VALMYND ×

Fréttir

Foreldradagur

Miðvikudaginn 14. nóvember er foreldradagur. Þá mæta nemendur og foreldrar/forráðamenn í viðtöl til umsjónarkennara samkvæmt gefnum viðtalstímum sem sendir voru heim í dag. Þá verða sérgreinakennarar, sérkennarar og skólaráðgjafi einnig til viðtals.

Mikolaj Ólafur í úrslit EPTA

Mikolaj Ólafur Frach
Mikolaj Ólafur Frach
1 af 2

Mikolaj Ólafur Frach, nemandi í 7. bekk G.Í. hafnaði í 4.-5. sæti í EPTA píanókeppninni sem haldin var í Salnum í Kópavogi í liðinni viku. Mikolaj keppti ásamt 22 öðrum píanónemendum í 1. flokki, sem er flokkur 14 ára og yngri og var Hilmar Adam Jóhannsson, nemandi í 9. bekk einnig þar á meðal.

Fimm nemendur komust svo áfram í úrslit, sem haldin voru í gær og var Mikolaj einn þeirra og hafnaði í 4. - 5. sæti eins og áður segir. Það  er svo sannarlega frábær árangur í svo sterkri keppni sem EPTA er og óskum við honum innilega til hamingju með árangurinn. Hilmar Adam stóð sig einnig með stakri prýði og er það mikil og erfið vinna sem liggur að baki þátttökunni hjá þessum ungu og efnilegu píanóleikurum.

Allar nánari upplýsingar um keppnina og úrslitin má finna inni á heimasíðu EPTA.

Yfirlýsing gegn einelti

1 af 2

Í dag var skrifað undir yfirlýsingu til að vinna gegn einelti hvar sem það birtist. Öllum bæjarbúum var boðið að koma og skrifa undir með okkur í skólanum og þátttakan var mjög góð. Hingað komu foreldrar, ömmur og afar og fólk af hinum ýmsu vinnustöðum sem hefur engin sérstök tengsl við skólann.

Yfirlýsingin hangir nú uppi í nýja anddyrinu.

 

Forvarnir gegn einelti

Þessa vikuna eru allir bekkir að vinna verkefni sem snúast um forvarnir gegn einelti.  Misjafnt er eftir aldri og þroska hvað verið er að fást við.  

10. bekkur fjallar um mismunandi birtingarmyndir eineltis eftir aldri gerenda og þolenda. 

9. bekkur býr til glærusýningu um einelti fyrir yngri nemendur.

8. bekkur ætlar að setja fram skilgreiningu á einelti og birtingarmyndum þess.

7. bekkur býr til leikþætti og veggspjöld.

6. bekkur býr til veggspjöld gegn einelti á sem flestum tungumálum.

5. bekkur býr til myndir af stöðum þar sem nemendur telja líklegt að einelti fari fram á.

4. bekkur vinnur með eineltishringinn.

3. bekkur býr til fullyrðingar og spurningar um einelti og myndskreytir þær.

2. bekkur fær til sín glærusýningu frá 9. bekk.

1. bekkur gerir myndverk um tilfinningar.

Afrakstur þessarar vinnu  verður sýnilegur á göngum skólans næstu daga. Nemendur skólans hafa líka hengt upp skilgreiningar á einelti á fjölförnum stöðum í bænum í von um að vekja fleiri il umhugsunar um þetta samfélagsvandamál. Við viljum endilega bjóða  bæjarbúum að vera með okkur í þessari vinnu því að við vitum að einelti er ekki bara bundið við skólastofnanir.  Við bjóðum ykkur að koma í skólann í hádeginu fimmtudaginn 8. nóv. og skrifa undir yfirlýsingu um að þið ætlið að leggja ykkar af mörkum í vinnu gegn einelti. 

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Við undirrituð tökum ekki þátt í einelti og ætlum að leggja okkar af mörkum til að vinna gegn því.

Við bjóðum líka veggspjöld með þessari yfirlýsingu til sölu. Þau verða plöstuð og fallega myndskreytt. Þeim sem vilja kaupa veggspjöld til að hengja upp á sínum vinnustöðum er bent á að hafa samband á netfangið grisa@grisa.is. Kostnaðarverð fyrir veggspjald er 500 krónur en ef einhverjir vilja borga meira erum við að reyna að kaupa fleiri skjávarpa í skólann og hugsum okkur að nota ágóða af þessu (ef einhver verður) til þess.

