VALMYND ×

Fréttir

Íþróttahátíð í Bolungarvík

Fimmtudaginn 11. október verður hin árlega íþrótthátíð haldin í Bolungarvík, þar sem skólar á norðanverðum Vestfjörðum etja kappi í hinum ýmsu íþróttagreinum.  Keppnin hefst kl. 11:00  og fer fyrsta rúta frá skólanum kl. 10:00 en hún er fyrir keppendur í fyrstu greinunum. Aðrir nemendur taka rútu kl. 10:30.  Rúturnar munu einnig stoppa í Hnífsdal og taka nemendur þaðan. 

Áætlað er að keppni ljúki milli kl. 18:30 og 19:00. Þá verður gert hlé til kl. 20:00 en þá hefst dansleikur í félagsmiðstöðinni sem lýkur kl. 23:00 og er aðgangseyrir kr. 1000. Rúta verður frá íþróttahúsinu kl. 19:00 fyrir þá sem ekki ætla á ball og einnig eru rútur til baka eftir ballið.  Á miðvikudag fá nemendur bækling með öllum nánari upplýsingum um dagskrána.

 

Skólalóðin hreinsuð

6.HS með ruslið sem tínt var í morgun
6.HS með ruslið sem tínt var í morgun
1 af 5

Í hverri viku fer ein bekkjardeild út og fegrar sitt nánasta umhverfi. Í morgun var röðin komin að 6. HS og fóru krakkarnir út í góða veðrið og tíndu rusl á skólalóðinni og fylltu nokkra poka. Þeim fannst ótrúlega mikið af alls kyns plastrusli sem náttúran á erfitt með að melta og hirtu þau það til förgunar.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum voru krakkarnir mjög duglegir, enda lítur skólalóðin mun betur út eftir tiltektina hjá þeim.

Göngum í skólann

Í morgun fóru nemendur og starfsfólk skólans í skrúðgöngu í tilefni af alþjóðlega Göngum í skólann deginum, sem var í fyrradag. 
Þar með lýkur formlega verkefninu Göngum í skólann hér á landi. Er þetta í fimmta skipti sem Ísland tekur þátt í verkefninu, en það hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi.

Á fimmta hundrað manns gekk fylktu liði um götur bæjarins kl. 8:50 og endaði á Silfurtorgi og setti skemmtilegan svip á bæinn, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Ný fréttabréf

Nú hefur nýtt fréttabréf skólans litið dagsins ljós. Allir nemendur fengu það sent í gær í pósti, en einnig er það að finna hér á síðunni undir hnappnum Fréttabréf.

Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði hefur einnig gefið út fréttabréf haustsins og er það að finna á heimasíðu félagsins.

Aðalfundur Foreldrafélags G.Í.

Aðalfundur Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði verður haldinn á morgun, 2. október kl. 20:00, í sal skólans.  Hefðbundin aðalfundarstörf.  Núverandi stjórn gefur öll kost á sér áfram. 

Að loknum aðalfundi mun Margrét Pála Ólafsdóttir, upphafskona Hjallastefnunnar á Íslandi, halda erindi um börn og skóla. Hún var reglulegur gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í fyrra vetur og fjallaði þar um börn og skóla í víðu samhengi og mun fyrirlesturinn vera í þeim anda. 
Foreldrar og forráðamenn grunnskólabarna á Ísafirði eru hvattir til að koma og eiga saman góða kvöldstund.

Sjálfsstyrkingarnámskeið

Í næstu viku býður Vá Vest hópurinn 8.bekk á sjálfsstyrkingarnámskeið. Árgangnum verður þá skipt upp í fjóra hópa og mun hver hópur vera einn dag frá kl. 9:40-14:00 á námskeiðinu. Það er Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur hjá Vímulausri æsku/Foreldrahúsi sem annast námskeiðið.

Innileikfimi

Nú um mánaðamótin tekur innileikfimin við af útileikfiminni. Þá þurfa nemendur að hafa íþróttaföt og handklæði meðferðis á íþróttadögum. 

Skólatöskudagar

Þessa viku stendur Iðjuþjálfafélag Íslands fyrir skólatöskudögum í samstarfi við landlækni. Skólatöskudagar eru árlegur viðburður þar sem áhersla er lögð á fræðslu um notkun skólatöskunnar. Einnig vigta iðjuþjálfar barn og skólatösku til að kanna hvort þyngd töskunnar sé hæfileg fyrir barnið. 

Grunnskólinn á Ísafirði fær iðjuþjálfana Hörpu Guðmundsdóttur og Signýju Kristinsdóttur í heimsókn í 1., 3. og 6. bekk og munu þær fræða nemendur um þessi mál og hjálpa til við stillingar á skólatöskunum.

Evrópski tungumáladagurinn

Evrópski tungumáladagurinn er 26. september ár hvert. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 2001 í samstarfi við Evrópuráðið og Evrópusambandið og er hann haldinn hátíðlegur í fjölmörgum ríkjum í Evrópu. Tungumál, tækni og tækifæri er yfirskrift dagsins að þessu sinni.

Að venju mun Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur standa fyrir viðburðum í tilefni dagsins og er ætlunin að beina sjónum að því hvernig nýta megi samfélagsmiðla og upplýsingatækni í þágu tungumálanáms. Ráðgert er að hleypa af stokkunum átaki til að upplýsa ungt fólk um gildi tungumálakunnáttu og með þeim hætti hvetja það til tungumálanáms. Einnig verður efnt til dagskrár í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, Máltæknisetur og samtök tungumálakennara um upplýsingatækni og tungumálanám, m.a. um rafræn hjálpargögn. Stofnunin efnir til leiks á Facebook-síðu sinni þar sem almenningur getur unnið bækur og klippikort á kvikmyndahátíðina RIFF.

Góð frammistaða í fótboltanum

Aldís Huld Höskuldsdóttir og Kolfinna Brá Ewa Einarsdóttir, nemendur í 9. bekk, hafa verið valdar í æfingahóp leikmanna sem fæddir eru árið 1998. Hópurinn kom saman á æfingar helgina 15.-16. september og var þetta liður í undirbúningi fyrir úrslitakeppni EM U17 kvenna sem fram fer á Íslandi í júní 2015.
Aldís Huld og Kolfinna Brá spiluðu báðar með 4.flokki BÍ/Bolungarvík í sumar og stóðu sig vel að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvík.