VALMYND ×

Fréttir

Ferðalagið frá Reykjum

Rútan með ferðalangana frá Reykjum bilaði á milli Búðardals og Hólmavíkur.  Litlar rútur eru komnar á staðinn og verið er að ferja nemendur og farangur á milli bíla. Það fer vel um alla en þetta tefur óneitanlega ferðina.  Gert er ráð fyrir heimkomu um eða eftir kvöldmat.  Staðfestur komutími mun birtist um leið og hægt er.

Haustveður í fjallgöngum dagsins

6. bekkur fór á Sandfell og naut náttúrunnar
6. bekkur fór á Sandfell og naut náttúrunnar

Það var heldur kuldalegur fjörðurinn í morgun þegar margir árgangar þustu upp um fjöll og firnindi. En við erum nú ýmsu vön og látum nokkrar hitagráður til eða frá ekki slá okkur út af laginu. Fjallgöngur dagsins gengu vel þrátt fyrir allt og má eflaust sjá myndir inni á heimasíðum bekkjanna.

Líf og fjör á Reykjum

Nú eru tvær nætur að baki og tvær nætur eftir hjá 7. bekk í Skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði. Hópurinn lætur vel af sér og er allt í lukkunnar velstandi hjá þeim. Kennararnir eru duglegir að setja inn fréttir og myndir inn á heimasíðu bekkjarins og hvetjum við alla til að fylgjast með þar.

Fjallgöngur

Þessa vikuna er útivistin í hávegum höfð, þar sem flestir árgangar fara í sínar árlegu fjallgöngur. Á morgun fer 1. bekkur upp í Stórurð, 3. bekkur gengur upp á Hnífa á milli Dagverðardals og Tungudals, 4. bekkur upp í Naustahvilft, 5. bekkur gengur upp með Buná, 6. bekkur fer á Sandfell og 9. bekkur gengur frá Seljalandsdal í gegnum Þjófaskörðin og niður í Hnífsdal. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðum bekkjanna.

Við vonum að veðrið leiki við fjallgöngufólkið okkar á morgun og má vænta þess að margir komi berjabláir heim að loknum skóladegi.

Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði

Mánudaginn 27. ágúst heldur 7. bekkur af stað í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Mæting er við Alþýðuhúsið kl. 7:45. Allar nánari upplýsingar er að finna inni á heimasíðu árgangsins.

Skólastarf hafið

Í morgun lifnaði heldur betur yfir skólanum þegar tæplega 400 nemendur mættu til skólasetningar fullir eftirvæntingar.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá á morgun og viljum við minna á að leikfimin verður kennd úti í góða veðrinu til 1. október og mötuneytið opnar eftir helgi. Matseðlar fyrir fyrstu 10 vikurnar eru komnir inn á síðu mötuneytisins hér vinstra megin.

Skólasetning

Skólsetning í Grunnskólanum á Ísafirði verður  22. ágúst, sem hér segir:

kl.  9:00     8. 9.og 10.bekkur

kl. 10:00    5. 6. og 7. bekkur

kl. 11:00    2. 3. og 4. bekkur

 

1. bekkur verður boðaður í viðtöl til umsjónarkennara með foreldrum.

Sumarleyfi

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum sínum, fjölskyldum þeirra og velunnurum öllum gleðilegs sumars með kærri þökk fyrir veturinn.

Innkaupalistar næsta skólaárs

Nú eru innkaupalistar fyrir skólaárið 2012-2013 yfirfarnir og komnir inn á síðuna hér vinstra megin.

Bókagjöf

Á vordögum var 1. bekk boðið í heimsókn til Íslandssögu og Klofnings á Suðureyri til að kynna starfsemi fyrirtækjanna.  Þessi heimsókn er orðin árlegur viðburður og hefur ætíð gengið vel í alla staði. 

Mjög höfðinglega var staðið að heimsókninni þar sem fyrirtækin buðu upp á rútu til að komast á staðinn ásamt því að leysa nemendur og starfsfólk út með veglegum gjöfum, fisk í soðið og harðfisk.  En ekki er örlætið þar með upptalið því að á meðan á heimsókninni stóð var skólanum færð bók að gjöf. Þetta var bókin Skipstjórnarmenn og vill 1. bekkur koma á framfæri kæru þakklæti fyrir frábæra ferð og gjafir.