Við hvetjum alla til að koma í anddyri nýja skólans eftir klukkan 11:30 á fimmtudaginn og skrifa undir yfirlýsinguna gegn einelti.

Nemendur keppa í EPTA

Hilmar Adam og Mikolaj Ólafur
Hilmar Adam og Mikolaj Ólafur

Í dag kepptu Mikolaj Ólafur Frach nemandi í 7. bekk og Hilmar Adam Jóhannsson í 9. bekk í EPTA píanókeppninni, sem fram fer í Salnum í Kópavogi. Þeir stunda báðir píanónám við Tónlistarskóla Ísafjarðar hjá Iwonu Frach og Beötu Joó. Strákarnir stóðu sig með mikilli prýði báðir tveir, en það kemur svo í ljós seinni partinn á morgun hvort þeir komast í úrslit í 1. flokki, þ.e. flokki 14 ára og yngri, en þátttakan ein og sér er mikill sigur.

Þetta er í 5. skiptið sem píanókeppni Íslandsdeildar EPTA er haldin og eru dómarar Nelita True, yfirdómari, Halldór Haraldsson, Anna Þorgrímsdóttir, Selma Guðmundsdóttir og Kristinn Örn Kristinsson. 

Evrópusamband píanókennara var stofnað í Bretlandi árið 1978 og að frumkvæði Halldórs Haraldssonar var Ísland fyrsta landið til að ganga í sambandið árið 1979. Samtökin eru regnhlífarsamtök fyrir píanókennara sem öll Evrópulöndin eiga nú aðild að. Verndari keppninnar er mennta- og menningarmálaráðherra.

Nýtt fréttabréf

Út er komið nýtt fréttabréf með öllum helstu viðburðum í skólastarfinu í október. Fréttabréfið er hægt að nálgast hér vinstra megin á síðunni.

Átak gegn einelti

Í skólanum hjá okkur er nú í gangi sérstakt átak til að vinna gegn einelti. Allir nemendur vinna verkefni tengd því hvernig hægt er að minnka líkur á því og bregðast við ef um einelti er að ræða.

Nemendur 6. bekkjar hafa farið með skilgreiningar á einelti vítt og breitt um bæinn í þeirri von að fá bæjarbúa með okkur í lið til að kveða niður slíkt ofbeldi hvar sem það birtist. Fimmtudaginn 8. nóvember er svo öllum bæjarbúum boðið að koma í skólann og skrifa undir yfirlýsingu gegn einelti, en sá dagur er helgaður baráttunni gegn einelti.

Lúsin komin

Nú hefur höfuðlúsin gert vart við sig í skólanum og hafa foreldrar fengið sendar leiðbeiningar frá skólahjúkrunarfræðingi varðandi viðeigandi ráðstafanir. Lúsin smitast nær eingöngu við beina snertingu og er sáralítil  hætta á að smitast af umhverfinu en það  er þó möguleiki að smitast af greiðum/burstum og höfuðfötum. Lús sem dottið hefur úr höfði verður fljótt löskuð og veikburða og er hún háð hári til að geta hreyft sig úr stað.

Við hvetjum alla til að vera vel vakandi og reyna þannig að uppræta þennan leiða vágest.



 

Jól í skókassa

6. bekkur við afhendingu jólapakkanna í Ísafjarðarkirkju
6. bekkur við afhendingu jólapakkanna í Ísafjarðarkirkju
1 af 4

Þessa dagana hafa 6., 7. og 8. bekkur verið í óðaönn að pakka inn jólagjöfum handa fátækum börnum í Úkraínu á vegum verkefnisins Jól í skókassa. Í morgun voru pakkarnir afhentir sr. Magnúsi Erlingssyni og Elínu H. Friðriksdóttur hjá Ísafjarðarkirkju, sem sjá svo um að koma þeim áfram til Reykjavíkur. KFUM annast svo sendingu þeirra til Úkraínu fyrstu dagana í janúar, en jólin eru haldin hátíðleg þar í landi 6. janúar.

Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna en atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Það voru glaðir krakkar sem afhentu pakkana í kirkjunni í morgun, enda fylgir því góð tilfinning að gleðja aðra. Það má því með sanni segja að sælla er að gefa en þiggja.

Morgunverðurinn - mikilvægasta máltíð dagsins

Salóme Elín Ingólfsdóttir, næringarfræðingur og ráðgjafi mötuneyta Ísafjarðarbæjar, hefur sent frá sér fróðleiksmola varðandi mikilvægi morgunverðar. Við hvetjum alla til að lesa ráðleggingar hennar hér.