VALMYND ×

Fréttir

Skráning í mötuneyti

Við minnum á að þeir sem hyggja á skráningu í mötuneyti á nýju ári, þurfa að ganga frá þeim málum sem fyrst. Hér á síðunni undir hnappnum mötuneyti er hægt að nálgast skráningareyðublað ásamt matseðlum fram í apríl.

Þá hafa allir nemendur á yngsta- og miðstigi fengið eyðublöð heim til skráningar í mjólkuráskrift, fyrir þá sem það vilja. Þessum eyðublöðum skal skilað til umsjónarkennara eða ritara sem fyrst.

Gleðilegt ár

Starfsfólk G.Í. óskar öllum gleðilegs árs og þakkar liðið ár.


Fimmtudaginn 3. janúar er starfsdagur og hefst kennsla föstudaginn 4. janúar samkvæmt stundaskrá.

Jólakveðja

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum sínum, fjölskyldum þeirra og velunnurum öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Litlu jól og jólaleyfi

Í morgun voru litlu jólin haldin hátíðleg. Allir mættu prúðbúnir og áttu saman notalega stund í sínum bekkjarstofum. Haldnar voru fjórar jólatrésskemmtanir í anddyri nýja skólans þar sem nemendur og starfsfólk sungu saman jólalög og dönsuðu í kringum jólatréð, við undirleik Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur skólastjóra. Jólatrésskemmtanirnar gengu einstaklega vel og gaman að sjá hvað allir nemendur nutu hátíðleikans og samverunnar. Að sjálfsögðu birtust nokkrir rauðklæddir sveinar og létu þeir ekki sitt eftir liggja í söngnum og dansinum, enda engir nýgræðingar þar á ferð.

Að litlu jólunum loknum hófst svo jólaleyfið og verður fyrsti kennsludagur eftir áramótin föstudaginn 4. janúar.


Síðasti dagur fyrir jólaleyfi

Á morgun eru litlu jólin haldin hátíðleg í skólanum. Þá mæta allir kl. 9:00 spariklæddir og eiga notalega morgunstund í sínum bekkjarstofum, auk þess sem allir fara á jólatrésskemmtun í anddyri nýja skólans.

Skóla lýkur kl. 12:00 og hefst þá jólaleyfi. Kennsla hefst aftur á nýju ári föstudaginn 4. janúar 2013.

Piparkökuhús

Hópurinn með glæsileg piparkökuhús
Hópurinn með glæsileg piparkökuhús
1 af 3

Ein af jólahefðunum í skólanum er sú að heimilisfræðivalið á unglingastigi baki piparkökuhús undir leiðsögn Guðlaugar Jónsdóttur, heimilisfræðikennara. Húsin eru nú tilbúin í allri sinni dýrð og voru krakkarnir alsælir þegar búið var að skreyta þau og gera þau sem jólalegust.

Hægt er að sjá fleiri myndir með því að smella hér.

Vel heppnað jólaföndur

Mynd: Foreldrafélag G.Í.
Mynd: Foreldrafélag G.Í.

Á dögunum stóð Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði fyrir jólaföndri í sal skólans.  Mjög góð mæting var á föndrið en hátt í 200 börn, foreldrar og ættingjar mættu og föndruðu saman, drukku kakó og borðuðu piparkökur. Föndrið hefur svo sannarlega fest sig í sessi á aðventunni og hefur þátttakan verið mjög góð hingað til. 

Nánari upplýsingar um félagið og starfsemi þess má nálgast á heimasíðu félagsins. 

Aðventan

Skólastarfið hefur verið fjölbreytt nú á aðventunni sem endranær, en ýmislegt er gert til að brjóta það upp í mesta skammdeginu.

Vinabekkirnir í 1. og 8. bekk hittust á föstudaginn, þar sem unglingarnir lásu jólasögu fyrir yngri krakkana og sungu saman jólalög.

Krakkarnir í 3. bekk skruppu upp í Jónsgarð, hengdu upp kertalugtir í trén og kveiktu eld. Á meðan kakóið hitnaði á hlóðunum var brugðið á leik og svo var fengið sér heitt kakó og borðað jólasmákökur með. 

7. bekkur heimsótti Bæjarbókasafnið í vikunni og naut þess að glugga í bækur og blöð, en það er alltaf jafn notalegt að sækja það heim, enda einstakur andi í því virðulega og fallega húsi.

Jólaundirbúningurinn er í hámarki þessa dagana hjá öllum árgöngum, en allir föndra eitthvað ákveðið stykki sem þeir fá svo að taka með sér heim fyrir jólin. Einhverjir foreldrar verða jafnvel heppnir og fá handgerðar jólagjafir fá börnunum sínum.

Dagskráin í desember

Nú fer í hönd síðasta heila kennsluvika desembermánaðar. Kennt verður samkvæmt stundaskrá alla þessa viku og mánudag og þriðjudag í næstu viku.


Miðvikudaginn 19. desember er skreytingadagur. Þá er skóli frá kl. 8:00 - 12:00 og síðasti dagur mötuneytis fyrir jól. Dægradvöl verður opin frá kl. 12:00.

 

Fimmtudaginn 20. desember eru svo litlu jólin. Þá er skólatími frá kl. 9:00 - 12:00 og fer strætó kl. 8:40 úr firðinum og Hnífsdal. Á litlu jólin mæta allir prúðbúnir í sínar bekkjarstofur, þar sem allir eiga saman hátíðlega stund auk þess sem haldnar eru fjórar jólatrésskemmtanir. Dægradvöl verður opin frá kl. 12:00.


Allar nánari upplýsingar varðandi hvern og einn árgang, munu verða settar inn á bekkjarsíður, eða sendar heim eftir öðrum leiðum.

Þegar Trölli stal jólunum

Á morgun, föstudaginn 7. desember, verður frumsýnt í sal skólans leikritið ÞegarTrölli stal jólunum eftir Dr. Seuss, en um er að ræða árlegt 1. des. leikrit nemenda. Leikstjóri er Sunna Karen Einarsdóttir og aðstoðarleikstjóri Agnes Ósk Marzellíusardóttir, en leikarar eru úr 8. - 10. bekk G.Í. 

Krakkarnir hafa einungis haft þrjár vikur til þess að æfa og setja upp sýninguna, þannig að æfingar hafa verið mjög stífar undanfarið.

Fyrsta sýning er klukkan 20:00 á morgun og er ætluð 8. - 10. bekk. Sýningar fyrir almenning verða á laugardag kl. 13:00 og á sunnudag kl. 14:00. 

Miðaverð er kr. 1.000 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir yngri en 16 ára.