Öflug ungmenni styrkja Sigurvon
Krabbameinsfélagið Sigurvon fékk á dögunum rausnarlega gjöf frá nemendum sem á síðasta skólaári voru í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði en stíga nú sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Afhentu þau Sigurvon 125 þúsund krónur og vilja með því leggja sitt af mörkum til að styrkja starfsemi félagsins. Peningarnir eru afgangur af ferðasjóði sem krakkarnir söfnuðu síðasta vetur til að fjármagna vorferð 10. bekkjar sem farin var í lok maí sl. í Skagafjörð. Voru krakkarnir svo öflugir í fjáröfluninni að peningarnir dugðu fyrir öllum útlögðum kostnaði við ferðina og vel það. Um 125 þúsund krónur stóðu eftir þegar allir reikningar höfðu verið borgaðir og urðu krakkarnir sammála um að Sigurvon fengi þá peninga. Vilja þau koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem styrktu þau í fjáröfluninni síðasta vetur, m.a. með því að mæta á viðburði sem haldnir voru í nafni 10. bekkjar og með kaupum á rækjum, kökum, dagatölum og ýmsu öðru.
Deila