VALMYND ×

Eineltismál

Aldrei má sofna á verðinum í umræðunni um einelti. Markmið okkar er að hafa þá umræðu alltaf virka, en auðvitað þarf líka að gera margt fleira í skólanum. Á haustönninni fórum við í sérstakt eineltisverkefni. Þar var lögð áhersla á að nemendur skilgreindu einelti og kynnu ráð til að bregðast við ef þeir teldu að um slíkt væri að ræða. Oft er einelti mjög dulið og stundum upplifa krakkar neikvæð skilaboð vegna samskipta sem aðrir upplifa á allt annan veg. Við því þarf líka að bregðast. Við viljum helst geta leiðrétt neikvæð samskipti áður en þau fara að flokkast sem eineltismál en oft höfum við ekki vitneskju um vanlíðan nemenda því þeir segja okkur ekki alltaf frá.  Stundum segja krakkar líka frá atburðum heima sem þeir vilja ekki segja frá í skólanum. Ef við höfum ekki vitneskju getum við ekkert gert.

Til að auðvelda nemendum og foreldrum að koma til okkar upplýsingum höfum við útbúið sérstakt eyðublað þar sem hægt er að tilkynna um grun um einelti. Við viljum reyna að tryggja að ferlar slíkra mála séu sem skilvirkastir og því teljum við best að fá slíkar upplýsingar skriflega. Eyðublaðið er á heimasíðu skólans, sjá hér

Deila