VALMYND ×

Frumkvöðlar framtíðarinnar

Nú er mjög spennandi verkefni í vinnslu hér í skólanum sem er ætlað nemendum í 8. bekk. Við köllum það Frumkvöðlar framtíðarinnar og er það samstarfsverkefni Grunnskólans á Ísafirði, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (AtVest) og Fab Lab (NMÍ).

Nemendur fá kynningu á Fab Lab hjá Albertínu Elíasdóttur, forstöðumanni Fab Lab á Ísafirði. Þeim er svo skipt í hópa og mun hver hópur hanna vöru og smíða frumgerðina í Fab Lab. Þegar varan er tilbúin gera nemendurnir einfalda viðskiptaáætlun með það að markmiði að selja vöruna, en varan verður þó ekki seld í raun. Áætlunin verður gerð undir leiðsögn Shirans Þórissonar, framkvæmdastjóra AtVest. Að því loknu verða viðskiptaáætlanirnar kynntar fyrir dómnefnd, sem verður skipuð fólki úr atvinnulífinu, þar sem besta áætlunin verður valin.

 

Markmið verkefnisins er að nemendurnir öðlist reynslu í frumgerðarsmíð í Fab Lab og viðskiptaáætlanagerð. Einnig að þjálfa þá í skapandi hugsun, auka tæknilæsi þeirra og sýna þeim ferlið sem er á bak við vöruþróun. Óbeint getur þetta hvatt þau til frekari frumkvöðlaverkefna í framtíðinni og er því upp að vissu marki verið að þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar.

Deila