Dagur íslenskrar tónlistar
Dagur íslenskrar tónlistar er laugardaginn 1. desember næstkomandi og líkt og í fyrra verður mikið um dýrðir af því tilefni. Verkefnið Syngjum saman sem hleypt var af stokkunum í fyrra verður nú endurtekið þar sem landsmenn allir geta kveikt á útvarpinu og sungið með þremur skemmtilegum lögum. Þar sem 1. desember lendir á laugardegi í ár verður hann haldinn hátíðlegur föstudaginn 30. nóvember, svo að sem flestir geti tekið þátt - þar með taldir skólar og tónmenntaskólar sem voru hvað litríkastir í fyrra en þá vakti verkefnið mikla lukku um land allt og voru viðbrögð framar vonum.
Nú hafa lögin þrjú verið valin til leiks og eru þau sem hér segir:
Jólakötturinn eftir Ingibjörgu Þorbergs, Spáðu í mig eftir Megas og Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns við ljóð Gríms Thomsen. Lögin þrjú verða spiluð á Rás 2 kl. 11:15 á föstudaginn og munu nemendur og starfsfólk G.Í. að sjálfsögðu syngja með.