VALMYND ×

Fréttir

Lestrarstund í skólanum

Í skólanum er lesið meira og minna alla daga. En mánudaginn 5. mars ætlum við að hefja daginn með lestrarstund, þannig að allir, bæði börn og fullorðnir, taki sér bók í hönd og lesi í u.þ.b. 40 mínútur. Þá þurfa allir að passa að hafa bókina sína meðferðis og svo má hreiðra um sig þar sem hver vill – og lesa. Ef eldri börnin langar til að lesa með þeim yngri (eða öfugt), þá er það frjálst. Ef einhvern langar til að kúra frammi á gangi eða inni á bókasafni og lesa, þá má það líka. Fullorðna fólkið ætlar líka að lesa en það ætlar jafnframt að fylgjast með börnunum og gæta þess að allir hafi frið til að lesa, hvar sem þeir hafa komið sér fyrir. Það eina sem ekki má, er að lesa ekki, því að allir ætla að taka þátt og eiga notalega, sameiginlega lestrarstund í skólanum.

Tónlist fyrir alla

Laufey Sigurðardóttir og Páll Eyjólfsson munu á morgun halda tónleika fyrir nemendur G.Í. í sal skólans á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Þau hafa á undanförnum árum komið fram á fjölda tónleika í grunnskólum um allt land. Þau kynna hljóðfærin sín, og fara síðan í smá tónlistarlegt "ferðalag" sem hefst á Ítalíu, landi fiðlunnar og leika tónlist eftir Vivaldi og fiðlusnillinginn Paganini. Þaðan liggur leiðin til Spánar, lands gítarsins, og spila þau m.a. verk eftir Sarasate, Ibert (lag með spænskum áhrifum) og kynna gítarinn sem upprunalega er spænskt alþýðuhljóðfæri og leika Flamenco tónlist. Frá Íslandi er m.a. leikin tónlist eftir Pál Ísólfsson og Þorkel Sigurbjörnsson og svo er endað í Argentínu með seiðandi tango.


Meira

Grease

Leikfélag MÍ frumsýnir söngleikinn Grease á n.k. föstudag í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Leikhópurinn ætlar að heimsækja 8. - 10. bekk á morgun kl. 10:00 og sýna eitt atriði úr uppfærslunni í sal skólans og verður því örugglega vel tekið.

Vilborgarþema

Undanfarin ár hefur skólinn valið eitt tiltekið ljóðskáld eða rithöfund og nemendur unnið með texta þess á fjölbreyttan hátt. Í fyrra var það Megas og árið 2010 varð Davíð Stefánsson frá Fagraskógi fyrir valinu.

 

Nú er röðin komin að Vilborgu Dagbjartsdóttur, en hún er án efa á meðal þekktustu ljóðskálda landsins. Hún er einnig virtur og mikilvirkur þýðandi og barnabækur hennar eru löngu orðnar sígildar. Þess má einnig geta að Vilborg var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2000 þegar hún hlaut riddarakross fyrir fræðslu og ritstörf.

Næsta vika verður tileinkuð verkum hennar og verður afrakstur þeirrar vinnu vonandi sýnilegur á veggjum skólans.

 

Samstarfsverkefni G.Í. og Tónlistarskóla Ísafjarðar

Núna eftir áramótin fóru Grunnskólinn á Ísafirði og Tónlistarskóli Ísafjarðar af stað með blásaraverkefni í 5.bekk undir stjórn Madis Mäekalle. Allir 36 nemendur árgangsins  sækja þá tíma á kornett og klarinett, fjórir krakkar í einu, tvisvar í viku. Þannig fá allir þessir krakkar tækifæri til að kynnast hljóðfæraleik.  Skólarnir hafa áður starfað saman að svipuðum verkefnum en ekki síðan kreppan skall á.
Nemendur eru mjög ánægðir með þessa tíma og vonandi verður áframhald á þessu samstarfsverkefni.

Samstarf foreldra og skóla í lífsleikni

Í dag hóf 9. bekkur samstarf við foreldra í lífsleikni. Einn hópur fór í heimsókn til Finnboga Sveinbjörnssonar í Verkvest og annar hópur fékk Sigurð Jónsson ( Búbba ) frá Borea Adventures til að segja frá þeirra starfi. Voru þetta mjög skemmtilegir og jákvæðir tímar og munu fleiri foreldrar hitta nemendurna á næstu vikum.

Frábær árangur hjá Hákoni og Elenu Dís á gönguskíðum

Hákon Jónsson, frá Skíðafélagi Ísfirðinga, varð í fyrsta sæti í 5 km hefðbundinni göngu karla 15-16 ára í Team Sportia Cup (Fis Junior Tävling) mótinu sem haldið var í Ulrichamn í Svíþjóð um helgina. Þá varð Elena Dís Víðisdóttir, einnig frá Skíðafélagi Ísfirðinga, í öðru sæti í 5 km hefðbundinni göngu kvenna 15-16 ára á sama móti, að því er fram kemur á www.bb.is.  

 

Þau Hákon og Elena Dís eru bæði nemendur í 10. bekk GÍ og óskum við þeim innilega til hamingju með góðan árangur.

Maskaböll

1 af 3

Það er mikið um allskonar kynjaverur á göngum skólans í dag, enda hinn eini sanni maskadagur. Nemendur í 1. - 7. bekk mættu í þremur hópum í sal skólans á hin hefðbundnu maskaböll og var mikil gleði og stemmning eins og sjá má á þessum myndum.
Á morgun er svo starfsdagur kennara og geta nemendur því sofið út eftir annasaman dag.

Sjálfsmatsskýrsla G.Í.

Lögum samkvæmt ber grunnskólum skylda til að birta sjálfsmatsskýrslu einu sinni á ári. Fyrsta skýrsla G.Í. í vetur er nú komin hér inn á síðuna undir hnappnum útgefið efni - skýrslur.

Náttfatanótt

Félagsmiðstöðin Djúpið heldur sína árlegu náttfatanótt mánudaginn 20. febrúar fyrir unglingastig skólans í Sundhöllinni. Eins og fyrr mun þessi viðburður standa alla nóttina, allt húsið verður nýtt og margt að gerast.

Meðal annars  verður boðið upp á kvikmyndir og þætti á sitthvorum skjávarpanum, playstation herbergi, ball, trúbador, sund, tarzanleik, feluleik, sítrónukappát, draugasögur og margt fleira . Boðið verður upp á aðstöðu þar sem að krakkarnir geta lagt sig og verður sú aðstaða kynjaskipt.

Áætlað er að öllu ljúki um kl 7:00 á þriðjudagsmorgun og á þá allt að vera frágengið og klárt áður en haldið er heim.