VALMYND ×

Öskudagur

Í dag er öskudagur og þar með hefst langafasta. Nafnið öskudagur á rætur að rekja til þess að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir iðrandi kirkjugesti. Sennilega á sá siður að hengja öskupoka á fólk rætur í þessum kaþólska sið, því hér áður fyrr settu krakkar ösku í pokana.

Á Íslandi er heitið öskudagur þekkt frá því á 14. öld. Nú á dögum klæðast krakkar víða um land grímubúningum þennan dag. Þeir ganga í verslanir og stofnanir og syngja fyrir starfsfólk í þeirri von að fá góðgæti að launum fyrir sönginn. Það getur líka verið gaman að búa til öskupoka og ennþá skemmtilegra að hengja þá á fólk eins og sést á meðfylgjandi mynd. 

 

Í dag er blíðskaparveður sem veit á gott, þar sem öskudagur er talinn eiga 18 bræður eins og fram kemur í eftirfarandi vísu: 


Öskudagsins bjarta brá,

bætti úr vonargögnum,

þar hann bræður átján á,

eptir gömlum sögnum.

Deila