Skólaslit G.Í.
Skólaslit Grunnskólans á Ísafirði voru í Ísafjarðarkirkju í kvöld og sáu þau Eva Karen Sigurðardóttir og Ragnar Óli Sigurðsson úr 9. bekk um kynningar atriða.
Það var glæsilegur hópur 10. bekkinga sem kvaddi skólann með tónlistaratriðum og þakkaði kennurum sínum og starfsmönnum skólans samfylgdina. Sólveig María Aspelund flutti ávarp fyrir hönd nemenda 10. bekkjar.
Skólastjórnendur ávörpuðu nemendur og veittu viðurkenningar fyrir hæstu meðaleinkunn í 8. og 9. bekk. Í 8. bekk varð Hafdís Haraldsdóttir hæst og í 9. bekk var það Svanhildur Sævarsdóttir. Þá veitti Rotary klúbburinn á Ísafirði sérstök verðlaun fyrir ástundun og framfarir í 8., 9. og 10. bekk. Aldís Huld Höskuldsdóttir hlaut þau verðlaun í 8. bekk, Eva Rut Benediktsdóttir í 9. bekk og Samúel Þórir Grétarsson í 10. bekk.
Í 10. bekk var það Arna Kristbjörnsdóttir sem hlaut verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn. Andrea Valgerður Jónsdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur í íslensku, samfélagsfræði og dönsku, en dönskuverðlaunin eru veitt af danska menntamálaráðuneytinu.
Einar og Guðrún Farestveits fond er sjóður sem styrkir norskukennslu í íslenskum skólum og heiðrar nemendur fyrir frammistöðu í norskunámi í grunnskóla. Þau verðlaun hlutu þeir Hrólfur Ólafsson og Hákon Jónsson.
Verðlaun fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Sigríður Salvarsdóttir, í stærðfræði var það Haraldur Jóhann Hannesson og Sólveig María Aspelund fyrir ensku.
Til fjölda ára hefur Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gefið peningagjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi. Þau verðlaun hlaut Elena Dís Víðisdóttir. Auk þess hlaut hún viðurkenningu fyrir einstaka vinnusemi, vandvirkni, jákvæðni og prúðmennsku í heimilisfræði, en þau verðlaun gáfu hjónin Guðlaug Jónsdóttir og Karl Ásgeirsson. Elena Dís og Hálfdán Jónsson hlutu einnig viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum, sem gefin voru af Stúdíó Dan.
Kvenfélagið Hlíf gaf viðurkenningar fyrir verk og listgreinar. Viðurkenningu fyrir skapandi vinnubrögð og frumkvæði í listavali hlaut Kristín Harpa Jónsdóttir. Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Andrea Valgerður Jónsdóttir. Fyrir skapandi vinnubrögð í textílmennt hlaut Sara Björgvinsdóttir viðurkenningu og Margrét Rún Rúnarsdóttir fyrir framfarir og vinnubrögð í tæknimennt.
Síðast en ekki síst hlaut Ómar Karvel Guðmundsson sérstaka viðurkenningu skólans fyrir góða ástundun og framkomu.
Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar nemendum 10. bekkjar samveruna og óskar þeim velfarnaðar um ókomin ár.
Deila