Annaskil
Nú fer að líða að lokum haustannar með viðeigandi námsmati, en önninni lýkur 18. janúar.
Í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla er skólum gert að taka tillit til fleiri þátta en þeirra sem við höfum til þessa kallað hefðbundið námsmat. Það mat hefur miðast að mestu leyti við árangur nemenda í einstökum námsgreinum. Nú skal einnig, innan hvers námssviðs, leggja mat á hæfni nemenda í grunnþáttum almennrar menntunar. Þar ber helst að nefna þætti eins og samskipti og samstarf, þekkingu og leikni, hæfni til að miðla þekkingu sinni og beita gagnrýninni hugsun, hæfni til að vinna undir leiðsögn ásamt hæfni til sjálfstæðra vinnubragða og ábyrgðar á eigin námi.
Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur nú þegar farið fram mikil vinna við endurskipulag á námsmati en þó er ljóst að þegar um svona miklar breytingar er að ræða verður að fikra sig áfram og hrinda þeim í framkvæmd í nokkrum skrefum. Skólinn lagði af stað með töluverðar breytingar haustið 2011 en námsmatið hefur verið í stöðugri þróun síðustu ár í átt að nýjum markmiðum aðalnámskrár.
Deila