Úrslit í Skólahreysti MS 2013
Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS 2013 fór fram í Laugardalshöll í kvöld að viðstöddu fjölmenni. Þeir 12 skólar sem tryggt höfðu sér þátttökurétt í úrslitunum, öttu kappi í hraðaþraut, hreystigreip, dýfum, armbeygjum og upphífingum.
Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti í úrslitunum og stóðu krakkarnir sig allir með miklum sóma. Um 120 skólar, víðs vegar að af landinu tóku þátt í upphafi og megum við því vera virkilega stolt af þessum úrslitum.
Sigurvegarar keppninnar, þriðja árið í röð, var Holtaskóli í Keflavík. Í öðru sæti varð Breiðholtsskóli og Lindaskóla hafnaði í því þriðja.
Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Friðrik Þórir Hjaltason, Patrekur Brimar Viðarsson, Guðný Birna Sigurðardóttir og Eva Rún Andradóttir. Til vara voru þau Gísli Rafnsson og Elín Ólöf Sveinsdóttir, en þjálfari liðsins er Árni Heiðar Ívarsson. Auk keppenda fór full rúta af stuðningsliði suður í morgun til að standa við bakið á okkar fólki. Það krefst mikils líkamlegs sem og andlegs styrks að takast á við keppni sem þessa, fyrir troðfullri Laugardalshöll í beinni sjónvarpsútsendingu. Það er því mjög mikils virði fyrir keppendur að finna þann stuðning sem þeir fengu í höllinni.
Við óskum krökkunum innilega til hamingju með frammistöðuna og óskum þeim góðrar heimferðar.
Deila