VALMYND ×

Fréttir

Evrópski tungumáladagurinn

Evrópski tungumáladagurinn er 26. september ár hvert. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 2001 í samstarfi við Evrópuráðið og Evrópusambandið og er hann haldinn hátíðlegur í fjölmörgum ríkjum í Evrópu. Tungumál, tækni og tækifæri er yfirskrift dagsins að þessu sinni.

Að venju mun Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur standa fyrir viðburðum í tilefni dagsins og er ætlunin að beina sjónum að því hvernig nýta megi samfélagsmiðla og upplýsingatækni í þágu tungumálanáms. Ráðgert er að hleypa af stokkunum átaki til að upplýsa ungt fólk um gildi tungumálakunnáttu og með þeim hætti hvetja það til tungumálanáms. Einnig verður efnt til dagskrár í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, Máltæknisetur og samtök tungumálakennara um upplýsingatækni og tungumálanám, m.a. um rafræn hjálpargögn. Stofnunin efnir til leiks á Facebook-síðu sinni þar sem almenningur getur unnið bækur og klippikort á kvikmyndahátíðina RIFF.

Góð frammistaða í fótboltanum

Aldís Huld Höskuldsdóttir og Kolfinna Brá Ewa Einarsdóttir, nemendur í 9. bekk, hafa verið valdar í æfingahóp leikmanna sem fæddir eru árið 1998. Hópurinn kom saman á æfingar helgina 15.-16. september og var þetta liður í undirbúningi fyrir úrslitakeppni EM U17 kvenna sem fram fer á Íslandi í júní 2015.
Aldís Huld og Kolfinna Brá spiluðu báðar með 4.flokki BÍ/Bolungarvík í sumar og stóðu sig vel að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvík.

Hlaupið í góða veðrinu

1 af 3

Um tíuleytið í morgun hlupu vel á fjórða hundrað krakkar eftir Seljalandsveginum í Norræna skólahlaupinu. Veðrið var eins og best var á kosið, milt og stillt og hið ákjósanlegasta til útivistar.

Að hlaupi loknu tekur svo hefðbundið nám við, en unglingastigið fær að fara heim í millitíðinni í sturtu, enda hlaupa þeir krakkar alla leið inn að golfskála og til baka. Það er vonandi að allir verði endurnærðir eftir útiveruna og tilbúnir í önnur verkefni dagsins.

Norræna skólahlaupið

Þriðjudaginn 25. september verður Norræna skólahlaupið hjá okkur og mæta bekkirnir á eftirfarandi tímum við Seljalandsveg:

9:50   1. - 4. bekkur hleypur að Engi

10:00 5. - 7. bekkur hleypur að Seljalandi

10:10 8. - 10. bekkur hleypur að Seljalandi/golfskála og verða tímamörk eins og í fyrra til að geta hlaupið að golfskálanum.

Foreldranámskeið

Foreldrum nemenda í 1. bekk býðst nú að koma á fjögurra skipta fræðslu- og samstarfsfundi hér í skólanum.  Á fundunum er fjallað um ýmsa hagnýta þætti er varða skólagöngu barna og svo hugmyndafræði Uppbyggingar sjálfsaga – uppeldis til ábyrgðar.  Við gerum jafnframt ráð fyrir að vinna með gildi skólans og skýru mörkin. Til dæmis að skilgreina hugtökin virðingu, samhug og menntun og vinna að samkomulagi um hvernig við framfylgjum skýru mörkunum. Við lítum á þetta sem tækifæri til að byggja upp þéttan foreldrahóp sem getur stutt enn betur við börnin sín á þessari 10 ára vegferð sem framundan er hjá þeim í skólanum.  En eins og allir vita er stuðningur foreldra eitt af lykilatriðunum fyrir farsælli skólagöngu. Fyrsta skiptið var í gær og framhaldið verður næstu þrjá miðvikudaga. 



 

Sveppatínsla og greining

Nemendur við rannsóknarstörf
Nemendur við rannsóknarstörf

Um daginn fóru nemendur í 8.bekk upp í skógrækt fyrir ofan Urðarveg til að tína sveppi og fléttur. Krakkarnir fundu rúmlega 10 gerðir, sem síðan voru greindar og skoðaðar í smásjá þegar komið var aftur í skólann. Sveppunum fylgdi þónokkuð af allskyns pöddum og fór greiningin meira í að rýna í pöddurnar en sveppina.

Það var því mikið líf og fjör í náttúrufræðistofunni þennan dag.

Gjöf til félagsstarfa nemenda

Síðastliðinn laugardag komu fyrrverandi nemendur G.Í. sem fæddir eru árið 1971 í heimsókn í gamla skólann sinn, en í ár eru 25 ár síðan þeir útstkrifuðust sem gagnfræðingar. Hópurinn skoðaði skólann undir leiðsögn Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur skólastjóra, en húsnæðið hefur tekið gífurlegum breytingum á þessum tíma, stækkað umtalsvert og aðstæður allt aðrar en voru. Þá færði hópurinn skólanum rausnarlega peningagjöf, sem ætluð er til tækjakaupa og kemur svo sannarlega að góðum notum í sal skólans og nýtist þar í félagsstörfum nemenda. 

Skólinn þakkar árgangi 1971 kærlega fyrir heimsóknina og þessa góðu gjöf.

Lestur er bestur

Í dag, mánudaginn 17. september hefst tveggja vikna lestrarlota í skólanum. Nemendur jafnt sem starfsfólk mun þá verja að lágmarki 15 mínútum á dag í hljóðlestur og hvetjum við alla til að gera slíkt hið sama heima fyrir.

Dagur íslenskrar náttúru

Árið 2010 ákvað ríkisstjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem valinn var er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Náttúrufræðikennarar við G.Í. láta ekki sitt eftir liggja og reyna eftir fremsta megni að fara með sína hópa út og njóta náttúrunnar, enda ekki langt að fara til að komast í nána snertingu við hana. Í vikunni sem leið fór 4. bekkur t.d. í plöntuskoðunarferð upp í skógræktina fyrir ofan Urðarveg og  skoðaði og tíndi margskonar plöntur.  Lúpínan þótti einkar áhugaverð þar sem fræhulstrin  voru flest orðin tóm og skrýtin í laginu.  Þó fundu krakkarnir nokkur heil fræhulstur og tóku þau heim til nánari athugunar.  Þegar í skólann var komið voru laufblöð og aðrir jurtahlutar settir í dagblöð til þurrkunar og bíða þess að verða skoðaðir nánar.

Samræmd könnunarpróf

Í næstu viku verða samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk sem hér segir:

 

Mánudagur 17. september kl. 9:00 - 12:00 íslenska 10. bekkur

Þriðjudagur 18. september kl. 9:00 - 12:00 enska 10. bekkur

Miðvikudagur 19. september kl. 9:00 - 12:00 stærðfræði 10. bekkur

Fimmtudagur 20. september kl. 9:00 - 12:00 íslenska 4. og 7. bekkur

Föstudagur 21. september kl. 9:00 - 12:00 stærðfræði 4. og 7. bekkur

 

Eins og fram kemur hjá Námsmatsstofnun þá er tilgangur samræmdra könnunarprófa að athuga eftir því sem kostur er, að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð. Einnig eiga prófin að vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur og veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og náms­stöðu nemenda. Þá veita prófin upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr, miðað við aðra skóla landsins.

Allar frekari upplýsingar um framkvæmd prófanna er að finna á heimasíðu Námsmatsstofnunar.