VALMYND ×

Fréttir

3. bekkur í sveitaferð

1 af 2

Í fyrradag fór 3. bekkur í sveitaferð að Hólum í Dýrafirði. Krakkarnir fengu að skoða fjárhúsin og allir sem vildu fengu að halda á lambi og gefa kindum heytuggu. Að því loknu buðu ábúendur upp á kökur og djús.  Krakkarnir voru svo heppnir að sjá kind bera og var það magnað augnablik fyrir hópinn að sjá nýtt lamb koma í heiminn og fóta sig fyrstu mínútur lífsins, hvernig ærin karar lambið og það reynir að standa upp í fyrsta sinn.  

Eftir heimsóknina í fjárhúsin var veðurathugunarstöðin skoðuð.  Á heimleiðinni var svo staldrað við í Holtsfjöru, borðað nesti og leikið sér í alls konar leikjum í fjörunni.  

Það voru sælir krakkar sem komu heim í skóla eftir velheppnaða ferð og kunna þau Friðbert og Ástu á Hólum bestu þakkir fyrir góðar móttökur. 

10. bekkur á heimleið

Nú er 10. bekkur á heimleið frá Bakkaflöt í Skagafirði og er væntanlegur til Ísafjarðar um kl. 17:00.

Samstarfsverkefni T.Í. og G.Í.

Lúðrasveitir T.Í. ásamt nokkrum nemendum 5. bekkjar (mynd: T.Í.)
Lúðrasveitir T.Í. ásamt nokkrum nemendum 5. bekkjar (mynd: T.Í.)

Eftir áramótin fóru Grunnskólinn á Ísafirði og Tónlistarskóli Ísafjarðar af stað með blásturshljóðfæraverkefni í 5. bekk undir stjórn Madis Mäekalle. Allir 36 nemendur árgangsins  sóttu þá tíma á kornett og klarinett, fjórir krakkar í einu, tvisvar í viku. Þannig fengu allir þessir krakkar tækifæri til að kynnast hljóðfæraleik og samspili. Verkefninu lauk svo með því að nokkrir þessara nemenda spiluðu á tónleikum með lúðrasveitum T.Í. á tónleikum 9. maí s.l. og var það mikil upplifun og reynsla fyrir þessar krakka. 

Nemendur 5. bekkjar voru mjög ánægðir með þessa tíma í vetur og vonandi verður áframhald á samstarfsverkefni skólanna.

Háskóli unga fólksins

Föstudaginn 25. maí mun Háskóli unga fólksins heimsækja skólann og halda námskeið fyrir 7. - 9. bekk. Boðið verður upp á efnafræði, líffræði, mannfræði, fornleifafræði, japönsku, þjóðfræði og stjörnufræði.

Háskóli unga fólksins er hluti af Háskólalestinni sem verða mun hér á Ísafirði um helgina, þar sem boðið verður upp á fyrirlestur um forsetakosningarnar 2012 og vísindaveislu í Edinborgarhúsinu á laugardaginn kl. 12 - 16. Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Vorferðalag 10. bekkjar

Í gær þreyttu 10. bekkingar sitt síðasta próf í grunnskóla. Við tekur vorferðalag árgangsins, en á mánudagsmorgun verður lagt af stað kl. 8:15 frá Torfnesi,  norður á Bakkaflöt í Skagafirði. Dvalið verður í Skagafirðinum fram á fimmtudag og ýmislegt sér til gamans gert. Farið verður í flúðasiglingu, litabolta, þrautir, sund í hinni margrómuðu sundlaug á Hofsósi, rúntað um Skagafjörð, haldnar kvöldvökur og fleira.

Hópurinn áætlar heimkomu seinnipart fimmtudags.

Ferðaskrifstofa opnuð í 6. bekk

Olga skólastjóri kynnti sér m.a. Færeyjar
Olga skólastjóri kynnti sér m.a. Færeyjar

Í gærmorgun opnaði 6. bekkur ferðaskrifstofu í tengslum við nám sitt um Norðurlöndin. Krakkarnir skiptu löndunum á milli sín og kynntu hvert land fyrir sig fyrir samnemendum, starfsfólki skólans og öðrum gestum sem sáu sér fært að líta við. Einnig buðu krakkarnir upp á léttar veitingar í tilefni opnunarinnar.

