VALMYND ×

Fréttir

Öskudagur

Í dag er öskudagur og þar með hefst langafasta. Nafnið öskudagur á rætur að rekja til þess að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir iðrandi kirkjugesti. Sennilega á sá siður að hengja öskupoka á fólk rætur í þessum kaþólska sið, því hér áður fyrr settu krakkar ösku í pokana.

Á Íslandi er heitið öskudagur þekkt frá því á 14. öld. Nú á dögum klæðast krakkar víða um land grímubúningum þennan dag. Þeir ganga í verslanir og stofnanir og syngja fyrir starfsfólk í þeirri von að fá góðgæti að launum fyrir sönginn. Það getur líka verið gaman að búa til öskupoka og ennþá skemmtilegra að hengja þá á fólk eins og sést á meðfylgjandi mynd. 

 

Í dag er blíðskaparveður sem veit á gott, þar sem öskudagur er talinn eiga 18 bræður eins og fram kemur í eftirfarandi vísu: 


Öskudagsins bjarta brá,

bætti úr vonargögnum,

þar hann bræður átján á,

eptir gömlum sögnum.

Spurningakeppni grunnskólanna

Baldur Björnsson, Vilmar Ben Hallgrímsson og Dagur Benediktsson
Baldur Björnsson, Vilmar Ben Hallgrímsson og Dagur Benediktsson

Lið Grunnskólans á Ísafirði sigraði lið Grunnskólans á Hólmavík í Spurningakeppni grunnskólanna í gær, sem fór fram í gegnum Skype.  Keppnin var æsispennandi og endaði í bráðabana.  Aðeins tvö lið skráðu sig til keppni frá Vestfjörðum svo að okkar menn fara næst í úrslitakeppnina sjálfa.  Lið G.Í. skipuðu þeir Baldur Björnsson, Vilmar Ben Hallgrímsson og Dagur Benediktsson. Við óskum þeim innilega til hamingju og góðs gengis í úrslitunum.

Líf og fjör á maskadegi

Þessir herramenn léku sér saman
Þessir herramenn léku sér saman
1 af 4

Það hefur svo sannarlega verið líf og fjör í skólanum í dag, á sjálfan maskadaginn. Nemendur jafnt sem starfsfólk mættu í hinum ýmsu gerfum og áttu sumir kennarar jafnvel erfitt með þekkja sinn nemendahóp. Ýmsar persónur og fígúrur mættu í skólann í morgun, s.s. dúkkur, trúðar, indíánar, kúrekar, Lína langsokkur, banani, hermenn og stríðsmenn, superman og svo mætti lengja telja.

Yngstu bekkirnir skemmtu sér saman í morgun við að lita, perla, horfa á teiknimynd o.fl. Loks var slegið upp þremur maskaböllum á sal skólans þar sem allar þessar persónur skemmtu sér saman í sátt og samlyndi. Fjölmargar myndir eru nú komnar hér inn á myndasíðuna.


Á morgun er starfsdagur og eiga nemendur þá frí.

112 dagurinn

112-dagurinn er haldinn um allt land í dag, mánudaginn 11. febrúar. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni verður áherslan á getu almennings til þess að bregðast við á vettvangi alvarlegra slysa og veikinda, að fólk hringi í 112 og veiti fyrstu aðstoð áður en sérhæfð aðstoð berst. 112-dagurinn er haldinn víða um Evrópu á sama tíma en 112 er samræmt neyðarnúmer í löndum Evrópusambandsins.

Maskadagur

Á mánudaginn er maskadagur/bolludagur. Þá hvetjum við alla, nemendur sem starfsfólk til að mæta í búningum og verður gaman að sjá hvaða persónur verða á ferli þann dag. Kennsla verður með hefðbundnum hætti, nema það að sund fellur niður hjá 1. bekk og slegið verður upp þremur maskaböllum á sal skólans.

 

1. – 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:20 - 11:00

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Að sjálfsögðu mega nemendur koma með bollur í nesti á sjálfan bolludaginn.

 

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

 

 

 


Heimanámsstefna G.Í.

Undanfarna mánuði höfum við verið að leita eftir sjónarmiðum allra aðila sem koma að skólastarfinu um markmið og tilgang heimanáms. Hverjar eigi að vera áherslur á hverju stigi og hvaða þætti ætti helst að vinna með.  Komin er niðurstaða bæði frá kennurum og foreldrum og í morgun var fundur með nemendum.  Valdir voru tveir fulltrúar úr hverjum árgangi frá 5. – 10. bekk til að fjalla um heimanámið, sex stelpur og sex strákar.  Umræður meðal nemenda voru málefnalegar og mjög gagnlegt er fyrir okkur að heyra sjónarmið þeirra.  Þeir vilja hafa heimanám en ekki of mikið, hafa líka góðan skilning á því að ef þeir klára ekki verkin sín í skólanum þurfi þeir að gera það heima.  Það sem helst veldur erfiðleikum við heimanámið er tímaskortur því margir krakkar eru óskaplega uppteknir við íþróttaæfingar eða annarskonar tómstundastarf.

Á næstu vikum mun formleg heimanámsstefna verða mótuð í skólanum á grunni þeirra upplýsinga sem liggja fyrir eftir þessa vinnu. 

 

Vinnustofa í byrjendalæsi

1 af 4

Í dag var vinnustofa frá klukkan 11:40 - 13:00 hjá öllum kennurum í 1. - 4. bekk, vegna verkefnisins um byrjendalæsi. Allir nemendur í þessum árgöngum, ásamt nokkrum starfsmönnum og dugmiklum unglingum, fóru gangandi saman upp á Torfnes og áttu skemmtilega stund í íþróttahúsinu þar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

Foreldradagur

Á morgun, miðvikudaginn 6. febrúar, er foreldradagur. Þann dag mæta nemendur í viðtöl hjá umsjónarkennurum sínum ásamt foreldrum/forráðamönnum og farið verður yfir stöðu námsins o.fl. Aðrir kennarar og skólaráðgjafi verða einnig til viðtals ef óskað er eftir því.

Að venju býður 10. bekkur upp á vöfflur á 300 kr. í anddyri skólans, til fjáröflunar fyrir vorferð árgangsins.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er haldinn hátíðlegur í tíunda sinn í dag. Þemað í ár er Réttindi og ábyrgð á netinu og munu yfir 70 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag.

Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda samstarfsnetið Insafe og yfir 40 önnur lönd munu leiða saman ýmsa hagsmunaðila til þess að vekja athygli á og ræða netið frá ýmsum hliðum. Samstarfsnetið hefur látið framleiða stutta auglýsingu til þess að styðja við átakið, en hún verður aðgengileg á netinu og sýnd í sjónvarpi næstu daga.

Lífshlaupið

Grunnskólinn á Ísafirði  hefur ákveðið að taka þátt í Lífshlaupinu 2013, átaks- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Vinnustaðakeppnin og hvatningarleikur grunnskólanna verða ræst miðvikudaginn 6. febrúar og stendur hvatningarleikurinn í tvær vikur, eða til 19. febrúar og vinnustaðakeppnin í þrjár vikur, eða til 26. febrúar.

Megin markmið verkefnisins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Við ætlum að taka þátt í hvatningarleik fyrir grunnskóla þar sem nemendur okkar keppa við aðra skóla um það hvort þeir nái að hreyfa sig í 60 mínútur daglega eða á meðan átakið stendur yfir. Starfsfólk skólans ætlar einnig að taka þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins en einnig er hægt að taka þátt í einstaklingskeppni sem stendur yfir allt árið og hentar Lífshlaupið því fyrir alla. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess.