VALMYND ×

Fréttir

Viðurkenningar afhentar fyrir Brúarverkefni

Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Sara Björgvinsdóttir og Maksymilian Haraldur Frach
Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Sara Björgvinsdóttir og Maksymilian Haraldur Frach

Í síðustu viku voru afhentar viðurkenningar fyrir svokallað Brúarverkefni í dönsku, sem 10. bekkur G.Í. tók þátt í fyrir áramótin. Verkefni þetta var samskiptaverkefni íslenskra grunnskólanemenda sem leggja stund á dönsku, sænsku og norsku og samlanda þeirra er sækja íslenskukennslu á Norðurlöndunum. Markmiðið var að stuðla að notkun norrænna tungumála og samvinnu nemenda á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í gegnum skapandi viðfangsefni á neti.

Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 3. - 4. sæti með myndbandið Tónlistin okkar. Í myndbandinu kynntu krakkarnir tónlist sem eitt aðaláhugamál þeirra og spiluðu á píanó og fiðlu. Þátttakendur voru þau Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Maksymilian Haraldur Frach, Sara Björgvinsdóttir og Sigríður Salvarsdóttir, undir leiðsögn dönskukennaranna sinna, þeirra Ölmu Frímannsdóttur, Guðríðar Sigurðardóttur og Kristínar Ólafsdóttur.

Sólarkaffi

1 af 2

Þrátt fyrir leiðindaveður á sjálfan sólardag okkar Ísfirðinga, þá létu nemendur það ekki aftra sér frá því að gæða sér á pönnukökum. Krakkarnir í 5. bekk gerðu pönnsunum góð skil og gripu í spil í óveðrinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Fleiri myndir eru komnar inn á bekkjarsíðu árgangsins.

Samfés frestað

Vegna mikillar ófærðar hefur verið ákveðið að fresta Vestfjarðakeppni Samfés sem halda átti í Súðavík 27. janúar til föstudagsins 3. febrúar n.k.

Fundi frestað

Fundur með forráðamönnum nemenda í 4. og 7. bekk sem vera átti í dag kl. 18:00 hefur verið frestað til mánudagsins 30. janúar kl. 18:00.

Skólahaldi aflýst

Skólahald fellur niður í dag vegna ófærðar og óveðurs.

Skólahald fellt niður

Vegna versnandi veðurspár verður skólahald fellt niður eftir kl. 13:05 en Dægradvöl er opin. Strætisvagnar fara frá skóla um kl. 13:15.

Sólarkaffi

Í dag berst pönnukökuilmur um ganga skólans í tilefni af sólardegi Ísfirðinga. Nokkrir árgangar hafa tekið sig til og snæða pönnukökur í boði foreldra, þó svo að sólin nái ekki að skína í dag.
Ísfirðingar hafa fagnað sólarkomu 25. janúar með þessum hætti ár hvert í meira en 100 ár.

Þorri

Mikinn merkisdag ber upp á 20. janúar en þá hefst þorri. Þorri er gamalt mánaðarheiti en samkvæmt forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Nú á dögum könnumst við við þetta heiti úr hugtökum eins og þorramatur og þorrablót. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér eða að komast í gegnum hann, þola tímabundna erfiðleika. Fyrsti dagur þorra nefnist bóndadagur og einmitt þann dag er miður vetur. (Heimild www.nams.is)

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrablót 10. bekkjar er ein af elstu hefðum skólastarfsins og með þeim skemmtilegustu. Árgangurinn hefur nú iðkað stífar dansæfingar undir stjórn Evu Friðþjófsdóttur danskennara, enda er mikill metnaður lagður í þorrablótið.
Blótið verður haldið föstudaginn 20. janúar á sjálfan bóndadaginn og hefst kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:30. Nemendur 10. bekkjar og gestir þeirra mæta með þorramat í trogum upp á gamla mátann og bjóða kennarar og foreldrar upp á skemmtiatriði. Að því loknu verða gömlu dansarnir dansaðir fram á kvöld.

Þeir sem eiga þjóðbúninga eru hvattir til að mæta í þeim til að gera blótið sem þjóðlegast.