VALMYND ×

Fréttir

Mikið fjör á þemadegi

Linda Kristjánsdóttir, 8. bekk, skrifar:

 

Í dag og á morgun eru þemadagar hér í Grunnskólanum á Ísafirði. Skólanum er skipt í 28 hópa en 29 ef við í fjölmiðlahópnum erum tekin með. Það er mjög skemmtilegt að breyta svona til og gott að við þurfum ekki að vera sitjandi inni og læra alltaf. Það eru 14 stöðvar t.d söngstöð, diskó/brennó og leikir, hugleiðsla, súmba og margt fleira skemmtilegt.
Krakkarnir í fjölmiðlahópnum eru búnir að vera á fullu að taka myndir og viðtöl. Hóparnir eru líka á allskyns stöðum, t.d. í félagsmiðstöðinni, uppi á sundlaugarlofti og í blómagarðinun. Ég er til dæmis búin að vera að taka myndir af næstum því öllum hópum, en við krakkarnir í fjölmiðlahópnum höfum ekki verið í hópum sem eru að baka lummur og annað skemmtilegt, en við getum fengið að prófa og vera með og skoða það sem hinir eru að gera.
Við höfum sett inn mikið af myndum í dag hér á heimasíðuna og einnig munu nokkur myndbönd birtast þar í dag og á morgun.


Þemadagar 15. og 16. nóvember

Hanna Þórey, 6. bekk og Una Salvör, 5. bekk skrifa: 

 

Við erum í fjölmiðlahóp og búnar að flakka mikið og taka myndir. Á ýmsum stöðum eru leikir t.d. í blómagarðinum er ratleikur  og þrautir í gamla gaggó. Við kíktum á  lummubakstur, þar fengum við að gera lummur og það heppnaðist mjög vel hjá okkur. Svo er súmba  í dansstofunni og diskó-brennó í íþróttasalnum, þar er svaka stuð. 

 

Töluð enska og góðir gestir

1 af 4

Í haust var nýju valfagi hleypt af stokkunum hér í skólanum, sem er töluð enska. Nemendur á unglingastigi hafa þar fengið tækifæri til að auka færni sína í talaðri ensku, þar sem áherslan er á að nemendur hlusti og tali venjulegt talmál, t.d. með því að spila ensk borðspil og spjalla um allt milli himins og jarðar.

Föstudagana 2. og 9. nóvember fengum við góða gesti frá Háskólasetri Vestfjarða, erlenda nemendur úr haf- og strandsvæðastjórnunarnámi. Allir skemmtu sér vel og var mikið spjallað, auðvitað á ensku. Gestirnir koma til með að heimsækja okkur aftur og fá fleiri samnemendur sína með, því þau hafa mikinn áhuga á að komast í tengsl við samfélagið hér á Ísafirði.

Þemadagar

Á morgun og föstudaginn verða þemadagar í skólanum undir yfirskriftinni Saman í liði - allir á iði. Öllum nemendum skólans er þá skipt niður í 28 hópa þvert á árganga til að nemendur á ýmsum aldri kynnist betur. Hóparnir fara svo tveir og tveir saman á ýmsar skemmtilegar stöðvar og er áhersla lögð á góða hreyfingu.  Stöðvarnar sem eru í boði eru súmba, afmælisleikir og þrautir, ratleikur, minigolf, boðhlaup og pokahlaup, dansspil, diskó og brennó, hugleiðsla, söngur, lummubakstur, ljóðagerð, spil og fréttagerð.

Skóla lýkur kl. 13:05 báða þessa daga og verður mötuneytið á sínum stað í dagskránni.

Könnun á foreldradegi

Hér fyrir neðan er könnun sem við biðjum foreldra vinsamlegast um að svara á foreldradaginn.

 

Smellið hér

Foreldradagur

Miðvikudaginn 14. nóvember er foreldradagur. Þá mæta nemendur og foreldrar/forráðamenn í viðtöl til umsjónarkennara samkvæmt gefnum viðtalstímum sem sendir voru heim í dag. Þá verða sérgreinakennarar, sérkennarar og skólaráðgjafi einnig til viðtals.

Mikolaj Ólafur í úrslit EPTA

Mikolaj Ólafur Frach
Mikolaj Ólafur Frach
1 af 2

Mikolaj Ólafur Frach, nemandi í 7. bekk G.Í. hafnaði í 4.-5. sæti í EPTA píanókeppninni sem haldin var í Salnum í Kópavogi í liðinni viku. Mikolaj keppti ásamt 22 öðrum píanónemendum í 1. flokki, sem er flokkur 14 ára og yngri og var Hilmar Adam Jóhannsson, nemandi í 9. bekk einnig þar á meðal.

