VALMYND ×

Fréttir

Ný fréttabréf

Nú hefur nýtt fréttabréf skólans litið dagsins ljós. Allir nemendur fengu það sent í gær í pósti, en einnig er það að finna hér á síðunni undir hnappnum Fréttabréf.

Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði hefur einnig gefið út fréttabréf haustsins og er það að finna á heimasíðu félagsins.

Aðalfundur Foreldrafélags G.Í.

Aðalfundur Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði verður haldinn á morgun, 2. október kl. 20:00, í sal skólans.  Hefðbundin aðalfundarstörf.  Núverandi stjórn gefur öll kost á sér áfram. 

Að loknum aðalfundi mun Margrét Pála Ólafsdóttir, upphafskona Hjallastefnunnar á Íslandi, halda erindi um börn og skóla. Hún var reglulegur gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í fyrra vetur og fjallaði þar um börn og skóla í víðu samhengi og mun fyrirlesturinn vera í þeim anda. 
Foreldrar og forráðamenn grunnskólabarna á Ísafirði eru hvattir til að koma og eiga saman góða kvöldstund.

Sjálfsstyrkingarnámskeið

Í næstu viku býður Vá Vest hópurinn 8.bekk á sjálfsstyrkingarnámskeið. Árgangnum verður þá skipt upp í fjóra hópa og mun hver hópur vera einn dag frá kl. 9:40-14:00 á námskeiðinu. Það er Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur hjá Vímulausri æsku/Foreldrahúsi sem annast námskeiðið.

Innileikfimi

Nú um mánaðamótin tekur innileikfimin við af útileikfiminni. Þá þurfa nemendur að hafa íþróttaföt og handklæði meðferðis á íþróttadögum. 

Skólatöskudagar

Þessa viku stendur Iðjuþjálfafélag Íslands fyrir skólatöskudögum í samstarfi við landlækni. Skólatöskudagar eru árlegur viðburður þar sem áhersla er lögð á fræðslu um notkun skólatöskunnar. Einnig vigta iðjuþjálfar barn og skólatösku til að kanna hvort þyngd töskunnar sé hæfileg fyrir barnið. 

Grunnskólinn á Ísafirði fær iðjuþjálfana Hörpu Guðmundsdóttur og Signýju Kristinsdóttur í heimsókn í 1., 3. og 6. bekk og munu þær fræða nemendur um þessi mál og hjálpa til við stillingar á skólatöskunum.

Evrópski tungumáladagurinn

Evrópski tungumáladagurinn er 26. september ár hvert. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 2001 í samstarfi við Evrópuráðið og Evrópusambandið og er hann haldinn hátíðlegur í fjölmörgum ríkjum í Evrópu. Tungumál, tækni og tækifæri er yfirskrift dagsins að þessu sinni.

Að venju mun Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur standa fyrir viðburðum í tilefni dagsins og er ætlunin að beina sjónum að því hvernig nýta megi samfélagsmiðla og upplýsingatækni í þágu tungumálanáms. Ráðgert er að hleypa af stokkunum átaki til að upplýsa ungt fólk um gildi tungumálakunnáttu og með þeim hætti hvetja það til tungumálanáms. Einnig verður efnt til dagskrár í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, Máltæknisetur og samtök tungumálakennara um upplýsingatækni og tungumálanám, m.a. um rafræn hjálpargögn. Stofnunin efnir til leiks á Facebook-síðu sinni þar sem almenningur getur unnið bækur og klippikort á kvikmyndahátíðina RIFF.

Góð frammistaða í fótboltanum

Aldís Huld Höskuldsdóttir og Kolfinna Brá Ewa Einarsdóttir, nemendur í 9. bekk, hafa verið valdar í æfingahóp leikmanna sem fæddir eru árið 1998. Hópurinn kom saman á æfingar helgina 15.-16. september og var þetta liður í undirbúningi fyrir úrslitakeppni EM U17 kvenna sem fram fer á Íslandi í júní 2015.
Aldís Huld og Kolfinna Brá spiluðu báðar með 4.flokki BÍ/Bolungarvík í sumar og stóðu sig vel að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvík.

Hlaupið í góða veðrinu

1 af 3

Um tíuleytið í morgun hlupu vel á fjórða hundrað krakkar eftir Seljalandsveginum í Norræna skólahlaupinu. Veðrið var eins og best var á kosið, milt og stillt og hið ákjósanlegasta til útivistar.

Að hlaupi loknu tekur svo hefðbundið nám við, en unglingastigið fær að fara heim í millitíðinni í sturtu, enda hlaupa þeir krakkar alla leið inn að golfskála og til baka. Það er vonandi að allir verði endurnærðir eftir útiveruna og tilbúnir í önnur verkefni dagsins.

Norræna skólahlaupið

Þriðjudaginn 25. september verður Norræna skólahlaupið hjá okkur og mæta bekkirnir á eftirfarandi tímum við Seljalandsveg:

9:50   1. - 4. bekkur hleypur að Engi

10:00 5. - 7. bekkur hleypur að Seljalandi

10:10 8. - 10. bekkur hleypur að Seljalandi/golfskála og verða tímamörk eins og í fyrra til að geta hlaupið að golfskálanum.

Foreldranámskeið

Foreldrum nemenda í 1. bekk býðst nú að koma á fjögurra skipta fræðslu- og samstarfsfundi hér í skólanum.  Á fundunum er fjallað um ýmsa hagnýta þætti er varða skólagöngu barna og svo hugmyndafræði Uppbyggingar sjálfsaga – uppeldis til ábyrgðar.  Við gerum jafnframt ráð fyrir að vinna með gildi skólans og skýru mörkin. Til dæmis að skilgreina hugtökin virðingu, samhug og menntun og vinna að samkomulagi um hvernig við framfylgjum skýru mörkunum. Við lítum á þetta sem tækifæri til að byggja upp þéttan foreldrahóp sem getur stutt enn betur við börnin sín á þessari 10 ára vegferð sem framundan er hjá þeim í skólanum.  En eins og allir vita er stuðningur foreldra eitt af lykilatriðunum fyrir farsælli skólagöngu. Fyrsta skiptið var í gær og framhaldið verður næstu þrjá miðvikudaga.