel þegnir.

 

Frumkvöðlar framtíðarinnar

Nú er mjög spennandi verkefni í vinnslu hér í skólanum sem er ætlað nemendum í 8. bekk. Við köllum það Frumkvöðlar framtíðarinnar og er það samstarfsverkefni Grunnskólans á Ísafirði, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (AtVest) og Fab Lab (NMÍ).

Nemendur fá kynningu á Fab Lab hjá Albertínu Elíasdóttur, forstöðumanni Fab Lab á Ísafirði. Þeim er svo skipt í hópa og mun hver hópur hanna vöru og smíða frumgerðina í Fab Lab. Þegar varan er tilbúin gera nemendurnir einfalda viðskiptaáætlun með það að markmiði að selja vöruna, en varan verður þó ekki seld í raun. Áætlunin verður gerð undir leiðsögn Shirans Þórissonar, framkvæmdastjóra AtVest. Að því loknu verða viðskiptaáætlanirnar kynntar fyrir dómnefnd, sem verður skipuð fólki úr atvinnulífinu, þar sem besta áætlunin verður valin.

 

Markmið verkefnisins er að nemendurnir öðlist reynslu í frumgerðarsmíð í Fab Lab og viðskiptaáætlanagerð. Einnig að þjálfa þá í skapandi hugsun, auka tæknilæsi þeirra og sýna þeim ferlið sem er á bak við vöruþróun. Óbeint getur þetta hvatt þau til frekari frumkvöðlaverkefna í framtíðinni og er því upp að vissu marki verið að þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar.

Rósaball

Í kvöld heldur fjáröflunarnefnd 10. bekkjar Rósaball fyrir nemendur í 8.-10. bekk.  Ballið á sér langa sögu en undanfarin ár hefur það ekki snúist um það að strákar eigi að bjóða stúlkum á stefnumót heldur hefur yfirskriftin verið Para og vinaball.  Aðsóknin hefur aukist mikið vegna þess að margir unglingar vilja helst fara með sínum vinum/vinkonum á ball án þess að þurfi að setja á það ákveðinn merkimiða. 

Ástæða þess að ballið er haldið á fimmtudegi er sú að helgarnar í febrúar og mars eru þétt setnar af íþróttamótum og stór hópur nemenda sækir mót víðsvegar um landið.  Þess vegna verður frí í fyrstu tveimur kennslustundunum hjá 8. - 10. bekk í fyrramálið en að sjálfsögðu eru nemendur velkomnir í skólann og allir kennarar verða við vinnu og geta aðstoðað þá sem vilja nýta tímann til að læra.

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Hermann Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðar afhenti Gauti Óla Gíslasyni verðlaunin.
Hermann Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðar afhenti Gauti Óla Gíslasyni verðlaunin.

Landssamband slökkviliðsmanna efndi til eldvarnaviku í desember s.l. Slökkviliðsmenn heimsóttu 3. bekk og lögðu sérstakt verkefni fyrir nemendur ásamt eldvarnagetraun og ræddu um eldvarnir.

Góð þátttaka var í getrauninni og var einn vinningshafi frá G.Í. dreginn út og var hinn heppni Gautur Óli Gíslason. Hann fékk reykskynjara og Ipod í verðlaun og afhenti Hermann Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðar honum verðlaunin í dag.

Við óskum Gauti innilega til hamingju með þessi glæsilegu verðlaun.