VALMYND ×

Fréttir

Bókasöfnun

Foreldrafélag G.Í. stóð fyrir bókasöfnun á foreldraviðtalsdaginn þann 14. nóvember s.l. til að styrkja bókakost skólasafnsins. Alls söfnuðust 95 bækur og erum við afar þakklát öllum þeim sem gáfu okkur bækur og síðast en ekki síst foreldrafélaginu sjálfu, sem hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum til skólastarfsins í gegnum tíðina.

 

Hugmyndasamkeppni

Hér má sjá svæðin fjögur sem bíða nafngiftar
Hér má sjá svæðin fjögur sem bíða nafngiftar

Nú er hafin hugmyndasamkeppni á meðal allra bæjarbúa um nöfn á ganga/svæði skólans, en skólanum hefur verið skipt upp í fjögur svæði samkvæmt meðfylgjandi teikningu. Auglýsingar eru á víð og dreif um skólann og hugmyndakassi hjá Svanfríði ritara, sem ásamt umsjónarkennurum, tekur við tillögum.

Samkeppnin stendur út þessa viku, til föstudagsins 23. nóvember og hvetjum við alla til að taka þátt.

 

 

Þemadögum lokið

Nú er þemadögum undir yfirskriftinni Saman í liði - allir á iði, lokið. Í lok dagsins söfnuðust allir nemendur og starfsfólk skólans saman í nýja anddyrinu og sungu nokkur lög, þar á meðal nýjan skólasöng. Einnig var Stóra upplestrarkeppnin sett formlega í tilefni dags íslenskrar tungu.

Í lok dagsins var svo öllum boðið upp á súpu og brauð, sem nemendur og starfsfólk matreiddi.

Sjá má fjölda mynda og myndbönd frá þemadögunum hér vinstra megin á síðunni, sem fjölmiðlahópurinn sá um.

Heimasíðan eins árs

frá opnun nýju heimasíðunnar fyrir ári síðan
frá opnun nýju heimasíðunnar fyrir ári síðan

Í dag er eitt ár liðið frá því að ný heimasíða skólans leit dagsins ljós. Það voru afmælisdrengir dagsins, þeir Árni Sverrir Sigurðsson og Kjartan Óli Sigurðsson sem fengu þann heiður að opna síðuna á degi íslenskrar tungu.

Síðan sem er hönnuð af Snerpu, er mikil breyting til batnaðar frá gömlu síðunni á vef Skólatorgsins, sem lítið hefur verið uppfærður á síðustu árum.

Á þessu eina ári eru flettingar orðnar 236.000 og vonum við að þeim fjölgi enn frekar.

Dagur íslenskrar tungu

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996 og hafa grunnskólanemendur verið duglegir að taka þátt í hátíðinni í gegnum árin. Nemendur og starfsfólk G.Í. ætla að hittast kl. 11:55 í anddyri nýja skólans og syngja nokkur lög í tilefni dagsins, auk þess sem Stóra upplestrarkeppnin verður formlega sett. Einnig má geta þess að nýr skólasöngur verður frumfluttur.

Þemadagar

 

 

Veturliði Snær Gylfason, 9. bekk skrifar:

 

Dagana 15. og 16. nóvember voru haldnir svokallaðir þemadagar í Grunnskólanum á Ísafirði sem lýsa sér þannig að öllum nemendum skólans er skipt niður í 29 hópa (þar af einn fjölmiðlahópur sem sér um að skrifa fréttir og taka upp myndbönd um þemadagana) sem fara svo á milli stöðva og leysa ýmis verkefni eða fara í leiki. Var þar á meðal pokahlaup, alls kyns þrautir, dans og söngur.



 



 

Mikið fjör á þemadegi

Linda Kristjánsdóttir, 8. bekk, skrifar:

 

Í dag og á morgun eru þemadagar hér í Grunnskólanum á Ísafirði. Skólanum er skipt í 28 hópa en 29 ef við í fjölmiðlahópnum erum tekin með. Það er mjög skemmtilegt að breyta svona til og gott að við þurfum ekki að vera sitjandi inni og læra alltaf. Það eru 14 stöðvar t.d söngstöð, diskó/brennó og leikir, hugleiðsla, súmba og margt fleira skemmtilegt.
Krakkarnir í fjölmiðlahópnum eru búnir að vera á fullu að taka myndir og viðtöl. Hóparnir eru líka á allskyns stöðum, t.d. í félagsmiðstöðinni, uppi á sundlaugarlofti og í blómagarðinun. Ég er til dæmis búin að vera að taka myndir af næstum því öllum hópum, en við krakkarnir í fjölmiðlahópnum höfum ekki verið í hópum sem eru að baka lummur og annað skemmtilegt, en við getum fengið að prófa og vera með og skoða það sem hinir eru að gera.
Við höfum sett inn mikið af myndum í dag hér á heimasíðuna og einnig munu nokkur myndbönd birtast þar í dag og á morgun.


Þemadagar 15. og 16. nóvember

Hanna Þórey, 6. bekk og Una Salvör, 5. bekk skrifa: 

 

Við erum í fjölmiðlahóp og búnar að flakka mikið og taka myndir. Á ýmsum stöðum eru leikir t.d. í blómagarðinum er ratleikur  og þrautir í gamla gaggó. Við kíktum á  lummubakstur, þar fengum við að gera lummur og það heppnaðist mjög vel hjá okkur. Svo er súmba  í dansstofunni og diskó-brennó í íþróttasalnum, þar er svaka stuð. 

 

Töluð enska og góðir gestir

1 af 4

Í haust var nýju valfagi hleypt af stokkunum hér í skólanum, sem er töluð enska. Nemendur á unglingastigi hafa þar fengið tækifæri til að auka færni sína í talaðri ensku, þar sem áherslan er á að nemendur hlusti og tali venjulegt talmál, t.d. með því að spila ensk borðspil og spjalla um allt milli himins og jarðar.

Föstudagana 2. og 9. nóvember fengum við góða gesti frá Háskólasetri Vestfjarða, erlenda nemendur úr haf- og strandsvæðastjórnunarnámi. Allir skemmtu sér vel og var mikið spjallað, auðvitað á ensku. Gestirnir koma til með að heimsækja okkur aftur og fá fleiri samnemendur sína með, því þau hafa mikinn áhuga á að komast í tengsl við samfélagið hér á Ísafirði.

Þemadagar

Á morgun og föstudaginn verða þemadagar í skólanum undir yfirskriftinni Saman í liði - allir á iði. Öllum nemendum skólans er þá skipt niður í 28 hópa þvert á árganga til að nemendur á ýmsum aldri kynnist betur. Hóparnir fara svo tveir og tveir saman á ýmsar skemmtilegar stöðvar og er áhersla lögð á góða hreyfingu.  Stöðvarnar sem eru í boði eru súmba, afmælisleikir og þrautir, ratleikur, minigolf, boðhlaup og pokahlaup, dansspil, diskó og brennó, hugleiðsla, söngur, lummubakstur, ljóðagerð, spil og fréttagerð.

Skóla lýkur kl. 13:05 báða þessa daga og verður mötuneytið á sínum stað í dagskránni.