VALMYND ×

Fréttir

Góður árangur ísfirskra skíðakrakka

Ísfirskir skíðakrakkar gerðu góða ferð á Andrésar andar leikana sem fram fóru í Hlíðarfjalli við Akureyri um helgina. Strax að kvöldi fyrsta keppnisdags voru komin í hús fimm gull, fimm silfur og þrjú brons. Daginn eftir sigraði a-sveit SFÍ í boðgöngu 12-14 ára en b-sveit félagsins hafnaði í þriðja sæti. Sömuleiðis sigraði a-sveit SFÍ í boðgöngu 9-11 ára.

Rúmlega fimmtíu keppendur frá Ísafirði tóku þátt í mótinu, bæði í alpagreinum og göngu. Keppt var í svigi, stórsvigi, hefðbundinni göngu og á brettum í fyrsta sinn.

Úrslit mótsins í heild er að finna á vef Skíðafélags Akureyrar. (Frétt af bb.is)

Löng helgi

Nú fer í hönd löng helgi, þar sem sumardagurinn fyrsti er á morgun og vetrarfrí á föstudaginn. Við þökkum nemendum, fjölskyldum þeirra og velunnurum öllum fyrir veturinn.

Tónleikar í salnum

Klysja á sviði í sal skólans
Klysja á sviði í sal skólans

Í morgun hélt hljómsveitin Klysja tvenna stutta tónleika í sal skólans. Hljómsveitin spilaði nokkur lög til kynningar á væntanlegum diski sem hún mun gefa út í ágúst. Hljómsveitina skipa tveir nemendur úr G.Í. þeir Hákon Ari Halldórsson og Þormóður Eiríksson og fjórir menntskælingar þeir Arnar Logi Hákonarson, Benjamín Bent Árnason, Mateus Samson og Ísak Emanúel Róbertsson.

Þess má geta að hljómsveitin tók þátt í Músíktilraunum í síðasta mánuði og tróð einnig upp á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.

Eva Margrét í unglingalandsliðið

Eva Margrét Kristjánsdóttir (mynd: http://kfi.is)
Eva Margrét Kristjánsdóttir (mynd: http://kfi.is)

Eva Margrét Kristjánsdóttir, nemandi í 9. bekk G.Í. hefur verið valin í U15 ára landslið Íslands í körfubolta sem tekur þátt í alþjóðlegu móti í byrjun júní. Ísland hefur tekið þátt í mótinu undanfarin ár með góðum árangri, en U15 er fyrsta landsliðið sem fer á mót erlendis hjá KKÍ.
Eva Margrét hefur æft gríðarlega vel og hefur það svo sannarlega skilað sér í vetur. Eva Margrét mun ásamt félögum sínum í 10. flokki stúlkna taka þátt í úrslitakeppni Íslandmóts KKÍ sem fer fram 27. - 29. apríl næstkomandi í Reykjavík.
Frá þessu er greint á heimasíðu Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar.

Útinám í veðurblíðunni

8. bekkur í náttúrufræðitíma
8. bekkur í náttúrufræðitíma
1 af 8

Í gær var einmuna veðurblíða sem margir árgangar nýttu sér til útináms. Sjá mátti hópa í ýmsum námsgreinum njóta góða veðursins eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skellur Íslandsmeistari í 5. flokki

Íslandsmeistararnir Auður Líf, Bjarni Pétur, Ívar Tumi og Birkir.

(Mynd: Skellur)
Íslandsmeistararnir Auður Líf, Bjarni Pétur, Ívar Tumi og Birkir. (Mynd: Skellur)
1 af 2

Blakfélagið Skellur gerði góða ferð á seinni hluta Íslandsmóts yngri flokka í blaki sem haldið var í Kópavogi 14.-15. apríl. Félagið mætti með 6 lið til leiks og hafa aldrei áður verið svo mörg lið á vegum félagsins á Íslandsmóti.

Skellur 1 í 5. flokki varði Íslandsmeistaratitil sinn með því að vinna alla leiki á þessu móti 2-0. Í þessum flokki kepptu þau Birkir Eydal, Bjarni Pétur Jónasson, Ívar Tumi Tumason og Auður Líf Benediktsdóttir, nemendur í 6. bekk G.Í.

Skellur C varð í 2. sæti í deild C-liða og 4. flokks lið Skells krækti sér í 3. sæti í deild A-liða pilta.

Allar nánari upplýsingar um mótið má sjá hér á heimasíðu blakfélagsins.

Við óskum öllum þessum keppendum innilega til hamingju með árangurinn.

 

 

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra verða afhent í sautjánda sinn í Þjóðmenningarhúsinu miðvikudaginn 16. maí næstkomandi kl.14:00. Síðasti skiladagur tilnefningar er 1. maí 2012.


Samtökin óska eftir tilnefningum frá einstaklingum, félögum eða hópum sem vilja vekja athygli á vel unnum verkefnum, sem stuðla að eflingu skólastarfs og jákvæðu samstarfi heimila og skóla.
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla beina sjónum að því fjölbreytta starfi sem fram fer í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins. Auk þess eiga verðlaunin að efla jákvætt samstarf heimila, skóla og nærsamfélagsins.
Stjórn og starfsfólk Heimilis og skóla tilnefna ekki verkefni til Foreldraverðlaunanna heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum sem berast á heimasíðu samtakanna og byggjast niðurstöður dómnefndar á gerinargerðum og rökstuðningi þeirra sem tilnefna.
Allar nánari upplýsingar ásamt tilnefningum er að finna hér á heimasíðu samtakanna.



Lestur er bestur

Upplýsing í samvinnu við bókasöfn í landinu gengst fyrir Bókasafnsdegi þriðjudaginn 17. apríl. Markmið dagsins er annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu og hins vegar að vera dagur starfsmanna safnanna. Bókasafnsdagurinn beinir augum þjóðfélagsins að mikilvægi bókasafna í samfélagi í þeim tilgangi að fá jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum.  

Í tilefni dagsins ætlar Foreldrafélag G.Í. að ýta úr vör hvatningarátaki til að styrkja bókakost bókasafns skólans og hefur fengið Pennann-Eymundsson til liðs við sig. 

Félagið leitar til foreldra um að láta sitt af hendi rakna með því að festa kaup á nýrri bók eða gefa safninu notaða bók. Átakið hefst í dag, mánudag, í byrjun hinnar árlegu viku bókarinnar. Starfsfólk Pennans-Eymundssonar ætlar að halda utan um þær bækur sem safnast í versluninni og einnig vera í samstarfi við starfsfólk bókasafnsins með að skipta bókum ef margar af þeim sömu berast. 

Grunnskólameistarar í glímu

Þátttakendur G.Í. ásamt verðlaunum
Þátttakendur G.Í. ásamt verðlaunum

Um helgina var haldið grunnskólamót Glímusambands Íslands á Torfnesi. Keppendur komu frá 12 grunnskólum og hlaut GÍ flest verðlaun og hlaut skólinn þar með bikar til varðveislu í eitt ár. Þátttakendur komu úr 5. - 10. bekk og var hverjum árgangi skipt í tvo þyngdarflokka þar sem því var komið við. Allar nánari upplýsingar um mótið má sjá hér á heimasíðu Glímusambands Íslands.

Þeir sem unnu til verðlauna fyrir skólann voru eftirtaldir:

 


Meira