VALMYND ×

Fréttir

Frjálsíþróttamót

Síðastliðinn föstudag var haldið frjálsíþróttamót í 5. - 10. bekk á Torfnesi. Keppt var í kúluvarpi, langstökki, spretthlaupi og víðavangshlaupi í blíðskaparveðri. Úrslit urðu þessi:


Meira

Skólaslit

Skólaslit G.Í. fara fram í Ísafjarðarkirkju á morgun, þriðjudaginn 5. júní kl. 20:00. Þar mun unglingastig skólans fá sína vitnisburði og 10. bekkur verður kvaddur.

Nemendur í 1. bekk mæta á morgun ásamt foreldrum í foreldraviðtöl og 2. - 7. bekkur mætir kl. 10:00 í sínar bekkjarstofur og fær afhenta vitnisburði skólaársins.

 

Vorverkadagur

fréttahópur G.Í. á vorverkadegi
fréttahópur G.Í. á vorverkadegi

Í dag er vorverkadagur hjá skólanum, en þá taka allir árgangar þátt í svokallaðri Grænni viku hjá Ísafjarðarbæ sem byggist á því að allir bæjarbúar leggist á eitt um að hreinsa og fegra bæinn. Vikan er samstarfsverkefni Ísafjarðarbæjar, grunnskólanna, fyrirtækja, stofnana og íbúa og vinna allir í sjálfboðavinnu.
Árgangar skólans skipta með sér verkum þannig að sumir gróðursetja plöntur, aðrir tína rusl og fegra bæinn allt frá Suðurtanga upp í Stórurð. Þá hefur einnig verið starfandi sérstakur fréttahópur sem hefur fylgst með gangi mála og tekið myndir og myndbönd, sem sjá má hér vinstra megin á síðunni.

 

Samfélagsfræðiþema

Undanfarna daga hafa 8. og 9. bekkur verið í þemavinnu, þar sem áhersla var lögð á samfélagsfræði. Krakkarnir kynntu sér Ísafjörð í nærmynd og buðu svo til sýningar í dag þar sem afrakstur vinnunnar var kynntur.

3. bekkur í sveitaferð

1 af 2

Í fyrradag fór 3. bekkur í sveitaferð að Hólum í Dýrafirði. Krakkarnir fengu að skoða fjárhúsin og allir sem vildu fengu að halda á lambi og gefa kindum heytuggu. Að því loknu buðu ábúendur upp á kökur og djús.  Krakkarnir voru svo heppnir að sjá kind bera og var það magnað augnablik fyrir hópinn að sjá nýtt lamb koma í heiminn og fóta sig fyrstu mínútur lífsins, hvernig ærin karar lambið og það reynir að standa upp í fyrsta sinn.  

Eftir heimsóknina í fjárhúsin var veðurathugunarstöðin skoðuð.  Á heimleiðinni var svo staldrað við í Holtsfjöru, borðað nesti og leikið sér í alls konar leikjum í fjörunni.  

Það voru sælir krakkar sem komu heim í skóla eftir velheppnaða ferð og kunna þau Friðbert og Ástu á Hólum bestu þakkir fyrir góðar móttökur. 

10. bekkur á heimleið

Nú er 10. bekkur á heimleið frá Bakkaflöt í Skagafirði og er væntanlegur til Ísafjarðar um kl. 17:00.

Samstarfsverkefni T.Í. og G.Í.

Lúðrasveitir T.Í. ásamt nokkrum nemendum 5. bekkjar (mynd: T.Í.)
Lúðrasveitir T.Í. ásamt nokkrum nemendum 5. bekkjar (mynd: T.Í.)

Eftir áramótin fóru Grunnskólinn á Ísafirði og Tónlistarskóli Ísafjarðar af stað með blásturshljóðfæraverkefni í 5. bekk undir stjórn Madis Mäekalle. Allir 36 nemendur árgangsins  sóttu þá tíma á kornett og klarinett, fjórir krakkar í einu, tvisvar í viku. Þannig fengu allir þessir krakkar tækifæri til að kynnast hljóðfæraleik og samspili. Verkefninu lauk svo með því að nokkrir þessara nemenda spiluðu á tónleikum með lúðrasveitum T.Í. á tónleikum 9. maí s.l. og var það mikil upplifun og reynsla fyrir þessar krakka. 

Nemendur 5. bekkjar voru mjög ánægðir með þessa tíma í vetur og vonandi verður áframhald á samstarfsverkefni skólanna.

Háskóli unga fólksins

Föstudaginn 25. maí mun Háskóli unga fólksins heimsækja skólann og halda námskeið fyrir 7. - 9. bekk. Boðið verður upp á efnafræði, líffræði, mannfræði, fornleifafræði, japönsku, þjóðfræði og stjörnufræði.

Háskóli unga fólksins er hluti af Háskólalestinni sem verða mun hér á Ísafirði um helgina, þar sem boðið verður upp á fyrirlestur um forsetakosningarnar 2012 og vísindaveislu í Edinborgarhúsinu á laugardaginn kl. 12 - 16. Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Vorferðalag 10. bekkjar

Í gær þreyttu 10. bekkingar sitt síðasta próf í grunnskóla. Við tekur vorferðalag árgangsins, en á mánudagsmorgun verður lagt af stað kl. 8:15 frá Torfnesi,  norður á Bakkaflöt í Skagafirði. Dvalið verður í Skagafirðinum fram á fimmtudag og ýmislegt sér til gamans gert. Farið verður í flúðasiglingu, litabolta, þrautir, sund í hinni margrómuðu sundlaug á Hofsósi, rúntað um Skagafjörð, haldnar kvöldvökur og fleira.

Hópurinn áætlar heimkomu seinnipart fimmtudags.

Ferðaskrifstofa opnuð í 6. bekk

Olga skólastjóri kynnti sér m.a. Færeyjar
Olga skólastjóri kynnti sér m.a. Færeyjar

Í gærmorgun opnaði 6. bekkur ferðaskrifstofu í tengslum við nám sitt um Norðurlöndin. Krakkarnir skiptu löndunum á milli sín og kynntu hvert land fyrir sig fyrir samnemendum, starfsfólki skólans og öðrum gestum sem sáu sér fært að líta við. Einnig buðu krakkarnir upp á léttar veitingar í tilefni opnunarinnar.

Það er alltaf gaman að sjá hversu fjölbreyttar kennsluaðferðir eru innan skólans og án efa eykur það áhuga og virkni nemenda.