VALMYND ×

Fréttir

Föndurlota á unglingastigi

Í dag var jólaföndurlota á unglingastigi frá kl. 11:15 - 12:35, þar sem boðið var upp á fjölbreytilegt föndur.  Nemendur völdu sér viðfangsefni s.s kertagerð, gjafapokagerð, pappírsgerð, þæfingu, piparkökubakstur, kortagerð, gluggaskreytingar o.fl. og voru allir ánægðir með afraksturinn.

Opinn dagur

Mánudaginn 3. des er opinn dagur í skólanum.  Foreldrar og aðrir velunnarar eru ávallt velkomnir í skólann, en eru hvattir sérstaklega til að kíkja í heimsókn þennan dag.

Jóladagatal

Nú eru aðeins 24 dagar til jóla og ekki seinna vænna að útbúa jóladagatöl fyrir allar bekkjardeildir skólans.  Í ár er jóladagatal 4. bekkjar kirkja með ljómandi fallegum gluggum sem skreyttir eru af mikilli list.  Hvert barn fékk það verkefni að skreyta einn glugga og skrifa síðan eitt erindi í uppáhalds jólalaginu sínu inn í gluggann.  Börnin drógu um dagsegningar og þegar sá dagur rennur upp verður uppáhalds jólalagið þeirra sungið.  

6. bekkingar við gluggaskreytingar

6. bekkingar við gluggaskreytingarnar (mynd: bb.is)
6. bekkingar við gluggaskreytingarnar (mynd: bb.is)

Myndmenntahópur 6. bekkjar fékk það skemmtilega verkefni í vikunni að skreyta glugga verslunarinnar Eymundsson. Pétur Guðmundsson, myndmenntakennari, aðstoðaði krakkana og eru gluggarnir svo sannarlega orðnir jólalegir og fallegir.

Dagur íslenskrar tónlistar

Dagur íslenskrar tónlistar er laugardaginn 1. desember næstkomandi og líkt og í fyrra verður mikið um dýrðir af því tilefni. Verkefnið Syngjum saman sem hleypt var af stokkunum í fyrra verður nú endurtekið þar sem landsmenn allir geta kveikt á útvarpinu og sungið með þremur skemmtilegum lögum. Þar sem 1. desember lendir á laugardegi í ár verður hann haldinn hátíðlegur föstudaginn 30. nóvember, svo að sem flestir geti tekið þátt - þar með taldir skólar og tónmenntaskólar sem voru hvað litríkastir í fyrra en þá vakti verkefnið mikla lukku um land allt og voru viðbrögð framar vonum. 

Nú hafa lögin þrjú verið valin til leiks og eru þau sem hér segir:

Jólakötturinn eftir Ingibjörgu Þorbergs, Spáðu í mig eftir Megas og Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns við ljóð Gríms Thomsen. Lögin þrjú verða spiluð á Rás 2 kl. 11:15 á föstudaginn og munu nemendur og starfsfólk G.Í. að sjálfsögðu syngja með.



Jólaföndur

Foreldrafélag G.Í. stendur fyrir jólaföndurdegi fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra laugardaginn 1. desember í sal skólans, frá kl. 11:00 - 13:00. Mikið úrval af tréföndri verður til sölu og einnig verður hægt að búa til jólakort. Allt tréföndur kostar 500 kr. stk. og jólakortin 100 kr. stk.

Einungis verður hægt að borga með peningum. Málningin fylgir með tréföndrinu, en fólk er beðið um að hafa með sér tússliti, tréliti, pensla, skæri, límstift og lím.

Eldvarnavika

1 af 3

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna efnir til eldvarnaviku við upphaf jólamánaðarins sem að þessu sinni er vikan 27. nóvember - 3. desember. Slökkviliðsmenn munu heimsækja nær alla grunnskóla landsins hver á sínu starfssvæði og eru lögð fyrir nemendur sérstakt verkefni ásamt eldvarnagetraun og rætt um eldvarnir og neyðarútganga úr skólastofu æfð. Í landinu er u.þ.b. 160 grunnskólar, með samtals tæplega 5 þúsund grunnskólabörnum í þriðju bekkjar deildum þ.e. 8 ára börn.

Í gær komu nokkrir slökkviliðsmenn í 3. bekk G.Í. og fóru vel yfir brunavarnir með krökkunum.

Jafnhliða heimsóknum í skólana er afhent sérstakt verkefni með eldvarnagetraun í tilefni af eldvarnavikunni. Dregið verður úr innsendum lausnum í janúar og verðlaun veitt. Verðlaunaafhending fer fram í slökkvistöðvum víðs vegar um landið.

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin var sett með formlegum hætti á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember s.l. og taka allir 7. bekkingar þátt í henni. Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði.  Ennfremur að allir nemendur þjálfist í að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

 

Kjörorð verkefnisins eru þrjú:

  • Vöndum flutning á framburð íslensks máls,
  • Lærum að njóta þess að flytja móðurmál okkar, sjálfum okkur og öðrum til ánægju.
  • Berum viriðingu fyrir móðurmálinu, sjálfum okkur og öðrum til ánægju.

 

Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta.  Nú er ræktunarhlutinn hafinn og eru nemendur byrjaðir að æfa sig fyrir keppnishlutann, sem verður í febrúar - mars. 

 

Ávaxtarannsókn

Fjórði bekkur hefur verið að fjalla um plöntur, forðanæringu og aldin í náttúrufræðinni. Krakkarnir hafa skoðað  hvernig plöntur búa sig undir veturinn og  undirbúa það að fjölga sér.  Í þessari viku rannsökuðu þeir margvísleg aldin og rætur og kom  Helga Aðalsteinsdóttir, kennari, með marga mismunandi ávexti og grænmeti.  Í sumum voru fræ t.d. í  melónu og appelsínu en svo voru líka rófa og kartafla sem höfðu engin fræ, því þær eru forðanæring plöntunnar fyrir næsta sumar.  Krakkarnir skoðuðu lögun og stærð, skáru aldinin síðan í sundur, rannsökuðu þau  og teiknuðu að lokum í vinnubækurnar sínar.

Niðurstaðan úr rannsóknavinnu krakkanna var að  flestir ávextir hafa hýði, aldinkjöt og fræ.  Sumir hafa bara eitt fræ líkt og plóma á meðan aðrir eru með mjög mörg fræ líkt og melónan. 

Leiksýning

Í dag bauð Kómedíuleikhúsið yngstu nemendum skólans á leiksýninguna Bjálfansbarnið í leikstjórn Elfars Loga Hannessonar.  Þar kynntust krakkarnir vestfirsku jólasveinunum sem hafa ekki sést í hundrað ár.  Nöfnin þeirra eru hvert öðru skrýtnara en gaman var að kynnast þessum furðulegu körlum og skemmtu allir sér vel á sýningunni.