Það er alltaf gaman að sjá hversu fjölbreyttar kennsluaðferðir eru innan skólans og án efa eykur það áhuga og virkni nemenda.

Bolungarvíkurferð hjá 5. bekk

Kolfinna Íris Rúnarsdóttir og Jakob Daníelsson skrifuðu smásögu í sandinn
Kolfinna Íris Rúnarsdóttir og Jakob Daníelsson skrifuðu smásögu í sandinn
1 af 2

Ein af hefðunum í skólastarfinu er sú að 5. bekkur heimsæki Náttúrugripasafnið í Bolungarvík og var sú ferð farin í morgun í blíðviðrinu. Nemendur unnu fjölbreytt verkefni á safninu, enda mikið að sjá og rannsaka s.s. þörunga,  fjölmargar tegundir fugla, sjávardýr, spendýr og ýmislegt fleira.

Eftir góða stund á safninu og hressingu var haldið í fjöruferð fyrir innan kaupstaðinn. Þar var ýmislegt sér til gamans gert. Sumir léku sér í flæðarmálinu, skoðuðu rekavið, eða tíndu skeljar og kuðunga. Aðrir voru mjög skapandi í listaverkum í sandinn og leit m.a.s. ein smásaga dagsins ljós. Því miður er ekki víst að hún lifi lengi í sandinum, en hún er einnig til skráð og á ljósmyndum eins og sjá má á myndum inni á heimasíðu árgangsins.

Það voru blautir og sælir krakkar sem fóru heim um hádegisbilið eftir góðan dag í Bolungarvík.

Danssýningar

Nú er vordagskráin hafin með öllum sínum fjölbreytileika í skólastarfinu. Danssýningar eru á sínum stað og eru 1. og 2. bekkur búnir að sýna dansfimi sína. Á föstudaginn er svo röðin komin að 3. bekk og svo koll af kolli upp í 7. bekk.

Við hvetjum foreldra og aðra til að koma og sjá þessar fjölbreyttu danssýningar, en þeirra er getið á vikuáætlunum og/eða bekkjarsíðum árganganna.

Fjölmenni við opnun myndlistarsýningar

Ein af myndunum á sýningunni
Ein af myndunum á sýningunni

Margt var um manninn í Hamraborg í morgun, þegar Ómar Karvel Guðmundsson opnaði sína fyrstu myndlistarsýningu. Á sýningunni getur að líta fjölbreytt myndverk sem Ómar hefur unnið á undanförnum árum. Sýningin verður opin út mánuðinn og hvetjum við alla til að líta við og njóta verkanna.

Myndlistarsýning í Hamraborg

Ómar Karvel Guðmundsson og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri
Ómar Karvel Guðmundsson og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri

Á morgun, föstudaginn 11. maí, opnar Ómar Karvel Guðmundsson nemandi í 10. bekk G.Í. myndlistarsýningu í Hamraborg á Ísafirði kl. 10:00. Sýning þessi stendur yfir út mánuðinn og er fyrsta einkasýning Ómars Karvels og jafnframt útskriftarsýning hans frá Grunnskólanum á Ísafirði. Á sýningunni getur að líta sýnishorn af verkum hans í skólanum undanfarin ár.

 

Ómar Karvel er 15 ára, fæddur 20. júlí 1996. Hann var snemma greindur með ódæmigerða einhverfu og málþroskaröskun og hefur þurft aðstoð í námi í samræmi við fötlun sína. Myndlist hefur alla tíð verið sérsvið Ómars Karvels og hefur hann í gegnum tíðina þróað þann hæfileika sinn í myndmenntatímum árgangsins undir leiðsögn Péturs Guðmundssonar myndmenntarkennara og hvenær sem tækifæri hefur gefist, bæði heima og í skóla. Þegar Ómar Karvel hóf nám í 9. bekk var ákveðið að styðja enn frekar við myndlistarnám hans með vikulegri einkakennslu og hefur Valgerður Gísladóttir myndmenntarkennari sinnt þeirri kennslu frá þeim tíma.

 

Í gær var síðasti hefðbundni skóladagur Ómars Karvels og annarra 10. bekkinga í GÍ en við taka próf, skólaferðalag og fleira. Á þeim tímamótum afhenti Ómar Karvel skólanum tekassa að gjöf, sem hann smíðaði sjálfur og tók Sveinfríður Olga Veturliðadóttir við gjöfinni.