VALMYND ×

Fréttir

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fer fram miðvikudagskvöldið 13. mars n.k. kl. 20:00 í Hömrum. Þar koma fram nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum, sem æft hafa framsögn af kappi í vetur. Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember, og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.

Fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði keppa þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Snjólaug Ásta Björnsdóttir. Til vara eru þau Benedikt Hrafn Guðnason og Guðrún Kristín Kristinsdóttir.

Úrslit í vöruþróunarverkefnum 8. bekkjar

Þátttakendur í verkefninu Frumkvöðlar framtíðarinnar
Þátttakendur í verkefninu Frumkvöðlar framtíðarinnar
1 af 3

Í morgun kynntu nemendur 8. bekkjar vöruhugmyndir sínar og viðskiptaáætlarnir í Þróunarsetri Vestfjarða. Dómnefnd skipuðu Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Ómar Már Jónsson sveitarstjóri í Súðavík, Ásgerður Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Borea Adventure, Arna Lára Jónsdóttir verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Ísafirði og Matthildur Jónu- og Helgadóttir framkvæmdastjóri Snerpu.

Krakkarnir stóðu sig allir mjög vel og töluðu dómararnir sérstaklega um það hversu öruggir þeir voru og faglegir þegar þeir kynntu hugmyndir sínar. Það reyndist dómurunum erfitt að velja einn hóp úr sem sigurvegara. En úrslitin urðu þau að fyrirtækið Kippan Ehf. í eigu Sigurðar Arnars Hannessonar, Elíasar Ara Guðjónssonar, Péturs Tryggva Péturssonar, Jakobs Thorarensen og Dariusz Nesteruk sigraði. Hugmynd þeirra var lyklakippa með mynd af gamla sjúkrahúsinu á og nýjustu fréttir herma að þessir framtakssömu drengir ætla að hefja framleiðslu sem allra fyrst.

Við óskum öllum þessum frumkvöðlum framtíðarinnar innilega til hamingju með sínar vöruhugmyndir og skemmtilega vinnu og eigum eftir að fylgjast vel með þeim í framtíðinni. Fleiri myndir frá keppninni eru komnar inn á síðuna hér vinstra megin og einnig myndband frá úrslitunum.

Kynning á nýsköpunarverkefni

Undanfarnar vikur hefur 8. bekkur verið að vinna að spennandi nýsköpunarverkefni í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og FabLab smiðjuna. Nemendur hafa búið til frumgerð af hlut og gert viðeigandi viðskiptaáætlun. Hugarflugi nemenda eru lítil takmörk sett og verkefnin fjölbreytt og áhugaverð eftir því.

Kynning á verkefnum nemenda verður föstudaginn 8. mars kl. 10 í Þróunarsetri Vestfjarða. Búið er að skipa dómnefnd sem mun velja efnilegustu hugmyndirnar og hvetjum við bæjarbúa til að koma og fylgjast með þessum ungu hugvitsmönnum.

Boðið upp á hafragraut

Í skólanum höfum við oft haft áhyggjur af næringarmálum nemenda, sérstaklega drengja á unglingastigi sem margir borða ekki áður en þeir fara í skólann og fá sér svo jafnvel eitthvað sem inniheldur töluvert magn sykurs í frímínútum.

Því hefur nú verið ákveðið að gera tilraun í marsmánuði með að bjóða upp á hafragraut fyrir þá nemendur sem vilja. Nemendur munu geta farið í mötuneytið á nestistíma og fengið þar hafragraut með mjólk þeim að kostnaðarlausu.

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Foreldraverðlaunanna 2013 sem landssamtökin Heimili og skóli standa fyrir. Verðlaunin verða veitt fyrir metnaðarfullt foreldrastarf sem eflt hefur samstarf foreldra, nemenda og skólafólks og stuðlað að jákvæðum samskiptum heimilis og skóla.

Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins.

Foreldraverðlaun eru veitt til eins verkefnis/viðfangsefnis. Ef dómnefnd hefur þótt ástæða til, hafa jafnframt verið veitt sérstök hvatningar- eða dugnaðarforkaverðlaun. Ekki er þó hægt að tilnefna dugnaðarfork eða tilnefna aðila til hvatningarverðlauna.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra standa fyrir Foreldraverðlaunum en samtökin sjálf, stjórn eða starfsfólk  tilnefna ekki verkefni, heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum. Niðurstöður dómnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem tilnefndu.

Vakin er athygli á að verðlaun eru aðeins veitt til verkefnis/viðfangsefnis sem tilnefnt hefur verið með formlegum hætti  á rafrænu eyðublaði á vefsvæði landssamtakanna.

Gamaldags kaffiboð hjá 2. bekk

Boðið var upp á lummur og kleinur að gömlum íslenskum sið
Boðið var upp á lummur og kleinur að gömlum íslenskum sið
1 af 2

Síðustu þrjár vikur hefur 2. bekkur verið að vinna með gamla tímann í bókunum Ísland áður fyrr. Í dag var var svo lokadagurinn í því verkefni og var því efnt til gamaldags kaffiboðs, með engu kaffi þó. Í boðinu voru gamlir hlutir á sýningarborði sem allir fengu að skoða og prófa. Boðið var upp á lummur og kleinur eins og gert var í gamla daga og mjólk drukkin með sem hver og einn sótti beint í ,,beljuna" sem reyndar er ekki raunveruleg belja, heldur nútímaútgáfa af belju sem skilar af sér ískaldri mjólk.

