VALMYND ×

Fréttir

Eva Margrét íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2012

Eva Margrét ásamt bekkjarfélögum sínum í 10. bekk
Eva Margrét ásamt bekkjarfélögum sínum í 10. bekk

Eva Margrét Kristjánsdóttir, leikmaður KFÍ og nemandi í 10. bekk G.Í., var nú um helgina valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar í hófi sem Ísafjarðarbær stóð fyrir. Eva Margrét er vel að þessum titli komin, enda er hún frábær körfuknattleikskona og mikil og góð fyrirmynd og hvatning fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk.

Við óskum Evu Margréti innilega til hamingju með þennan glæsilega titil og það gerðu einnig bekkjarfélagar hennar í 10. bekk í morgun, sem voru mjög stoltir af henni og afhentu henni veglegan blómvönd eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hjalti Hermann boðaður á U-16 æfingar

Hjalti Hermann Gíslason
Hjalti Hermann Gíslason

Hjalti Hermann Gíslason leikmaður 3.flokks BÍ/Bolungarvíkur og nemandi í 9. bekk G.Í. var boðaður á æfingar með U-16 nú um helgina. Hjalti Hermann spilaði með 4.flokki BÍ/Bolungarvík s.l. sumar, sem var hársbreidd frá sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins og sigraði REY-CUP að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvíkur.

Baráttan við höfuðlúsina

Í dag fengu allir nemendur skólans bréf um viðbrögð við höfuðlúsinni sem herjað hefur á ísfirsk heimili undanfarnar vikur. Í bréfinu eru öll heimili beðin um að kemba hár fjölskyldumeðlima nú um helgina.

Nemendur eiga að skila bréfinu til baka í skólann strax á mánudagsmorgni, þar sem staðfest er að kembing hafi farið fram.

Þeir sem ekki verða við þessum tilmælum, verða kembdir hjá skólahjúkrunarfræðingi á mánudaginn.

Von okkar er sú að allir leggist nú á eitt og með þessu móti verði hægt að koma í veg fyrir frekara smit og uppræta þennan hvimleiða gest.

Tónlistarverkefni í 5. bekk

Eins og mörgum er kunnugt um fengu Grunnskólinn á Ísafirði og Tónlistarskóli Ísafjarðar sameiginlegan styrk úr samfélagssjóði Orkubús Vestfjarða nú á dögunum, til að efla tónlistarkennslu.

Ákveðið hefur verið að nýta styrkinn til að bjóða nemendum 5. bekkjar í sérstakt tónlistarverkefni. Öllum nemendum árgangsins mun bjóðast að læra á blásturshljóðfæri núna á vorönn, foreldrum að kostnaðarlausu. Krakkarnir munu fara í hópum, tvisvar í viku í Tónlistarskólann og njóta þar kennslu hjá Madis Maeekalle í tuttugu mínútur í senn, á skólatíma.

Stefnt er að því að hefja námið nú í lok janúar og vonast er til að ljúka verkefninu í maí með því að spila með á lúðrasveitartónleikum Tónlistarskólans.

Byggingaframkvæmdir á Austurvelli

Í vikunni greip 2. bekkur tækifærið  og skellti sér út í blómagarð í byggingaframkvæmdir.  Ekki þurfti steypu eða timbur til verksins, þar sem snjórinn var nægur. Byggingarnar risu hratt og voru byggð virki, snjókarlar, útsýnispallur og rennibraut.  Einnig litu margir englar dagsins ljós, sem hafa eflaust dáðst að listsköpun krakkanna og vakað yfir þeim þar til snjóinn leysti. 

Útivistin heppnaðist vel og voru allir ánægðir með verk sín og endurnærðir eftir góða útiveru.

Gönguskíðakrakkar gera það gott

Um liðna helgi var Bikarmót SKÍ í skíðagöngu haldið í blíðskaparveðri á Seljalandsdal. Keppendur voru frá 13 ára aldri og komu frá Ísafirði, Ólafsfirði, Akureyri og Reykjavík. Keppt var í sprettgöngu, með frjálsri aðferð og í svokallaðri skiptigöngu, sem er tvíkeppni, þ.e. hefðbundin aðferð og skaut.

Katrín Ósk Einarsdóttir, nemandi í 8. bekk G.Í. gerði sér lítið fyrir og sigraði þrefalt, þ.e. í öllum keppnisgreinum. Unnur Eyrún Kristjánsdóttir í 8. bekk varð í 2. sæti með frjálsri aðferð og tvíkeppni og í 3. sæti í sprettgöngu. Jóhanna María Steinþórsdóttir í 9. bekk varð í 3. sæti í tvíkeppni og í því 4. í sprettgöngu og frjálsri aðferð. Stelpurnar kepptu allar í flokknum 13 - 14 ára.

Hjá strákunum varð Dagur Benediktsson í 9. bekk í 2. sæti í öllum greinunum þremur. Sigurður Arnar Hannesson í 8. bekk varð í 3. sæti í sprettgöngu og tvíkeppni og í 4. sæti með frjálsri aðferð. Dagur og Sigurður Arnar kepptu báðir í flokki 13 - 14 ára.

