VALMYND ×

Fréttir

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra verða afhent í sautjánda sinn í Þjóðmenningarhúsinu miðvikudaginn 16. maí næstkomandi kl.14:00. Síðasti skiladagur tilnefningar er 1. maí 2012.


Samtökin óska eftir tilnefningum frá einstaklingum, félögum eða hópum sem vilja vekja athygli á vel unnum verkefnum, sem stuðla að eflingu skólastarfs og jákvæðu samstarfi heimila og skóla.
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla beina sjónum að því fjölbreytta starfi sem fram fer í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins. Auk þess eiga verðlaunin að efla jákvætt samstarf heimila, skóla og nærsamfélagsins.
Stjórn og starfsfólk Heimilis og skóla tilnefna ekki verkefni til Foreldraverðlaunanna heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum sem berast á heimasíðu samtakanna og byggjast niðurstöður dómnefndar á gerinargerðum og rökstuðningi þeirra sem tilnefna.
Allar nánari upplýsingar ásamt tilnefningum er að finna hér á heimasíðu samtakanna.



Lestur er bestur

Upplýsing í samvinnu við bókasöfn í landinu gengst fyrir Bókasafnsdegi þriðjudaginn 17. apríl. Markmið dagsins er annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu og hins vegar að vera dagur starfsmanna safnanna. Bókasafnsdagurinn beinir augum þjóðfélagsins að mikilvægi bókasafna í samfélagi í þeim tilgangi að fá jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum.  

Í tilefni dagsins ætlar Foreldrafélag G.Í. að ýta úr vör hvatningarátaki til að styrkja bókakost bókasafns skólans og hefur fengið Pennann-Eymundsson til liðs við sig. 

Félagið leitar til foreldra um að láta sitt af hendi rakna með því að festa kaup á nýrri bók eða gefa safninu notaða bók. Átakið hefst í dag, mánudag, í byrjun hinnar árlegu viku bókarinnar. Starfsfólk Pennans-Eymundssonar ætlar að halda utan um þær bækur sem safnast í versluninni og einnig vera í samstarfi við starfsfólk bókasafnsins með að skipta bókum ef margar af þeim sömu berast. 

Grunnskólameistarar í glímu

Þátttakendur G.Í. ásamt verðlaunum
Þátttakendur G.Í. ásamt verðlaunum

Um helgina var haldið grunnskólamót Glímusambands Íslands á Torfnesi. Keppendur komu frá 12 grunnskólum og hlaut GÍ flest verðlaun og hlaut skólinn þar með bikar til varðveislu í eitt ár. Þátttakendur komu úr 5. - 10. bekk og var hverjum árgangi skipt í tvo þyngdarflokka þar sem því var komið við. Allar nánari upplýsingar um mótið má sjá hér á heimasíðu Glímusambands Íslands.

Þeir sem unnu til verðlauna fyrir skólann voru eftirtaldir:

 


Meira

Sjónvarpað frá Skólahreysti

Á morgun, þriðjudaginn 17. apríl mun Ríkissjónvarpið sýna upptöku frá riðlakeppni Vesfirðinga og Vestlendinga í Skólahreysti. Keppnin fór fram 8. mars síðastliðinn í Reykjavík og er Grunnskólinn á Ísafirði á meðal þátttakenda. Nú er um að gera að setjast við skjáinn og fylgjast með frammistöðu krakkanna okkar.

Heimsókn á slökkvistöðina

3. bekkur í heimsókn á slökkvistöðinni. Mynd: Hermann Hermannsson
3. bekkur í heimsókn á slökkvistöðinni. Mynd: Hermann Hermannsson

Fyrr í vetur var eldvarnarvika hjá 3.HA en þá komu slökkviliðsmenn í heimsókn og fræddu nemendur um eldvarnir og hvernig bregðast skal við eldsvoða.  Við þetta tækifæri var bekknum boðið í heimsókn á slökkvistöðina og nýtti bekkurinn sér það heimboð í fyrradag. Krakkarnir fengu höfðinglegar móttökur, skoðuðu slökkvistöðina hátt og lágt, fóru upp í körfunni á körfubílnum, skoðuðu sjúkrabíl og brunabíla, sáu klippurnar sem notaðar eru til að klippa sundur bíla eftir árekstra, reykköfunartæki og ýmislegt fleira spennandi.

Krakkarnir skemmtu sér mjög vel og voru alsælir í lok dagsins og vilja eflaust margir verða slökkviliðsmenn í framtíðinni.

Grunnskólamót Íslands í glímu

Laugardaginn 14. apríl verður haldið Grunnskólamót Íslands í glímu í íþróttahúsinu á Torfnesi fyrir nemendur í 5. - 10. bekk.  Rúmlega 80 nemendur hafa nú þegar skráð sig og eru um 30 þeirra frá Grunnskólanum á Ísafirði. Mótið hefst kl. 10:00 og áætlað að það standi til kl. 13:00. Við hvetjum alla til að mæta og standa við bakið á okkar fólki og bendum á að 10. bekkur verður með veitingasölu á staðnum í fjáröflunarskyni fyrir vorferðalagið.

