VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn í Edinborgarhúsið

Í vikunni þáðu nemendur í 5. og 6. bekk heimboð í menningarhúsið Edinborg. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hússins tók á móti nemendum og sagði þeim frá tilgangi menningarhússins.  Einnig kynnti hún margmiðlunarsýninguna Útsýni, sem er verk listakonunnar Kristjönu Rósar Oddsdóttur Guðjohnsen, en sýningin hefur staðið yfir frá því í febrúar.

Nemendur kunnu vel að meta sýninguna og eru margs vísari um hugsun listakonunnar á bak við verkin.

Útivist

Nikola, Gabriela, Hanna Þórey, Kolfinna og Jessica í 6. bekk tilbúnar  að láta sig vaða niður brekkuna.
Nikola, Gabriela, Hanna Þórey, Kolfinna og Jessica í 6. bekk tilbúnar að láta sig vaða niður brekkuna.
1 af 4

Nemendur í 6. - 10. bekk hafa undanfarið fengið svokallað valtímabil í íþróttum. Eitt af því sem þá er í boði er útivist. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hafa krakkarnir notið góða veðursins og renndu sér á ruslapokum niður brekkuna við Seljalandsveginn.

G.Í. sigraði Vestfjarðariðilinn í Skólahreysti

Í dag keppti Grunnskólinn á Ísafirði í Vestfjarðariðli Skólahreystis, ásamt Grunnskólanum á Þingeyri, Grunnskóla Bolungarvíkur og Tálknafjarðarskóla, en keppnin fór fram í íþróttahúsi Breiðabliks í Smáranum í Kópavogi. G.Í. sigraði riðilinn og er því komið áfram í úrslitakeppnina, sem haldin verður innan nokkurra vikna.

Fyrir G.Í. keppa þau Aldís Huld Höskuldsdóttir, Patrekur Brimar Viðarsson, Elín Ólöf Sveinsdóttir og Friðrik Þórir Hjaltason. Gísli Rafnsson og Eva Rún Andradóttir eru varamenn.

Það gekk á ýmsu fyrir keppnina þar sem Aldís Huld meiddist í upphitun og þá þurfti Eva Rún að koma inn fyrir hana. Elín Ólöf tók að sér að fara hraðaþrautina í stað þess að keppa í armbeygjum og hreystigreip eins og til stóð. Þetta hafðist á endanum og krakkarnir stóðu uppi sem sigurvegarar eftir harða keppni við Grunnskólann á Þingeyri sem endaði í öðru sæti, einu stigi á eftir G.Í. og fast þar á eftir komu Bolvíkingar. Fararstjóri og þjálfari liðsins er Atli Freyr Rúnarsson.

Við óskum þátttakendunum öllum innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim í úrslitakeppninni.

Úrslit í stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri: Svanhildur Helgadóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Birkir Eydal
Frá vinstri: Svanhildur Helgadóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Birkir Eydal

Í gærkvöld fór fram lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum. Níu nemendur frá grunnskólum á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt þetta árið, en það eru þeir nemendur sem skarað hafa fram úr í sínum skólum. Fyrir hönd G.Í. tóku þátt þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Snjólaug Björnsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson og stóðu þau sig öll með mikilli prýði.

Skáld keppninnar þetta árið eru þau Friðrik Erlingsson og Þóra Jónsdóttir. Keppendur lásu brot úr sögunni Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson, ljóð eftir Þóru Jónsdóttur og eitt ljóð að eigin vali.

Úrslit urðu þau að Svanhildur Helgadóttir frá Grunnskóla Bolungarvíkur sigraði, í öðru sæti varð Pétur Ernir Svavarsson G.Í. og Birkir Eydal G.Í. hafnaði í því þriðja. 

Dómarar voru þau Halldóra Rósa Björnsdóttir, Ingvar Örn Ákason, Sigrún Sigurðardóttir og Bergur Torfason.

Í hléi var boðið upp á tónlistarflutning 7. bekkinga G.Í. Jóhanna Ósk Gísladóttir lék á fiðlu við undirleik Ivonu Frach, Guðrún Kristín Kristinsdóttir og Ína Guðrún Gísladóttir léku fjórhent á píanó og Mikolaj Frach lék einleik á píanó við góðar viðtökur áheyrenda.

Við óskum öllum þessum krökkum innilega til hamingju með góða frammistöðu.

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fer fram miðvikudagskvöldið 13. mars n.k. kl. 20:00 í Hömrum. Þar koma fram nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum, sem æft hafa framsögn af kappi í vetur. Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember, og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu.

Fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði keppa þau Anna María Daníelsdóttir, Birkir Eydal, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Pétur Ernir Svavarsson og Snjólaug Ásta Björnsdóttir. Til vara eru þau Benedikt Hrafn Guðnason og Guðrún Kristín Kristinsdóttir.

Úrslit í vöruþróunarverkefnum 8. bekkjar

Þátttakendur í verkefninu Frumkvöðlar framtíðarinnar
Þátttakendur í verkefninu Frumkvöðlar framtíðarinnar
1 af 3

Í morgun kynntu nemendur 8. bekkjar vöruhugmyndir sínar og viðskiptaáætlarnir í Þróunarsetri Vestfjarða. Dómnefnd skipuðu Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Ómar Már Jónsson sveitarstjóri í Súðavík, Ásgerður Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Borea Adventure, Arna Lára Jónsdóttir verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Ísafirði og Matthildur Jónu- og Helgadóttir framkvæmdastjóri Snerpu.

