VALMYND ×

Fréttir

Maskadagur

Á mánudaginn er maskadagur/bolludagur. Þá hvetjum við alla, nemendur sem starfsfólk til að mæta í búningum og verður gaman að sjá hvaða persónur verða á ferli þann dag. Kennsla verður með hefðbundnum hætti, nema það að sund fellur niður hjá 1. bekk og slegið verður upp þremur maskaböllum á sal skólans.

 

1. – 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:20 - 11:00

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Að sjálfsögðu mega nemendur koma með bollur í nesti á sjálfan bolludaginn.

 

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

 

 

 


Heimanámsstefna G.Í.

Undanfarna mánuði höfum við verið að leita eftir sjónarmiðum allra aðila sem koma að skólastarfinu um markmið og tilgang heimanáms. Hverjar eigi að vera áherslur á hverju stigi og hvaða þætti ætti helst að vinna með.  Komin er niðurstaða bæði frá kennurum og foreldrum og í morgun var fundur með nemendum.  Valdir voru tveir fulltrúar úr hverjum árgangi frá 5. – 10. bekk til að fjalla um heimanámið, sex stelpur og sex strákar.  Umræður meðal nemenda voru málefnalegar og mjög gagnlegt er fyrir okkur að heyra sjónarmið þeirra.  Þeir vilja hafa heimanám en ekki of mikið, hafa líka góðan skilning á því að ef þeir klára ekki verkin sín í skólanum þurfi þeir að gera það heima.  Það sem helst veldur erfiðleikum við heimanámið er tímaskortur því margir krakkar eru óskaplega uppteknir við íþróttaæfingar eða annarskonar tómstundastarf.

Á næstu vikum mun formleg heimanámsstefna verða mótuð í skólanum á grunni þeirra upplýsinga sem liggja fyrir eftir þessa vinnu. 

 

Vinnustofa í byrjendalæsi

1 af 4

Í dag var vinnustofa frá klukkan 11:40 - 13:00 hjá öllum kennurum í 1. - 4. bekk, vegna verkefnisins um byrjendalæsi. Allir nemendur í þessum árgöngum, ásamt nokkrum starfsmönnum og dugmiklum unglingum, fóru gangandi saman upp á Torfnes og áttu skemmtilega stund í íþróttahúsinu þar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

Foreldradagur

Á morgun, miðvikudaginn 6. febrúar, er foreldradagur. Þann dag mæta nemendur í viðtöl hjá umsjónarkennurum sínum ásamt foreldrum/forráðamönnum og farið verður yfir stöðu námsins o.fl. Aðrir kennarar og skólaráðgjafi verða einnig til viðtals ef óskað er eftir því.

Að venju býður 10. bekkur upp á vöfflur á 300 kr. í anddyri skólans, til fjáröflunar fyrir vorferð árgangsins.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er haldinn hátíðlegur í tíunda sinn í dag. Þemað í ár er Réttindi og ábyrgð á netinu og munu yfir 70 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag.

Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda samstarfsnetið Insafe og yfir 40 önnur lönd munu leiða saman ýmsa hagsmunaðila til þess að vekja athygli á og ræða netið frá ýmsum hliðum. Samstarfsnetið hefur látið framleiða stutta auglýsingu til þess að styðja við átakið, en hún verður aðgengileg á netinu og sýnd í sjónvarpi næstu daga.

Lífshlaupið

Grunnskólinn á Ísafirði  hefur ákveðið að taka þátt í Lífshlaupinu 2013, átaks- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Vinnustaðakeppnin og hvatningarleikur grunnskólanna verða ræst miðvikudaginn 6. febrúar og stendur hvatningarleikurinn í tvær vikur, eða til 19. febrúar og vinnustaðakeppnin í þrjár vikur, eða til 26. febrúar.

Megin markmið verkefnisins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Við ætlum að taka þátt í hvatningarleik fyrir grunnskóla þar sem nemendur okkar keppa við aðra skóla um það hvort þeir nái að hreyfa sig í 60 mínútur daglega eða á meðan átakið stendur yfir. Starfsfólk skólans ætlar einnig að taka þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins en einnig er hægt að taka þátt í einstaklingskeppni sem stendur yfir allt árið og hentar Lífshlaupið því fyrir alla. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess.

Nýtt fréttabréf

Þau eru margskonar viðfangsefnin sem nemendur og starfsfólk skólans taka sér fyrir hendur í fjölbreyttu skólastarfi. Í nýju fréttabréfi skólans er stiklað á helstu atburðum janúar mánaðar.

Vitnisburður haustannar

Í dag fengu allir nemendur skólans vitnisburð fyrir haustönn, sem lauk nú í lok janúar. Foreldradagur er svo næstkomandi miðvikudag, 6. febrúar og fóru tímasetningar viðtala einnig heim með nemendum í dag.

Heimsókn frá KFÍ

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn frá Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar. Þar voru á ferð þau Guðjón M. Þorsteinsson, Eva Margrét Kristjánsdóttir íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2012 og Brittany Schoen, en þær stöllur leika báðar með meistaraflokki KFÍ.  

Þau ræddu við nemendur um íþróttir og félagsmál og hve mikilvægt það er að taka þátt í hverskonar tómstundum. Þau lögðu áherslu á mikilvægi þess að láta skólann ganga fyrir og skipuleggja sig vel, bæði í námi og öðru starfi, enda er skipulag og samviskusemi lykillinn að góðum árangri.
Guðjón sagði að Eva Margrét, sem er í 10. bekk G.Í., væri frábær fyrirmynd. Hún stundar námið af samviskusemi, vinnur með skóla auk þess sem hún æfir á fullu og þar vantar ekki skipulag.

Frábærir krakkar í G.Í. sem spurðu góðra spurninga og eru greinilega með allt á tæru. Framtíðin er björt og hlakka ég til að sjá þau í framtíðinni, sagði Guðjón að lokum.

Fyrirlestur fyrir foreldra

Á morgun, fimmtudaginn 31. janúar, munu foreldrafélög grunnskólanna á norðanverðum Vestfjörðum bjóða upp á skemmtilegan og fræðandi fyrirlestur með Hugo Þórissyni sálfræðingi, um samskipti foreldra og barna. Fyrirlesturinn er haldinn á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði og hefst kl. 20:00. Allir áhugasamir eru velkomnir, sama hvort þeir eiga börn á grunnskólaaldri eða ekki.