VALMYND ×

Fréttir

Sundhöllin opnar

Sundkennslan hefst þriðjudaginn 11. september eftir lagfæringar á Sundhöllinni. Íþróttirnar verða að öðru leyti kenndar utan dyra til 1. október og því nauðsynlegt að allir séu vel klæddir til útiveru þá daga.

Alþjóðadagur læsis

Alþjóðadagur læsis er laugardaginn 8. september, en Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað þann dag málefnum læsis allt frá árinu 1965. Í ár taka Íslendingar þátt í þessum degi í fjórða skiptið.

Fjölskyldur eru hvattar til að skipuleggja 30 mínútna fjölskyldulestrarstund og njóta þess að lesa saman. Einnig munu kennarar G.Í. skipuleggja lestrarstundir í skólanum eftir helgina. 

Starfsdagur

Föstudaginn 7. september er starfsdagur samkvæmt skóladagatali og engin kennsla.

Öflug ungmenni styrkja Sigurvon

Krabbameinsfélagið Sigurvon fékk á dögunum rausnarlega gjöf frá nemendum sem á síðasta skólaári voru í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði en stíga nú sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Afhentu þau Sigurvon 125 þúsund krónur og vilja með því leggja sitt af mörkum til að styrkja starfsemi félagsins. Peningarnir eru afgangur af ferðasjóði sem krakkarnir söfnuðu síðasta vetur til að fjármagna vorferð 10. bekkjar sem farin var í lok maí sl. í Skagafjörð. Voru krakkarnir svo öflugir í fjáröfluninni að peningarnir dugðu fyrir öllum útlögðum kostnaði við ferðina og vel það. Um 125 þúsund krónur stóðu eftir þegar allir reikningar höfðu verið borgaðir og urðu krakkarnir sammála um að Sigurvon fengi þá peninga. Vilja þau koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem styrktu þau í fjáröfluninni síðasta vetur, m.a. með því að mæta á viðburði sem haldnir voru í nafni 10. bekkjar og með kaupum á rækjum, kökum, dagatölum og ýmsu öðru.

Skólanum færðir skjávarpar að gjöf

Thelma Hjaltadóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir við afhendingu skjávarpanna. (mynd. www.bb.is)
Thelma Hjaltadóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir við afhendingu skjávarpanna. (mynd. www.bb.is)

Thelma Hjaltadóttir formaður Foreldrafélags G.Í. færði skólanum í dag tvo nýja skjávarpa að gjöf. Var það ákveðið eftir að félagið frétti af brýnni þörf skólans fyrir slíkan tækjakost. Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, tók við þessari veglegu gjöf og segir að skjávarparnir komi svo sannarlega að góðum notum.

Breytingar á útivistartíma

Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum 1. september. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 20.00. 13 til 16 ára unglingar mega vera úti til klukkan 22.00. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.

Í fréttatilkynningu segir að útivistarreglurnar séu samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. (mbl.is)

Það er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn hjálpist að við að halda þessar reglur.

Ferðalagið frá Reykjum

Ferðalangarnir eru lagðir af stað frá Hólmavík, þar sem þeir fengu hressingu. Það má gera ráð fyrir að þeir komi á Ísafjörð um áttaleytið í kvöld.

Ferðalagið frá Reykjum

Rútan með ferðalangana frá Reykjum bilaði á milli Búðardals og Hólmavíkur.  Litlar rútur eru komnar á staðinn og verið er að ferja nemendur og farangur á milli bíla. Það fer vel um alla en þetta tefur óneitanlega ferðina.  Gert er ráð fyrir heimkomu um eða eftir kvöldmat.  Staðfestur komutími mun birtist um leið og hægt er.

Haustveður í fjallgöngum dagsins

6. bekkur fór á Sandfell og naut náttúrunnar
6. bekkur fór á Sandfell og naut náttúrunnar

Það var heldur kuldalegur fjörðurinn í morgun þegar margir árgangar þustu upp um fjöll og firnindi. En við erum nú ýmsu vön og látum nokkrar hitagráður til eða frá ekki slá okkur út af laginu. Fjallgöngur dagsins gengu vel þrátt fyrir allt og má eflaust sjá myndir inni á heimasíðum bekkjanna.

Líf og fjör á Reykjum

Nú eru tvær nætur að baki og tvær nætur eftir hjá 7. bekk í Skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði. Hópurinn lætur vel af sér og er allt í lukkunnar velstandi hjá þeim. Kennararnir eru duglegir að setja inn fréttir og myndir inn á heimasíðu bekkjarins og hvetjum við alla til að fylgjast með þar.