VALMYND ×

Fréttir

Menningarkvöld 10. bekkjar

Miðvikudaginn 21. mars ætlar 10. bekkur að halda menningarkvöld í sal skólans. Skemmtunin hefst klukkan 20:00 og er aðgangseyrir 1000 kr. en innifalið er kaffihlaðborð. Á dagskránni verður ljóðalestur á ýmsum tungumálum, hljóðfæraleikur, söngur o.fl. Skemmtunin er fyrir unga jafnt sem aldna og allir hvattir til að mæta.

Úrslit í Freestyle

Danshópurinn Wild girls sigraði í Freestyle dansi. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
Danshópurinn Wild girls sigraði í Freestyle dansi. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Danshópurinn Wild girls úr 6. bekk dansaði til sigurs í Freestylekeppninni sem haldin var s.l. miðvikudag undir stjórn Evu Friðþjófsdóttur. Stelpurnar sjö sem skipa danshópinn eru þær Anna María Daníelsdóttir, Auður Líf Benediktsdóttir, Birta Rós Þrastardóttir, Guðrún Kristín Kristinsdóttir, Ína Guðrún Gísladóttir, Jóhanna Jóhannsdóttir og Sara Dögg Ragnarsdóttir.

Í 2. sæti var danshópurinn Stormurinn, en það voru þau Birgitta Brá Jónsdóttir, Bjarni Pétur Marel Jónasson, Einar Torfi Torfason og Tatjana Snót Brynjólfsdóttir.

Í 3. sæti var svo hópurinn Kók í dós, þau Birgitta Brá Jónsdóttir, Jóhanna Ósk Gísladóttir, Lára Sigrún Steinþórsdóttir og Tatjana Snót Brynjólfsdóttir.

Auk keppenda sýndu tvær stúlkur úr 10. bekk, þær Guðmunda Líf Gísladóttir og Kristín Harpa Jónsdóttir þrjá dansa. Ásgeir Kristján Karlsson úr 9. bekk og Baldur Björnsson úr 8. bekk röppuðu lagið Smekklegt sem þeir fluttu í Samfés keppninni í fyrri mánuði, auk þess sem sigurvegarar Freestyle keppninnar frá í fyrra stigu dans. Kynnar voru þær Guðmunda Líf Gísladóttir, Isabel Alejandra Diaz og Kristín Harpa Jónsdóttir.
Dómnefndinni var vandi á höndum að gera upp á milli þeirra fimm frábæru danshópa sem tóku þátt í þetta sinn, enda stóðu þeir sig allir með stakri prýði. Dómarar voru þau Atli Þór Gunnarsson, Erla Sighvatsdóttir, Henna-Riika Nurmi og Margrét Lilja Vilmundardóttir. Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með árangurinn.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun voru valdir sex nemendur úr 7. bekk til að keppa fyrir hönd skólans á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar, sem haldin verður í Hömrum fimmtudaginn 22. mars n.k. kl. 20:00.
Fulltrúar skólans verða:

Elías Ari Guðjónsson, Eva Rún Andradóttir, Hákon Ernir Hrafnsson, Linda Marín Kristjánsdóttir, Ólöf Dagmar Guðmundsdóttir og Sonia Ewelina Mazur. Til vara verða þau Birta Dögg Guðnadóttir og Sigurður Arnar Hannesson.

Alls voru þrettán nemendur sem spreyttu sig í morgun og stóðu sig allir með stakri prýði. Dómarar voru þau Halldóra Björnsdóttir, Helga S. Snorradóttir og Ólafur Örn Ólafsson.

10. bekkur heimsækir Menntaskólann

Í síðustu viku heimsóttu námsráðgjafar Menntaskólans á Ísafirði, þær Guðrún Stefánsdóttir og Stella Hjaltadóttir 10. bekk og kynntu námsframboð að loknum grunnskóla. Nú er komið að 10. bekk að heimsækja M.Í. og fer árgangurinn fimmtudaginn 15. mars kl. 13:30.

