VALMYND ×

Fréttir

Alþjóðlegi dansdagurinn

1 af 3

Alþjóðlegi dansdagurinn er haldinn hátíðlegur þann 29. apríl um heim allan frá árinu 1982. Dagsetningin er til minningar um fæðingardag Jean-Georges Noverre, sem fæddist árið 1727 og var mikill dansumbótasinni.  

Markmið dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir og færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með sameinginlegu tungumáli – dansinum.

Nemendur í 1. - 7. bekk G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í dansinum og söfnuðust saman í skólaportinu nú áðan og stigu nokkra dansa í tilefni gærdagsins.

Verkalýðsdagurinn

Á morgun, þriðjudaginn 1. maí er verkalýðsdagurinn og ekkert skólahald.

Skóladagatal næsta skólaárs

Nú er skóladagatal næsta skólaárs komið inn á síðuna hér vinstra megin. Þar má sjá alla kennsludaga, vetrarfrí, starfsdaga o.þ.h.

Hvað ef?

Íslandsbanki á Ísafirði í samstarfi við Þjóðleikhúsið og 540 Gólf leikhús, býður 8., 9. og 10. bekk G.Í. á sýninguna Hvað Ef?  mánudaginn 30. apríl í Edinborgarhúsinu kl. 11:00.  Leikritið fjallar um viðkvæm mál eins og vímuefni, áfengi, kynferðisofbeldi, ölvunarakstur, einelti og foreldravandamál á skemmtilegan og nýstárlegan hátt. Flytjendur eru Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Ólöf Jara Skagfjörð og Ævar Þór Benediktsson og leikstjóri Gunnar Sigurðsson.

Sérstök sýning  fyrir foreldra og aðra sem áhuga hafa verður kl. 20:00 sama dag og  geta foreldar eða félög haft samband  við Margréti Halldórsdóttur fristund@isafjardarbaer.is  fyrir nánari upplýsingar.

Verkið hefur hlotið einmuna lof unglinga, foreldra, kennara og þeirra sem hafa staðið í forvörnum og fræðslu um lengri eða skemmri tíma. Með húmorinn og einlægnina að vopni einsetjum við okkur að opna umræðuna um raunveruleika ungmenna á Íslandi.

Úrslit í Skólahreysti

Í gærkvöld fór fram úrslitakeppnin í Skólahreysti í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Úrslit urðu þau að Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði, Heiðaskóli í Reykjanesbæ hafnaði í öðru sæti og Hagaskóli í Reykjavík í því þriðja. Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti en alls voru það rúmlega 90 skólar sem tóku þátt í kepnninni þetta árið. Krakkarnir okkar stóðu sig allir með sóma sem og áhorfendur sem fylgdu keppendunum eftir.

Ný stjórn nemendafélagsins

Í gær var aðalfundur Nemendafélags G.Í. haldinn á sal skólans. Ársreikningur félagsins var lagður fram, auk þess sem 7. bekkingar voru boðnir velkomnir í félagið. Á þessum tímamótum 7. bekkinga var þeim boðið í félagsmiðstöðina seinni part dags fram að mánaðamótum apríl - maí, en eftir það eru þeir einnig velkomnir á kvöldin.


Kosið var um nýja stjórnendur nemendafélagsins fyrir næsta skólaár og urðu úrslit þau að Finney Anita Thelmudóttir var kjörin formaður og Gísli Jörgen Gíslason varaformaður. Við óskum þeim innilega til hamingju og má ljóst vera að nemendafélagið verður í góðum höndum næsta skólaár.

Úrslitakeppnin í Skólahreysti

Keppendur G.Í. þau Elvar Ari, Natalía Ösp, Sigrún Gunndís og Hálfdán. (Mynd: skolahreysti.is).
Keppendur G.Í. þau Elvar Ari, Natalía Ösp, Sigrún Gunndís og Hálfdán. (Mynd: skolahreysti.is).

Fimmtudaginn 26. apríl fer úrslitakeppnin í Skólahreysti fram í Laugardalshöll. Eins og fram hefur komið, þá tryggði G.Í. sér sæti í úrslitunum en fyrir skólann keppa þau Elvar Ari Stefánsson, Hálfdán Jónsson, Natalía Ösp Ómarsdóttir og Sigrún Gunndís Harðardóttir.

Sýnt verður frá úrslitakeppninni á RÚV kl. 20:05 og fylgjumst við að sjálfsögðu vel með og óskum okkar fólki góðs gengis.

Harðarstrákar deildarmeistarar í 5. flokki

Aftari röð: Elías Ari, Birkir, Jón Ómar og Hákon Ernir. Fremri röð: Tryggvi, Ísak, Andri Fannar og Sigurður Arnar.
Aftari röð: Elías Ari, Birkir, Jón Ómar og Hákon Ernir. Fremri röð: Tryggvi, Ísak, Andri Fannar og Sigurður Arnar.

Fimmta og síðasta deildarmót 5.flokks yngri í handbolta fór fram um nýliðna helgi á Akureyri. Strákarnir í handboltadeild Harðar sýndu sitt allra besta í þessu móti og skinu stemmningin, samheldnin, gleðin og vináttan í allar áttir að því er kemur fram á vef félagsins. Þess má geta að sumir af þessum strákum voru einnig að keppa á Andrésar andar leikunum og hömpuðu jafnvel verðlaunum þar, þannig að það var nóg að gera í íþróttunum þessa helgi hjá þessum krökkum.

Góður árangur ísfirskra skíðakrakka

Ísfirskir skíðakrakkar gerðu góða ferð á Andrésar andar leikana sem fram fóru í Hlíðarfjalli við Akureyri um helgina. Strax að kvöldi fyrsta keppnisdags voru komin í hús fimm gull, fimm silfur og þrjú brons. Daginn eftir sigraði a-sveit SFÍ í boðgöngu 12-14 ára en b-sveit félagsins hafnaði í þriðja sæti. Sömuleiðis sigraði a-sveit SFÍ í boðgöngu 9-11 ára.

Rúmlega fimmtíu keppendur frá Ísafirði tóku þátt í mótinu, bæði í alpagreinum og göngu. Keppt var í svigi, stórsvigi, hefðbundinni göngu og á brettum í fyrsta sinn.

Úrslit mótsins í heild er að finna á vef Skíðafélags Akureyrar. (Frétt af bb.is)