VALMYND ×

Fréttir

Gísli Jörgen valinn í úrtakshóp HSÍ

Gísli Jörgen Gíslason, nemandi í 9. bekk og leikmaður 4. flokks Harðar í handbolta, hefur verið valinn í úrtakshóp 1998 árgangsins á vegum HSÍ. Fyrsta æfingahelgi hópsins fer fram dagana 2. - 4. nóvember næstkomandi.
Það er mikill heiður að vera valinn til þessara æfinga og ljóst að Ísfirðingar eiga fullt af ungu og efnilegu íþróttafólki.

Löng helgi framundan

Á morgun, föstudaginn 26. október er starfsdagur. Mánudaginn 29. október er svo vetrarfrí, þannig að nú er löng helgi framundan hjá nemendum. 

Elín Ólöf á landsliðsæfingar

Elín Ólöf Sveinsdóttir. Mynd: hsv.is
Elín Ólöf Sveinsdóttir. Mynd: hsv.is

Enn bætast ungir og efnilegir Ísfirðingar í hóp þeirra sem æfa með landsliðunum i knattspyrnu. Elín Ólöf Sveinsdóttir, nemandi í 10. bekk G.Í. og leikmaður í meistaraflokki BÍ/Bolungarvíkur, hefur nú verið boðuð á landsliðsæfingar með U-16 landsliði kvenna. Æfingarnar fara fram um næstu helgi í Egilshöll og í Kórnum í Kópavogi, að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvíkur.

Sjáumst í vetur

Nú fer dimmasti árstíminn í hönd og mikið myrkur á morgnana. Því viljum við beina því til allra að nota endurskinsmerki til að sjást vel í umferðinni.

Daníel Agnar skrifar undir samning

Samúel Samúelsson formaður BÍ/Bolungarvíkur og Daníel Agnar Ásgeirsson. Mynd: bb.is
Samúel Samúelsson formaður BÍ/Bolungarvíkur og Daníel Agnar Ásgeirsson. Mynd: bb.is

Daníel Agnar Ásgeirsson, nemandi í 10. bekk, hefur nú skrifað undir samning við knattspyrnulið BÍ/Bolungarvíkur. Daníel er Ísfirðingur að upplagi, en hann skipti yfir í lið BÍ/Bolungarvíkur í sumar eftir að hafa leikið með Völsungi á Húsavík síðastliðin tvö ár. Hann var Íslandsmeistari með 3. flokki félagsins í flokki sjö manna liða. Daníel var á dögunum valinn til þess að mæta á úrtaksæfingar hjá U-17 ára landsliði Íslands, en hann er yngsti leikmaður sem hefur samið við meistaraflokk BÍ/Bolungarvíkur að því er fram kemur á fréttavefnum bb.is.



Unglingar G.Í. á úrtaksæfingar landsliðsins í fótbolta

Þrír leikmenn 3. flokks karla BÍ/Bolungarvíkur hafa verið boðaðir á úrtaksæfingar um komandi helgi, þ.e. 20.-21.október. Leikmennirnir sem um ræðir eru Viktor Júlíusson og Friðrik Þórir Hjaltason nemendur í 9. bekk, sem hafa verið boðaðir á úrtaksæfingar hjá U-16 landsliðinu, og svo Daníel Agnar Ásgeirsson í 10. bekk sem hefur verið boðaður á úrtaksæfingar hjá U-17 landsliðinu.
Friðrik og Viktor spiluðu með 4. flokki í sumar sem vann Rey-Cup og rétt missti af sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Daníel Agnar spilaði með 3. flokki í sumar, en þeir unnu Rey-Cup og urðu Íslandsmeistarar í 7 manna bolta.
Þetta kemur fram á heimasíðu BÍ/Bolungarvíkur.

Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir

1 af 3

Í morgun vorum við heldur betur heppin, þegar félagar úr Litla Leikklúbbnum stigu á svið og sýndu nemendum 1. - 7. bekkjar brot úr leikritinu Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir í leikstjórn Halldóru Björnsdóttur. Krakkarnir kunnu vel að meta þetta framtak og voru alsælir að hitta hund, kött og hest hér innandyra í skólanum.

Heimsókn þessi er liður í skáldavikunni, þar sem verk Ólafs Hauks Símonarsonar eru til umfjöllunar, en hann gerði einmitt leikritið og tónlistina við Köttinn sem fer sínar eigin leiðir.
Myndir frá heimsókninni í morgun er að finna inni á myndasíðu skólans.

G.Í. sigraði á Íþróttahátíðinni í Bolungarvík

Verðlaunagripir nemenda G.Í.
Verðlaunagripir nemenda G.Í.

Íþróttahátíðin í Bolungarvík fór fram fimmtudaginn 11. október s.l. og tók Grunnskólinn á Ísafirði þátt samkvæmt venju. Að þessu sinni voru 4 lið skráð til þátttöku frá skólanum, til þess að gefa fleiri nemendum tækifæri á að taka þátt í þessari skemmtilegu hátíð. Keppt var í 10 greinum og var fyrirkomulaginu breytt frá því sem áður hefur verið og voru liðin skipuð bæði strákum og stelpum og kom þetta fyrirkomulag mjög vel út.

Skemmst er frá því að segja að G.Í. sem er lang stærsti skólinn, vann 7 greinar af 10 og sigraði þ.a.l. stigakeppnina eins og undanfarin ár. Skólinn sigraði í dansi, knattspyrnu, körfubolta, sundi, sundblaki, skák og spurningakeppni. Eftir að íþróttakeppninni lauk var svo slegið upp balli, þar sem að allir keppendur skemmtu sér vel.

Skáldavika

Ólafur Haukur Símonarson
Ólafur Haukur Símonarson

Undanfarin ár hafa verið haldnar skáldavikur í skólanum, þar sem einu skáldi eru gerð ítarleg skil. Í fyrra var það Vilborg Dagbjartsdóttir, en nú er röðin komin að Ólafi Hauki Símonarsyni. Ólafur Haukur hefur samið ógrynni af ódauðlegum lögum og ljóðum í gegnum tíðina, t.d. við leikritin um Hatt og Fatt og Köttinn sem fer sínar eigin leiðir.

Í komandi viku, 15. - 19. október, munum við því eflaust sjá og heyra mörg af verkum Ólafs Hauks, þar sem nemendur munu vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni út frá ljóðunum, auk þess sem söngurinn verður í hávegum hafður.

Spilavist

Sunnudaginn 14. október heldur fjáröflunarnefnd 10. bekkjar spilavist í matsalnum á Hlíf. Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir 12 ára og eldri, en 250 kr. fyrir yngri en 12 ára og eldri borgara. Veitingar eru innifaldar í mótsgjaldinu.

Hugmyndin er að halda 6 spilavistir frá október fram í apríl í fjáröflunarskyni fyrir vorferð 10. bekkjar. Á hverri spilavist verða veitt verðlaun fyrir stigahæstu þátttakendur.

Spilavistin hefst kl. 14:00 á sunnudaginn og eru allir velkomnir.