Valgreinar á miðstigi
Í vetur líkt og undanfarin ár er boðið upp á 3 tíma í svokölluðum Hræringi, eða valgreinum á miðstigi. Hræringurinn er kenndur í fjórum lotum, sem þýðir það að hver nemandi kemst í 8 valgreinar yfir veturinn. Á hverju ári er reynt að brydda upp á nýjungum meðfram rótgrónum og vinsælum viðfangsefnum. Í vetur bjóðum við upp á Bestu lögin, Borðspil, FabLab, Frjálsar íþróttir, Hreyfingu og fræðslu, Leiklist, Listsköpun með pappamassa, Útivist í nærumhverfi, Sprengjum ímyndunaraflið (tilraunasmiðja), og Ræktun: íslenskur matur og menning. Allar þessar greinar eru kenndar á miðvikudögum í tvöfaldri kennslustund.
Á föstudögum er svo einfaldur tími, þar sem boðið er upp á: Gefðu gömlum fötum nýtt líf, Klassíska list, Lestur og hlustun, Pílu, Skák, Skólahreysti, Skrautskrift, Tálgun og útskurð, Útivist og leiki og Ævintýrasmiðju - lífsleikni og hópefli.
Eins og sjá má á framangreindum lista eru viðfangsefnin fjölbreytt og reynir á lykilhæfni s.s. tjáningu, skapandi og gagnrýna hugsun, sjálfstæði og samvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Það er reynsla okkar af Hræringnum að nemendur kunni vel að meta hann og hann hjálpi nemendum að finna og efla sín áhugasvið.
Deila