Fimm nemendur komust svo áfram í úrslit, sem haldin voru í gær og var Mikolaj einn þeirra og hafnaði í 4. - 5. sæti eins og áður segir. Það  er svo sannarlega frábær árangur í svo sterkri keppni sem EPTA er og óskum við honum innilega til hamingju með árangurinn. Hilmar Adam stóð sig einnig með stakri prýði og er það mikil og erfið vinna sem liggur að baki þátttökunni hjá þessum ungu og efnilegu píanóleikurum.

Allar nánari upplýsingar um keppnina og úrslitin má finna inni á heimasíðu EPTA.

Yfirlýsing gegn einelti

1 af 2

Í dag var skrifað undir yfirlýsingu til að vinna gegn einelti hvar sem það birtist. Öllum bæjarbúum var boðið að koma og skrifa undir með okkur í skólanum og þátttakan var mjög góð. Hingað komu foreldrar, ömmur og afar og fólk af hinum ýmsu vinnustöðum sem hefur engin sérstök tengsl við skólann.

Yfirlýsingin hangir nú uppi í nýja anddyrinu.

 

Forvarnir gegn einelti

Þessa vikuna eru allir bekkir að vinna verkefni sem snúast um forvarnir gegn einelti.  Misjafnt er eftir aldri og þroska hvað verið er að fást við.  

10. bekkur fjallar um mismunandi birtingarmyndir eineltis eftir aldri gerenda og þolenda. 

9. bekkur býr til glærusýningu um einelti fyrir yngri nemendur.

8. bekkur ætlar að setja fram skilgreiningu á einelti og birtingarmyndum þess.

7. bekkur býr til leikþætti og veggspjöld.

6. bekkur býr til veggspjöld gegn einelti á sem flestum tungumálum.

5. bekkur býr til myndir af stöðum þar sem nemendur telja líklegt að einelti fari fram á.

4. bekkur vinnur með eineltishringinn.

3. bekkur býr til fullyrðingar og spurningar um einelti og myndskreytir þær.

2. bekkur fær til sín glærusýningu frá 9. bekk.

1. bekkur gerir myndverk um tilfinningar.

Afrakstur þessarar vinnu  verður sýnilegur á göngum skólans næstu daga. Nemendur skólans hafa líka hengt upp skilgreiningar á einelti á fjölförnum stöðum í bænum í von um að vekja fleiri il umhugsunar um þetta samfélagsvandamál. Við viljum endilega bjóða  bæjarbúum að vera með okkur í þessari vinnu því að við vitum að einelti er ekki bara bundið við skólastofnanir.  Við bjóðum ykkur að koma í skólann í hádeginu fimmtudaginn 8. nóv. og skrifa undir yfirlýsingu um að þið ætlið að leggja ykkar af mörkum í vinnu gegn einelti. 

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Við undirrituð tökum ekki þátt í einelti og ætlum að leggja okkar af mörkum til að vinna gegn því.

Við bjóðum líka veggspjöld með þessari yfirlýsingu til sölu. Þau verða plöstuð og fallega myndskreytt. Þeim sem vilja kaupa veggspjöld til að hengja upp á sínum vinnustöðum er bent á að hafa samband á netfangið grisa@grisa.is. Kostnaðarverð fyrir veggspjald er 500 krónur en ef einhverjir vilja borga meira erum við að reyna að kaupa fleiri skjávarpa í skólann og hugsum okkur að nota ágóða af þessu (ef einhver verður) til þess.

Við hvetjum alla til að koma í anddyri nýja skólans eftir klukkan 11:30 á fimmtudaginn og skrifa undir yfirlýsinguna gegn einelti.

Nemendur keppa í EPTA

Hilmar Adam og Mikolaj Ólafur
Hilmar Adam og Mikolaj Ólafur

Í dag kepptu Mikolaj Ólafur Frach nemandi í 7. bekk og Hilmar Adam Jóhannsson í 9. bekk í EPTA píanókeppninni, sem fram fer í Salnum í Kópavogi. Þeir stunda báðir píanónám við Tónlistarskóla Ísafjarðar hjá Iwonu Frach og Beötu Joó. Strákarnir stóðu sig með mikilli prýði báðir tveir, en það kemur svo í ljós seinni partinn á morgun hvort þeir komast í úrslit í 1. flokki, þ.e. flokki 14 ára og yngri, en þátttakan ein og sér er mikill sigur.

Þetta er í 5. skiptið sem píanókeppni Íslandsdeildar EPTA er haldin og eru dómarar Nelita True, yfirdómari, Halldór Haraldsson, Anna Þorgrímsdóttir, Selma Guðmundsdóttir og Kristinn Örn Kristinsson. 

Evrópusamband píanókennara var stofnað í Bretlandi árið 1978 og að frumkvæði Halldórs Haraldssonar var Ísland fyrsta landið til að ganga í sambandið árið 1979. Samtökin eru regnhlífarsamtök fyrir píanókennara sem öll Evrópulöndin eiga nú aðild að. Verndari keppninnar er mennta- og menningarmálaráðherra.