VALMYND ×

Fréttir

Lúsin komin

Nú hefur höfuðlúsin gert vart við sig í skólanum og hafa foreldrar fengið sendar leiðbeiningar frá skólahjúkrunarfræðingi varðandi viðeigandi ráðstafanir. Lúsin smitast nær eingöngu við beina snertingu og er sáralítil  hætta á að smitast af umhverfinu en það  er þó möguleiki að smitast af greiðum/burstum og höfuðfötum. Lús sem dottið hefur úr höfði verður fljótt löskuð og veikburða og er hún háð hári til að geta hreyft sig úr stað.

Við hvetjum alla til að vera vel vakandi og reyna þannig að uppræta þennan leiða vágest.



 

Jól í skókassa

6. bekkur við afhendingu jólapakkanna í Ísafjarðarkirkju
6. bekkur við afhendingu jólapakkanna í Ísafjarðarkirkju
1 af 4

Þessa dagana hafa 6., 7. og 8. bekkur verið í óðaönn að pakka inn jólagjöfum handa fátækum börnum í Úkraínu á vegum verkefnisins Jól í skókassa. Í morgun voru pakkarnir afhentir sr. Magnúsi Erlingssyni og Elínu H. Friðriksdóttur hjá Ísafjarðarkirkju, sem sjá svo um að koma þeim áfram til Reykjavíkur. KFUM annast svo sendingu þeirra til Úkraínu fyrstu dagana í janúar, en jólin eru haldin hátíðleg þar í landi 6. janúar.

Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna en atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Það voru glaðir krakkar sem afhentu pakkana í kirkjunni í morgun, enda fylgir því góð tilfinning að gleðja aðra. Það má því með sanni segja að sælla er að gefa en þiggja.

Morgunverðurinn - mikilvægasta máltíð dagsins

Salóme Elín Ingólfsdóttir, næringarfræðingur og ráðgjafi mötuneyta Ísafjarðarbæjar, hefur sent frá sér fróðleiksmola varðandi mikilvægi morgunverðar. Við hvetjum alla til að lesa ráðleggingar hennar hér.

Forvarnardagurinn

Forvarnardagur 2012 verður haldinn á morgun, miðvikudaginn 31. október. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Dagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

9. bekkur G.Í. hefur á hverju ári í mörg ár tekið þátt í þessum degi og verður engin undantekning á þetta árið. Unnið verður að verkefnum tengdum deginum í 2-3 kennslustundir og svo geta nemendur tekið þátt í ratleik á netinu og/eða myndbandasamkeppni og eru vegleg verðlaun í boði fyrir hvort tveggja. Nemendur ráða hvort þeir taka þátt í ratleiknum og myndbandasamkeppninni og gera það þá í frítíma sínum. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins.

Þemadögum frestað

Samkvæmt skóladagatali voru áætlaðir þemadagar 1. og 2. nóvember næstkomandi. Vegna slæmrar veðurspár á fimmtudag og föstudag hefur nú verið ákveðið að fresta þeim, en nokkrar stöðvar áttu að vera utan dyra.

Gísli Jörgen valinn í úrtakshóp HSÍ

Gísli Jörgen Gíslason, nemandi í 9. bekk og leikmaður 4. flokks Harðar í handbolta, hefur verið valinn í úrtakshóp 1998 árgangsins á vegum HSÍ. Fyrsta æfingahelgi hópsins fer fram dagana 2. - 4. nóvember næstkomandi.
Það er mikill heiður að vera valinn til þessara æfinga og ljóst að Ísfirðingar eiga fullt af ungu og efnilegu íþróttafólki.

Löng helgi framundan

Á morgun, föstudaginn 26. október er starfsdagur. Mánudaginn 29. október er svo vetrarfrí, þannig að nú er löng helgi framundan hjá nemendum. 

Elín Ólöf á landsliðsæfingar

Elín Ólöf Sveinsdóttir. Mynd: hsv.is
Elín Ólöf Sveinsdóttir. Mynd: hsv.is

Enn bætast ungir og efnilegir Ísfirðingar í hóp þeirra sem æfa með landsliðunum i knattspyrnu. Elín Ólöf Sveinsdóttir, nemandi í 10. bekk G.Í. og leikmaður í meistaraflokki BÍ/Bolungarvíkur, hefur nú verið boðuð á landsliðsæfingar með U-16 landsliði kvenna. Æfingarnar fara fram um næstu helgi í Egilshöll og í Kórnum í Kópavogi, að því er fram kemur á heimasíðu BÍ/Bolungarvíkur.

Sjáumst í vetur

Nú fer dimmasti árstíminn í hönd og mikið myrkur á morgnana. Því viljum við beina því til allra að nota endurskinsmerki til að sjást vel í umferðinni.

Daníel Agnar skrifar undir samning

Samúel Samúelsson formaður BÍ/Bolungarvíkur og Daníel Agnar Ásgeirsson. Mynd: bb.is
Samúel Samúelsson formaður BÍ/Bolungarvíkur og Daníel Agnar Ásgeirsson. Mynd: bb.is

Daníel Agnar Ásgeirsson, nemandi í 10. bekk, hefur nú skrifað undir samning við knattspyrnulið BÍ/Bolungarvíkur. Daníel er Ísfirðingur að upplagi, en hann skipti yfir í lið BÍ/Bolungarvíkur í sumar eftir að hafa leikið með Völsungi á Húsavík síðastliðin tvö ár. Hann var Íslandsmeistari með 3. flokki félagsins í flokki sjö manna liða. Daníel var á dögunum valinn til þess að mæta á úrtaksæfingar hjá U-17 ára landsliði Íslands, en hann er yngsti leikmaður sem hefur samið við meistaraflokk BÍ/Bolungarvíkur að því er fram kemur á fréttavefnum bb.is.