VALMYND ×

Fréttir

Koma svo strákar!

Herdís Hübner, kennari við G.Í. skrifar góða grein 7. febrúar s.l.  í veftímaritið Smuguna. Greinina tileinkar hún ungu fólki, sérstaklega ungum feðrum og fjallar hún um mikilvægi lesturs. Við hvetjum alla til að lesa þessa grein en hana má finna hér http://smugan.is/2012/02/koma-svo-strakar/

Foreldradagur

Á miðvikudaginn, 8. febrúar, er foreldradagur og því engin kennsla. Þann dag mæta nemendur með sínum forráðamönnum  í viðtöl til síns umsjónarkennara samkvæmt úthlutuðum viðtalstíma, sem sendur var heim í dag ásamt vitnisburði haustannar.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn verður haldinn hátíðlegur í níunda sinn þann 7. febrúar næstkomandi. Þemað í ár er „Tengjum kynslóðir” og munu yfir 60 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag þar sem til umfjöllunar verða ýmis verkefni þar sem tæknin tengir kynslóðir saman. Áhersla verður lögð á að kynslóðir miðli af þekkingu sinni og reynslu milli kynslóða, en þannig má stuðla að jákvæðri og öruggri notkun Netsins.


Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda Insafe netverkið (www.saferinternet.org), og nærri 40 önnur lönd munu þennan dag leiða saman ungt fólk og fullorðna til þess að vekja athygli á og ræða um Netið. Netverkið hefur látið framleiða stutta auglýsingu til þess að styðja við átakið, en hún verður aðgengileg á Netinu (www.saft.is ) og sýnd í sjónvarpi næstu daga.

Fréttabréf janúarmánaðar

Þriðja fréttabréf skólaársins hefur nú litið dagsins ljós. Það má finna hér á síðunni ásamt áður útgefnum fréttabréfum.

Dagur stærðfræðinnar

Félag stærðfræðikennara stendur fyrir svokölluðum Degi stærðfræðinnar  fyrsta föstudag í febrúar og í ár ber hann upp á 3. febrúar. Margir leik-, grunn- og framhaldsskólar hafa haldið daginn hátíðlegan undanfarin ár. Markmiðið með þessum degi er að vekja nemendur og aðra til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu. Einnig að fá nemendur til að koma auga á möguleika stærðfræðinnar og sjá hana í víðara samhengi.

Foreldrafélag G.Í. á heimasíðu skólans

Foreldrafélag skólans hefur nú fengið undirsíðu hér á vefnum. Þar mun stjórn félagsins miðla upplýsingum til foreldra s.s. fundargerðum o.fl. Ný stjórn tók við félaginu í haust og er Thelma Hjaltadóttir nýr formaður þess.

Góður árangur á skíðum

Helgina 21.-22. janúar fór fram bikarmót í alpagreinum 13-14 ára á Akureyri. Bestum árangri náðu Helga Þórdís Björnsdóttir sem var í 4. sæti 13 ára stúlkna bæði í svigi og stórsvigi og Friðrik Þórir Hjaltason sem var í 4. sæti í svigi og 5. sæti í stórsvigi 13 ára drengja. Helga Þórdís og Friðrik eru bæði nemendur í 8. bekk G.Í. og óskum við þeim að sjálfsögðu til hamingju með árangurinn. (www.snjor.is)

Viðurkenningar afhentar fyrir Brúarverkefni

Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Sara Björgvinsdóttir og Maksymilian Haraldur Frach
Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Sara Björgvinsdóttir og Maksymilian Haraldur Frach

Í síðustu viku voru afhentar viðurkenningar fyrir svokallað Brúarverkefni í dönsku, sem 10. bekkur G.Í. tók þátt í fyrir áramótin. Verkefni þetta var samskiptaverkefni íslenskra grunnskólanemenda sem leggja stund á dönsku, sænsku og norsku og samlanda þeirra er sækja íslenskukennslu á Norðurlöndunum. Markmiðið var að stuðla að notkun norrænna tungumála og samvinnu nemenda á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í gegnum skapandi viðfangsefni á neti.

Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 3. - 4. sæti með myndbandið Tónlistin okkar. Í myndbandinu kynntu krakkarnir tónlist sem eitt aðaláhugamál þeirra og spiluðu á píanó og fiðlu. Þátttakendur voru þau Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Maksymilian Haraldur Frach, Sara Björgvinsdóttir og Sigríður Salvarsdóttir, undir leiðsögn dönskukennaranna sinna, þeirra Ölmu Frímannsdóttur, Guðríðar Sigurðardóttur og Kristínar Ólafsdóttur.

Sólarkaffi

1 af 2

Þrátt fyrir leiðindaveður á sjálfan sólardag okkar Ísfirðinga, þá létu nemendur það ekki aftra sér frá því að gæða sér á pönnukökum. Krakkarnir í 5. bekk gerðu pönnsunum góð skil og gripu í spil í óveðrinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Fleiri myndir eru komnar inn á bekkjarsíðu árgangsins.

Samfés frestað

Vegna mikillar ófærðar hefur verið ákveðið að fresta Vestfjarðakeppni Samfés sem halda átti í Súðavík 27. janúar til föstudagsins 3. febrúar n.k.