Þá var einnig boðið upp á húslestur þar sem hlustað var á þjóðsöguna um hana Búkollu. Kennarar mættu svo í prjónuðum flíkum í sauðalitunum.

Þegar þessu var svo lokið var tekið rennsli á árshátíðaratriði árgangsins, sem gengur vel að æfa, en árshátíð skólans verður haldin dagana 21. og 22. mars n.k.

Sjá má myndir úr kaffiboðinu inni á bekkjarsíðu 2. bekkjar.

Skólakeppni stóru upplestrarkeppninnar

Fulltrúar skólans talið frá vinstri: Guðrún Kristín, Lára Sigrún, Anna María, Snjólaug, Pétur Ernir, Birkir og Benedikt Hrafn.
Fulltrúar skólans talið frá vinstri: Guðrún Kristín, Lára Sigrún, Anna María, Snjólaug, Pétur Ernir, Birkir og Benedikt Hrafn.

Grunnskólinn á Ísafirði hefur um árabil tekið þátt í stóru upplestrarkeppninni, sem haldin er ár hvert á meðal nemenda í 7. bekk. Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði og hefur markvisst verið unnið með þá þætti íslenskunnar í árgangnum í vetur og allir því tekið þátt í keppninni sem slíkri.


Í morgun fór skólahluti keppninnar fram á sal skólans, en þar lásu ellefu nemendur upp sögubrot og ljóð og stóðu þeir sig allir með mikilli prýði.  Af þessum ellefu voru svo fimm nemendur valdir áfram til að taka þátt í aðalkeppninni, sem haldin verður í Hömrum miðvikudaginn 13. mars n.k.

Fulltrúar skólans verða þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Snjólaug Ásta Björnsdóttir. Varamenn þeirra verða Guðrún Kristín Kristinsdóttir og Benedikt Hrafn Guðnason.

Dómarar í morgun voru þau Halldóra Rósa Björnsdóttir, Jóna Benediktsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson.

Við óskum þátttakendum öllum til hamingju með árangurinn og bíðum spennt eftir að fylgjast með okkar fulltrúum í lokakeppninni 13. mars.

 

 

 

Skýrsla um innra mat skólans

Í vetur er starfandi sjálfsmatsteymi við Grunnskólann á Ísafirði. Teymið hefur hist að jafnaði einu sinni í viku og undirbúið innra mat á starfsemi í skólanum, lagt upp spurningar og rýnt í niðurstöður þannig að sem mest gagn megi verða af þeim.

Matsverkefni haustannar fjallar um stjórnun skólans, sjónarhorn foreldra, kennara og annarra starfsmanna á bæði innri og ytri stjórnun skólans. Aðeins er fjallað um sjónarhorn nemenda á innri stjórnun. 

Nú er þessi fyrsta matsskýrsla ársins komin út og er Jóna Benediktsdóttir ábyrgðarmaður hennar. Skýrsluna má finna hér.

Góðverkadagar

Krakkarnir í 4. HA hafa verið að taka þátt í góðverkadögum skátanna. Í vikunni fengu allir með sér heim góðverkadagbókina og allir ætla að reyna að gera að minnsta kosti eitt góðverk á dag. 

Markmiðið með góðverkadögum er að bæta mannlífið með hjálpsemi og vináttu – að gera góðverk. Velvildin og vináttan sem felst í að rétta öðrum hjálparhönd, óumbeðið og án skilmála er dýpri og sannari en almenn hjálpsemi eða dagleg aðstoð – við köllum það góðverk. Umbunin getur falist í þakklætisorðum eða einlægu brosi þess sem þiggur, en ríkulegasta umbunin er þó eigin vellíðan yfir að hafa orðið að liði – unnið góðverk. Góðverkin eru eins og frækorn sáðmannsins, sé þeim sáð í frjóan jarðveg, vaxa þau og dafna á undurhraða, fjölga sér og bera ríkulegan ávöxt.

Strákamál dansaði til sigurs

Sigurvegararnir þeir Bergsteinn Snær, Einar Torfi og Bjarni Pétur ásamt Sigrúnu Lísu Torfadóttur, dansþjálfara þeirra. (Mynd: Sigrún Lísa Torfadóttir).
Sigurvegararnir þeir Bergsteinn Snær, Einar Torfi og Bjarni Pétur ásamt Sigrúnu Lísu Torfadóttur, dansþjálfara þeirra. (Mynd: Sigrún Lísa Torfadóttir).

Í dag var keppt í Freestyle dansi í sal skólans. Sjö hópar spreyttu sig á dansgólfinu, en þeir hafa æft stíft undanfarnar vikur undir leiðsögn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur danskennara.

Danshópurinn Strákamál sigraði, en hópinn skipa þeir Bergsteinn Snær Bjarkason, Bjarni Pétur Jónasson og Einar Torfi Torfason, allir úr 7. bekk.

Í öðru sæti urðu Blood girls, en það eru þær Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Tanja Snót Brynjólfsdóttir og Tinna Dögg Þorbergsdóttir, allar úr 7. bekk.

Í þriðja sæti hafnaði danshópurinn MTV, en það eru þær Hildur Karen Jónsdóttir, Lára Albertsdóttir og Nikola Chylinska, en þær koma úr 6. bekk. 

Dómarar að þessu sinni voru þær Aldís Dröfn Stefánsdóttir, Henna Riikka Nurmi og Margrét Lilja Vilmundardóttir.