Krakkarnir stóðu sig allir mjög vel og töluðu dómararnir sérstaklega um það hversu öruggir þeir voru og faglegir þegar þeir kynntu hugmyndir sínar. Það reyndist dómurunum erfitt að velja einn hóp úr sem sigurvegara. En úrslitin urðu þau að fyrirtækið Kippan Ehf. í eigu Sigurðar Arnars Hannessonar, Elíasar Ara Guðjónssonar, Péturs Tryggva Péturssonar, Jakobs Thorarensen og Dariusz Nesteruk sigraði. Hugmynd þeirra var lyklakippa með mynd af gamla sjúkrahúsinu á og nýjustu fréttir herma að þessir framtakssömu drengir ætla að hefja framleiðslu sem allra fyrst.

Við óskum öllum þessum frumkvöðlum framtíðarinnar innilega til hamingju með sínar vöruhugmyndir og skemmtilega vinnu og eigum eftir að fylgjast vel með þeim í framtíðinni. Fleiri myndir frá keppninni eru komnar inn á síðuna hér vinstra megin og einnig myndband frá úrslitunum.

Kynning á nýsköpunarverkefni

Undanfarnar vikur hefur 8. bekkur verið að vinna að spennandi nýsköpunarverkefni í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og FabLab smiðjuna. Nemendur hafa búið til frumgerð af hlut og gert viðeigandi viðskiptaáætlun. Hugarflugi nemenda eru lítil takmörk sett og verkefnin fjölbreytt og áhugaverð eftir því.

Kynning á verkefnum nemenda verður föstudaginn 8. mars kl. 10 í Þróunarsetri Vestfjarða. Búið er að skipa dómnefnd sem mun velja efnilegustu hugmyndirnar og hvetjum við bæjarbúa til að koma og fylgjast með þessum ungu hugvitsmönnum.

Boðið upp á hafragraut

Í skólanum höfum við oft haft áhyggjur af næringarmálum nemenda, sérstaklega drengja á unglingastigi sem margir borða ekki áður en þeir fara í skólann og fá sér svo jafnvel eitthvað sem inniheldur töluvert magn sykurs í frímínútum.

Því hefur nú verið ákveðið að gera tilraun í marsmánuði með að bjóða upp á hafragraut fyrir þá nemendur sem vilja. Nemendur munu geta farið í mötuneytið á nestistíma og fengið þar hafragraut með mjólk þeim að kostnaðarlausu.

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Foreldraverðlaunanna 2013 sem landssamtökin Heimili og skóli standa fyrir. Verðlaunin verða veitt fyrir metnaðarfullt foreldrastarf sem eflt hefur samstarf foreldra, nemenda og skólafólks og stuðlað að jákvæðum samskiptum heimilis og skóla.

Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins.

Foreldraverðlaun eru veitt til eins verkefnis/viðfangsefnis. Ef dómnefnd hefur þótt ástæða til, hafa jafnframt verið veitt sérstök hvatningar- eða dugnaðarforkaverðlaun. Ekki er þó hægt að tilnefna dugnaðarfork eða tilnefna aðila til hvatningarverðlauna.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra standa fyrir Foreldraverðlaunum en samtökin sjálf, stjórn eða starfsfólk  tilnefna ekki verkefni, heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum. Niðurstöður dómnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem tilnefndu.

Vakin er athygli á að verðlaun eru aðeins veitt til verkefnis/viðfangsefnis sem tilnefnt hefur verið með formlegum hætti  á rafrænu eyðublaði á vefsvæði landssamtakanna.

Gamaldags kaffiboð hjá 2. bekk

Boðið var upp á lummur og kleinur að gömlum íslenskum sið
Boðið var upp á lummur og kleinur að gömlum íslenskum sið
1 af 2

Síðustu þrjár vikur hefur 2. bekkur verið að vinna með gamla tímann í bókunum Ísland áður fyrr. Í dag var var svo lokadagurinn í því verkefni og var því efnt til gamaldags kaffiboðs, með engu kaffi þó. Í boðinu voru gamlir hlutir á sýningarborði sem allir fengu að skoða og prófa. Boðið var upp á lummur og kleinur eins og gert var í gamla daga og mjólk drukkin með sem hver og einn sótti beint í ,,beljuna" sem reyndar er ekki raunveruleg belja, heldur nútímaútgáfa af belju sem skilar af sér ískaldri mjólk.

Þá var einnig boðið upp á húslestur þar sem hlustað var á þjóðsöguna um hana Búkollu. Kennarar mættu svo í prjónuðum flíkum í sauðalitunum.

Þegar þessu var svo lokið var tekið rennsli á árshátíðaratriði árgangsins, sem gengur vel að æfa, en árshátíð skólans verður haldin dagana 21. og 22. mars n.k.

Sjá má myndir úr kaffiboðinu inni á bekkjarsíðu 2. bekkjar.