Allar nánari upplýsingar má finna hér á heimasíðu Glímusambands Íslands.

Duglegir unglingar í íþróttum

Það hefur verið að nóg að gera í íþróttum hjá unglingunum okkar undanfarið. Unglingameistaramót Íslands á skíðum var haldið hér fyrir páska og lönduðu Ísfirðingar nokkrum meistaratitlum. Jóhanna María Steinþórsdóttir sigraði í  5 km skíðagöngu 13-14 ára stúlkna og í flokki 15-16 ára sigraði Elena Dís Víðisdóttir. Í 5 km göngu drengja 13-14 ára sigraði Guðmundur Sigurvin Bjarnason og einnig með hefðbundinni aðferð. Hákon Jónsson sigraði bæði í 7,5 km göngu 15-16 ára og með hefðbundinni aðferð.  Í tvíkeppni á gönguskíðum voru úrslitin einnig eftir bókinni, en þar sigruðu Hákon, Elena Dís, Guðmundur og Jóhanna María sína flokka. Í 4 x 1,2 km boðgöngu sigraði sveit 6 með þá Hákon Jónsson og Dag Benediktsson innanborðs og sveit 2, en í henni voru Elena Dís Víðisdóttir og Arna Kristbjörnsdóttir. 

 

Á skíðamóti Íslands sem haldið var á Akureyri varð Elena Dís svo í 3. sæti í sprettgöngu og í 2. sæti í göngu með frjálsri aðferð. Elena gerði sér svo lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í hefðbundinni göngu kvenna.

Í sprettgöngu Craftsport sem haldin var við upphaf skíðavikunnar, sigraði Elena Dís og varð sprettdrottning.

 

Elín Ólöf Sveinsdóttir, leikmaður 3. flokks BÍ var valin á úrtaksæfingar U-16 landsliðsins helgina 24. og 25. mars í Kórnum í Kópavogi og í Egilshöll. Hún mun svo vera í eldlínunni í sumar með nýstofnuðum meistaraflokki kvenna, sem spilar í 1.deild.
 

Svokölluð ,,Big jump" keppni var haldin á Seljalandsdal á skírdag, en þar var keppt í stökkum á snjóbrettum. Elvar Ari Stefánsson sigraði í þeirri keppni, þannig að greinilegt er að Ísafjörður á svo sannarlega nóg af ungum og hæfileikaríkum unglingum.


Kátir dagar

Það hefur verið líf og fjör í skólanum síðustu daga. Kátum dögum lauk nú um hádegið, þegar allir nemendur og starfsfólk söfnuðust saman á Silfurtorgi ásamt mörgum bæjarbúum og sungu og dönsuðu lagið La Dolce Vita við undirleik hljómsveitar úr 10. bekk. Að því loknu marseruðu allir yfir á skólalóð og gæddu sér á grilluðum pylsum áður en þeir héldu í páskaleyfi.

Fjölmiðlahópurinn hefur verið á fullu í morgun að taka myndir og myndbönd út um allan skóla. Myndirnar eru nú allar komnar hér inn á myndasafn síðunnar og myndböndin er hægt að nálgast hér fyrir neðan, auk þess sem kominn er nýr tengill hér vinstra megin undir heitinu myndbönd.


Starfsfólk skólans þakkar nemendum fyrir frábæra daga og óskar öllum gleðilegra páska.
Skólastarf hefst að páskaleyfi loknu þriðjudaginn 10. apríl.

Dansað á Silfurtorgi

Myndband Auðar og Jóhönnu

Myndband Friðriks og Áskels

Myndband Lovísu og Arneyjar

Myndband Tryggva Leós og Kristófers Levís

Myndband Finneyjar og Bjarkar

 

Þemadagar - föstudagur

Fréttamennirnir Auður Líf og Jóhanna
Fréttamennirnir Auður Líf og Jóhanna

Í dag vorum við í fjölmiðlahópnum, við fórum á allar stöðvar að taka myndir,myndbönd og viðtöl.Við fengum  tvær lummur,bakað brauð yfir eldi og lærðum dans við lag eftir Pál Óskar og nú erum við að fara út á torg að dansa og syngja  svo endar allt með grilli og látum !

Auður Líf og Jóhanna

Þemadagar - föstudagur

Fréttamennirnir Lovísa Ósk og Arney Urður
Fréttamennirnir Lovísa Ósk og Arney Urður

Í dag vorum við í fjölmiðlahóp og fórum og tókum upp myndband og viðtal við nokkra hópa. Við heimsóttum krakkana sem voru í ljóðastofunni svo fórum niður og töluðum við föndurhópinn og svo var leiðinni haldið á Austurveg að horfa á krakkana á leikjastöðinni gera alsskonar þrautir með bolta og hafa gaman.

Lovisa & Arney