VALMYND ×

Fréttir

Vel heppnuð haustferð 10. bekkjar

Farangurinn ferjaður í land á Hesteyri
Farangurinn ferjaður í land á Hesteyri

Haustferð 10. bekkjar var farin á Hesteyri s.l. þriðjudag og miðvikudag. Til stóð  að fara í land á Sléttu og ganga til Hesteyrar, en vegna óhagstæðra lendingarskilyrða á Sléttu var siglt að Hesteyri og þaðan var gengið til Miðvíkur, Stakkadals og til baka  að Hesteyri. Ferðin tókst frábærlega og nemendur stóðu sig mjög vel og fóru heim þreyttir, sælir og glaðir.

Nemendum 5. bekkjar færðar kortabækur að gjöf

Grunnskólinn á Ísafirði færði nemendum 5. bekkjar kortabækur að gjöf nú í vikunni. Um nýja útgáfu er að ræða, aukna og endurskoðaða af Kortabók handa grunnskólum sem fyrst kom út árið 1992. Bókin er sem fyrr unnin í samstarfi við Liber - útgáfuna í Stokkhólmi en Íslandskort eru að mestu fengin frá Landmælingum Íslands og Jean-Pierre Biard kortagerðarmanni. Á bókarkápu er kort Guðbrands biskups Þorlákssonar sem kom út í hollensku kortasafni árið 1590. Kortið var lengi undirstaða þeirra myndar sem birtist af landinu, skreytt fjölda mynda af ófreskjum og sæskrímslum og er skemmtilegt að bera það saman við nútíma kort og myndir.

Það er ósk skólans að bókin nýtist nemendum vel í öllu frekara námi, enda um mjög eigulega bók að ræða.

10. bekkur á heimleið

Þessa stundina er 10. bekkur að sigla inn Ísafjarðardjúp eftir mjög vel heppnaða ferð til Hesteyrar. Hópurinn er væntanlegur til Ísafjarðar um kl. 15:30 á eftir.

Haustferð 10. bekkjar til Hesteyrar

Ákveðið hefur verið að fara í haustferð 10. bekkjar á morgun, þriðjudaginn 11. september. Farið verður kl. 9:00 frá Sundahöfn og eiga nemendur að mæta eigi síðar en 8:30. Siglt verður að Sléttu, gengið þaðan til Hesteyrar og gist í tjöldum. Farangurinn verður settur í land á Hesteyri. Komið verður heim síðdegis á miðvikudag.

Göngum í skólann

1 af 3

Þann 5. september s.l. hófst verkefnið Göngum í skólann, en það er nú  haldið í sjötta sinn hér á landi og tekur Grunnskólinn á Ísafirði þátt. Verkefninu lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 3. október. Sem fyrr verður lögð áhersla á að börn gangi eða hjóli til og frá skóla.

Markmið verkefnisins eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar, að því er fram kemur á heimasíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is

Sundhöllin opnar

Sundkennslan hefst þriðjudaginn 11. september eftir lagfæringar á Sundhöllinni. Íþróttirnar verða að öðru leyti kenndar utan dyra til 1. október og því nauðsynlegt að allir séu vel klæddir til útiveru þá daga.

Alþjóðadagur læsis

Alþjóðadagur læsis er laugardaginn 8. september, en Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað þann dag málefnum læsis allt frá árinu 1965. Í ár taka Íslendingar þátt í þessum degi í fjórða skiptið.

Fjölskyldur eru hvattar til að skipuleggja 30 mínútna fjölskyldulestrarstund og njóta þess að lesa saman. Einnig munu kennarar G.Í. skipuleggja lestrarstundir í skólanum eftir helgina. 

Starfsdagur

Föstudaginn 7. september er starfsdagur samkvæmt skóladagatali og engin kennsla.

Öflug ungmenni styrkja Sigurvon

Krabbameinsfélagið Sigurvon fékk á dögunum rausnarlega gjöf frá nemendum sem á síðasta skólaári voru í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði en stíga nú sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Afhentu þau Sigurvon 125 þúsund krónur og vilja með því leggja sitt af mörkum til að styrkja starfsemi félagsins. Peningarnir eru afgangur af ferðasjóði sem krakkarnir söfnuðu síðasta vetur til að fjármagna vorferð 10. bekkjar sem farin var í lok maí sl. í Skagafjörð. Voru krakkarnir svo öflugir í fjáröfluninni að peningarnir dugðu fyrir öllum útlögðum kostnaði við ferðina og vel það. Um 125 þúsund krónur stóðu eftir þegar allir reikningar höfðu verið borgaðir og urðu krakkarnir sammála um að Sigurvon fengi þá peninga. Vilja þau koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem styrktu þau í fjáröfluninni síðasta vetur, m.a. með því að mæta á viðburði sem haldnir voru í nafni 10. bekkjar og með kaupum á rækjum, kökum, dagatölum og ýmsu öðru.

Skólanum færðir skjávarpar að gjöf

Thelma Hjaltadóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir við afhendingu skjávarpanna. (mynd. www.bb.is)
Thelma Hjaltadóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir við afhendingu skjávarpanna. (mynd. www.bb.is)

Thelma Hjaltadóttir formaður Foreldrafélags G.Í. færði skólanum í dag tvo nýja skjávarpa að gjöf. Var það ákveðið eftir að félagið frétti af brýnni þörf skólans fyrir slíkan tækjakost. Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, tók við þessari veglegu gjöf og segir að skjávarparnir komi svo sannarlega að góðum notum.