Guðmundur Sigurvin Bjarnason í 10. bekk, keppti í flokki 15 - 16 ára og sigraði í sprettgöngu og varð í 2. sæti með frjálsri aðferð og í tvíkeppninni.

Við óskum öllum þessum krökkum innilega til hamingju með góðan árangur.

Lúsin

Nú hefur lúsin gert vart við sig á nýjan leik hér í einum árgangi og hafa foreldrar fengið bréf varðandi rétt viðbrögð. Allir geta fengið lús og lúsasmit er ekki merki um óþrifnað. 

Lúsin smitast nær eingöngu við beina snertingu og er sáralítil  hætta á að smitast af umhverfinu en möguleiki er að smitast af greiðum/burstum og höfuðfötum.  Lús sem dottið hefur úr höfði verður fljótt löskuð og veikburða.

 

Foreldrar eru hvattir til að bregðast við og láta skólahjúkrunarfræðing vita um öll tilvik sem upp koma.

 

Eva Margrét íþróttamaður KFÍ 2012

Eva Margrét Kristjánsdóttir íþróttamaður KFÍ 2012. Mynd: bb.is
Eva Margrét Kristjánsdóttir íþróttamaður KFÍ 2012. Mynd: bb.is

Eva Margrét Kristjánsdóttir, nemandi í 10. bekk G.Í.  hefur verið kjörin íþróttamaður KFÍ árið 2012. Hún er ein af efnilegustu körfuboltaiðkendum á landinu og afrekaskrá hennar er nú þegar orðin eftirtektarverð þrátt fyrir ungan aldur.  Með KFÍ er hún lykilmaður í stúlknaflokki (16-17 ára) ásamt því að spila stórt hlutverk í meistaraflokki kvenna í 1. deild en þar er hún með 19 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 varin skot að meðaltali í leik. 

 

Á síðasta ári lék Eva Margrét fjóra landsleiki með U15 landsliði Íslands. Hún skoraði 32 stig í þeim leikjum og var lykilleikmaður í stúlknaflokki KFÍ og meistaraflokki sem náði 2. sæti í 1. deild kvenna. Hún lék til úrslita um sæti í Dominos-deild kvenna þar sem hún var með 10 stig, 2 stoðsendingar og 2 varin skot að meðaltali í leik. Eva er  einnig í landsliðshóp U16 landsliðs Íslands sem tekur þátt í Norðurlandamóti á vegum KKÍ.

 

Eva Margrét er afreksíþróttamaður sem leggur mikinn metnað í að æfa sem slíkur og tekur allar aukaæfingar sem bjóðast innan sem utan keppnistímabils og það er að skila sér þar sem hún er ein af lykilmönnum meistaraflokks KFÍ og er mikil fyrirmynd að því er fram kemur á heimasíðu KFÍ.

Annaskil

Nú fer að líða að lokum haustannar með viðeigandi námsmati, en önninni lýkur 18. janúar.

Í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla er skólum gert að taka tillit til fleiri þátta en þeirra sem við höfum til þessa kallað hefðbundið námsmat. Það mat hefur miðast að mestu leyti við árangur nemenda í einstökum námsgreinum. Nú skal einnig, innan hvers námssviðs, leggja mat á hæfni nemenda í grunnþáttum almennrar menntunar. Þar ber helst að nefna þætti eins og samskipti og samstarf, þekkingu og leikni, hæfni til að miðla þekkingu sinni og beita gagnrýninni hugsun, hæfni til að vinna undir leiðsögn ásamt hæfni til sjálfstæðra vinnubragða og ábyrgðar á eigin námi.

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur nú þegar farið fram mikil vinna við endurskipulag á námsmati en þó er ljóst að þegar um svona miklar breytingar er að ræða verður að fikra sig áfram og hrinda þeim í framkvæmd í nokkrum skrefum. Skólinn lagði af stað með töluverðar breytingar haustið 2011 en námsmatið hefur verið í stöðugri þróun síðustu ár í átt að nýjum markmiðum aðalnámskrár. 

Vegleg gjöf frá kvenfélaginu Hvöt

Kvenfélagið Hvöt varð 100 ára þann 29. des s.l. og af því tilefni var ákveðið að styrkja nokkur góð málefni í heimabyggð. Verkefni í byrjendalæsi G.Í. hlaut 200.000 kr. í styrk og er þeim fjármunum ætlað að fara í kaup á kennslugögnum sem nýtast í því verkefni.


Byrjendalæsi er ný aðferð til að kenna ungum börnum lestur og miðar að því að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngunni. Aðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms í skólastarfi á landinu og nú er svo komið að yfir 70 grunnskólar af þeim 174 sem starfa á landinu styðjast við aðferðina og alltaf bætast fleiri í hópinn. Grunnskólinn á Ísafirði tók byrjendalæsi upp nú í haust í samstarfi við skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Aðferðin lofar góðu, en með henni er reynt að setja skilning ungra barna í forgrunn í lestrarkennslu í stað þess að einblína á lestrartækni og hraðan lestur.  

 

Styrkur kvenfélagsins Hvatar kemur sér afar vel í þessu stóra verkefni sem byrjendalæsið er og þakkar skólinn höfðinglega gjöf.