Keppni í Freestyle

Miðvikudaginn 14. mars verður haldin keppni í Freestyle dansi í sal skólans. Nemendur úr 6. og 7. bekk munu reyna með sér, en þeir hafa æft undanfarið undir stjórn Evu Friðþjófsdóttur danskennara.
Keppnin hefst kl. 17:30 og er aðgangseyrir kr. 500 og allir velkomnir.

Vísindavika

Þessa vikuna er vísindavika hér í skólanum og hefur starfsfólk skólasafnsins sett upp sýningu á vísindatengdu efni. Í tengslum við vísindavikuna verða nokkrir árgangar í beinum tengslum við samfélagið og heimsækja snjóflóðasetrið og Hafró og einn árgangur verður í samskiptum við Vísindavefinn.

Uppskeruhátíð tónlistarskólanna

Uppskeruhátíð tónlistarskólanna, Nótan, var haldin í dag í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Frá Tónlistarskóla Ísafjarðar kepptu bræðurnir Nikodem Júlíus Frach í einsöng og Mikolaj Ólafur Frach á píanó.  
Nikodem Júlíus, sem er nemandi í 4. bekk G.Í.  fékk sérstaka viðurkenningu fyrir góðan söng. Mikolaj Ólafur, nemandi í 6. bekk G.Í. var valinn til að keppa fyrir hönd Vesturlands og Vestfjarða á lokatónleikum hátíðarinnar sem haldnir verða í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 18. mars n.k. 

Þetta er svo sannarlega glæsilegur árangur hjá þessum ungu bræðrum og óskum við þeim innilega til hamingju með frábæra frammistöðu.

Skólahreysti

Krakkarnir okkar unnu sinn riðil í Skólahreystinni og eru því komnir í úrslit. Við óskum þeim til hamingju með frábæran árangur.

Skólahreysti

Á morgun mun G.Í. taka þátt í riðlakeppni Skólahreysti MS sem fram fer í Íþróttahúsinu Austurbergi í Reykjavík. G.Í. keppir í 1. riðli með Vestfjörðum og Vesturlandi og hefst keppnin kl. 13:00.

Keppendur G.Í. þetta árið eru þau  Hálfdán Jónsson sem keppir í upphífingum og dýfum, Sigrún Gunndís Harðardóttir keppir í hreystipgreip og armbeygjum og þau Natalía Ösp Ómarsdóttir og Elvar Ari Stefánsson keppa í hraðaþraut. Til vara eru þau Patrekur Brimar Viðarsson og Elín Ólöf Sveinsdóttir. Allt eru þetta nýir keppendur fyrir utan Hálfdán sem tók þátt í fyrra og stóð sig frábærlega ásamt sínum félögum, en eins og allir muna þá lenti G.Í. í 3. sæti lokakeppninnar í fyrra. Þess má geta að allir þessir krakkar hafa verið að æfa á fullu síðan í haust í sérstöku Skólahreystivali hjá íþróttakennurum skólans.

Ef G.Í. sigrar þennan riðil, þá kemst liðið áfram í lokakeppnina sem verður í Laugardalshöll í apríl. Við óskum keppendunum að sjálfsögðu góðs gengis og fylgjumst vel með gangi mála.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu keppninnar, www.skolahreysti.is


Útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal miðvikudaginn 7. mars fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 9:30-13:00. 

Við förum þess á leit við ykkur, ágætu foreldrar/forráðamenn, að þið keyrið börnin ykkar á skíðasvæðið og sækið þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir foreldrar auðvelt með að keyra börnin sín og viljum við biðja þá foreldra, sem ekki hafa tök á að keyra barnið sitt,  eða koma því í bíl með öðrum að hafa samband við skólann í síðasta lagi fyrir hádegi þriðjudaginn 6. mars  svo við getum útvegað öllum far.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 2000 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar en lyfturnar loka kl. 13:00 og þá verða allir að fara heim. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru í áskrift í mötuneytinu.  Aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma en þeir sem ekki eiga geta fengið þá lánaða á staðnum.

Þeir nemendur sem eiga lyftukort eru beðnir að hafa þau með sér, til að flýta fyrir afgreiðslu á svæðinu.

Foreldrar eru alltaf velkomnir með á útivstardaga skólans og skíðandi foreldrar vel þegnir.