VALMYND ×

Fréttir

Samstarfsverkefni G.Í. og Tónlistarskóla Ísafjarðar

Núna eftir áramótin fóru Grunnskólinn á Ísafirði og Tónlistarskóli Ísafjarðar af stað með blásaraverkefni í 5.bekk undir stjórn Madis Mäekalle. Allir 36 nemendur árgangsins  sækja þá tíma á kornett og klarinett, fjórir krakkar í einu, tvisvar í viku. Þannig fá allir þessir krakkar tækifæri til að kynnast hljóðfæraleik.  Skólarnir hafa áður starfað saman að svipuðum verkefnum en ekki síðan kreppan skall á.
Nemendur eru mjög ánægðir með þessa tíma og vonandi verður áframhald á þessu samstarfsverkefni.

Samstarf foreldra og skóla í lífsleikni

Í dag hóf 9. bekkur samstarf við foreldra í lífsleikni. Einn hópur fór í heimsókn til Finnboga Sveinbjörnssonar í Verkvest og annar hópur fékk Sigurð Jónsson ( Búbba ) frá Borea Adventures til að segja frá þeirra starfi. Voru þetta mjög skemmtilegir og jákvæðir tímar og munu fleiri foreldrar hitta nemendurna á næstu vikum.

Frábær árangur hjá Hákoni og Elenu Dís á gönguskíðum

Hákon Jónsson, frá Skíðafélagi Ísfirðinga, varð í fyrsta sæti í 5 km hefðbundinni göngu karla 15-16 ára í Team Sportia Cup (Fis Junior Tävling) mótinu sem haldið var í Ulrichamn í Svíþjóð um helgina. Þá varð Elena Dís Víðisdóttir, einnig frá Skíðafélagi Ísfirðinga, í öðru sæti í 5 km hefðbundinni göngu kvenna 15-16 ára á sama móti, að því er fram kemur á www.bb.is.  

 

Þau Hákon og Elena Dís eru bæði nemendur í 10. bekk GÍ og óskum við þeim innilega til hamingju með góðan árangur.

Maskaböll

1 af 3

Það er mikið um allskonar kynjaverur á göngum skólans í dag, enda hinn eini sanni maskadagur. Nemendur í 1. - 7. bekk mættu í þremur hópum í sal skólans á hin hefðbundnu maskaböll og var mikil gleði og stemmning eins og sjá má á þessum myndum.
Á morgun er svo starfsdagur kennara og geta nemendur því sofið út eftir annasaman dag.

Sjálfsmatsskýrsla G.Í.

Lögum samkvæmt ber grunnskólum skylda til að birta sjálfsmatsskýrslu einu sinni á ári. Fyrsta skýrsla G.Í. í vetur er nú komin hér inn á síðuna undir hnappnum útgefið efni - skýrslur.

Náttfatanótt

Félagsmiðstöðin Djúpið heldur sína árlegu náttfatanótt mánudaginn 20. febrúar fyrir unglingastig skólans í Sundhöllinni. Eins og fyrr mun þessi viðburður standa alla nóttina, allt húsið verður nýtt og margt að gerast.

Meðal annars  verður boðið upp á kvikmyndir og þætti á sitthvorum skjávarpanum, playstation herbergi, ball, trúbador, sund, tarzanleik, feluleik, sítrónukappát, draugasögur og margt fleira . Boðið verður upp á aðstöðu þar sem að krakkarnir geta lagt sig og verður sú aðstaða kynjaskipt.

Áætlað er að öllu ljúki um kl 7:00 á þriðjudagsmorgun og á þá allt að vera frágengið og klárt áður en haldið er heim. 

Maskadagur

Mánudaginn 20. febrúar er maskadagurinn eða bolludagur öðru nafni. Af því tilefni verða grímuböll á sal skólans sem hér segir:

1. – 3. bekkur kl. 8:20-9:10
4. -5. bekkur kl. 10:20-11:00
6. og 7. bekkur kl. 13:20-13:50

Nemendur og starfsfólk eru margir hverjir í grímubúningum þennan dag og verður gaman að sjá allar þær furðuverur sem verða á ferli.
Þriðjudaginn 21. febrúar er svo starfsdagur kennara án nemenda og engin kennsla.

Rósaball

10. bekkur stendur fyrir hinu árlega Rósaballi á morgun, föstudaginn 17. febrúar í sal skólans.
Húsið opnar kl. 19:30 og stendur gleðin frá kl. 20:00 - 23:30.

Hefð er fyrir því að strákar bjóði stelpum á ballið, en einnig mega nemendur bjóða með sér samnemendum af sama kyni.
Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir einstaklinga, en kr. 1.500 fyrir pör.

Sjálfsstyrkingarnámskeið hjá 10. bekk

Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur frá Foreldrahúsi/vímulausri æsku, hefur undanfarna daga haldaið námskeið í sjálfsstyrkingu fyrir nemendur 10. bekkjar. Vinnan er einn þáttur í vímuefnaforvörnum á vegum Vá Vesthópsins en um er að ræða forvarnavinnu með þeirri nálgun að vinna með sjálfsvirðingu, sjálfsmat, sjálfstraust, tilfinningar, samskipti og fleira. Þetta er í þriðja sinn sem árgangurinn fær námskeið af þessu tagi og hafa nemendur látið mjög vel af því.

Eldvarnarátak

Slökkviliðmenn heimsóttu krakkana í 3. HA í síðustu viku í   tilefni þess að  Maja  Weronika Zietek var dregin út í verðlaunasamkeppni í tengslun við Eldvarnarátak Landssamband Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna. Maja fékk  afhent verðlaun og viðurkenningskjal af þessu tilefni. Krakkarnir voru stoltir af Maju  og samglöddust henni, en þau  tóku öll þátt í þessari samkeppni og stóðu sig með prýði.