VALMYND ×

Fréttir

Frábær útivistardagur í Tungudal

1 af 3

Í gær var útivistardagur í Tungudal hjá 5. - 10. bekk.  Nemendur mættu kl. 10:00 og voru til kl. 13:30 á skíðasvæðinu, ýmist á svigskíðum, gönguskíðum, brettum, sleðum eða þotum. Veðrið var eins og best var á kosið, stilla og um 8°C.

Dagurinn gekk eins og best var á kosið og allir nutu útiverunnar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Keppni í Freestyle

Keppni í freestyle dansi fer fram í sal skólans á morgun, miðvikudaginn 20. febrúar kl. 17:30. Keppendur eru úr 6. og 7. bekk og hafa þeir æft af miklu kappi undanfarnar vikur. Aðgangseyrir er kr. 700 og eru allir velkomnir.

Útivistardagur í Tungudal

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  þriðjudaginn 19. febrúar  fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 10:00-13:30. 

Við förum þess á leit við foreldra/forráðamenn, að þeir keyri börnin á skíðasvæðið og sæki þau aftur, sé þess nokkur kostur.  Við vitum að ekki eiga allir foreldrar auðvelt með að keyra börnin sín og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 9:45 og  frá skíðasvæðinu kl 13:40.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 2000 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar og verða þær opnar áfram eftir 13:30  og geta nemendur verið lengur ef þeir óska þess. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru í áskrift í mötuneytinu, en aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

 

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir nemendur sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum. Einnig má nota reiðhjólahjálma. Þeir nemendur sem eiga lyftukort eru beðnir að hafa þau með sér.

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og skíðandi foreldrar vel þegnir.

 

Frumkvöðlar framtíðarinnar

Nú er mjög spennandi verkefni í vinnslu hér í skólanum sem er ætlað nemendum í 8. bekk. Við köllum það Frumkvöðlar framtíðarinnar og er það samstarfsverkefni Grunnskólans á Ísafirði, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (AtVest) og Fab Lab (NMÍ).

Nemendur fá kynningu á Fab Lab hjá Albertínu Elíasdóttur, forstöðumanni Fab Lab á Ísafirði. Þeim er svo skipt í hópa og mun hver hópur hanna vöru og smíða frumgerðina í Fab Lab. Þegar varan er tilbúin gera nemendurnir einfalda viðskiptaáætlun með það að markmiði að selja vöruna, en varan verður þó ekki seld í raun. Áætlunin verður gerð undir leiðsögn Shirans Þórissonar, framkvæmdastjóra AtVest. Að því loknu verða viðskiptaáætlanirnar kynntar fyrir dómnefnd, sem verður skipuð fólki úr atvinnulífinu, þar sem besta áætlunin verður valin.

 

Markmið verkefnisins er að nemendurnir öðlist reynslu í frumgerðarsmíð í Fab Lab og viðskiptaáætlanagerð. Einnig að þjálfa þá í skapandi hugsun, auka tæknilæsi þeirra og sýna þeim ferlið sem er á bak við vöruþróun. Óbeint getur þetta hvatt þau til frekari frumkvöðlaverkefna í framtíðinni og er því upp að vissu marki verið að þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar.

Rósaball

Í kvöld heldur fjáröflunarnefnd 10. bekkjar Rósaball fyrir nemendur í 8.-10. bekk.  Ballið á sér langa sögu en undanfarin ár hefur það ekki snúist um það að strákar eigi að bjóða stúlkum á stefnumót heldur hefur yfirskriftin verið Para og vinaball.  Aðsóknin hefur aukist mikið vegna þess að margir unglingar vilja helst fara með sínum vinum/vinkonum á ball án þess að þurfi að setja á það ákveðinn merkimiða. 

Ástæða þess að ballið er haldið á fimmtudegi er sú að helgarnar í febrúar og mars eru þétt setnar af íþróttamótum og stór hópur nemenda sækir mót víðsvegar um landið.  Þess vegna verður frí í fyrstu tveimur kennslustundunum hjá 8. - 10. bekk í fyrramálið en að sjálfsögðu eru nemendur velkomnir í skólann og allir kennarar verða við vinnu og geta aðstoðað þá sem vilja nýta tímann til að læra.

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Hermann Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðar afhenti Gauti Óla Gíslasyni verðlaunin.
Hermann Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðar afhenti Gauti Óla Gíslasyni verðlaunin.

Landssamband slökkviliðsmanna efndi til eldvarnaviku í desember s.l. Slökkviliðsmenn heimsóttu 3. bekk og lögðu sérstakt verkefni fyrir nemendur ásamt eldvarnagetraun og ræddu um eldvarnir.

Góð þátttaka var í getrauninni og var einn vinningshafi frá G.Í. dreginn út og var hinn heppni Gautur Óli Gíslason. Hann fékk reykskynjara og Ipod í verðlaun og afhenti Hermann Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðar honum verðlaunin í dag.

Við óskum Gauti innilega til hamingju með þessi glæsilegu verðlaun.

 

Öskudagur

Í dag er öskudagur og þar með hefst langafasta. Nafnið öskudagur á rætur að rekja til þess að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir iðrandi kirkjugesti. Sennilega á sá siður að hengja öskupoka á fólk rætur í þessum kaþólska sið, því hér áður fyrr settu krakkar ösku í pokana.

Á Íslandi er heitið öskudagur þekkt frá því á 14. öld. Nú á dögum klæðast krakkar víða um land grímubúningum þennan dag. Þeir ganga í verslanir og stofnanir og syngja fyrir starfsfólk í þeirri von að fá góðgæti að launum fyrir sönginn. Það getur líka verið gaman að búa til öskupoka og ennþá skemmtilegra að hengja þá á fólk eins og sést á meðfylgjandi mynd. 

 

Í dag er blíðskaparveður sem veit á gott, þar sem öskudagur er talinn eiga 18 bræður eins og fram kemur í eftirfarandi vísu: 


Öskudagsins bjarta brá,

bætti úr vonargögnum,

þar hann bræður átján á,

eptir gömlum sögnum.

Spurningakeppni grunnskólanna

Baldur Björnsson, Vilmar Ben Hallgrímsson og Dagur Benediktsson
Baldur Björnsson, Vilmar Ben Hallgrímsson og Dagur Benediktsson

Lið Grunnskólans á Ísafirði sigraði lið Grunnskólans á Hólmavík í Spurningakeppni grunnskólanna í gær, sem fór fram í gegnum Skype.  Keppnin var æsispennandi og endaði í bráðabana.  Aðeins tvö lið skráðu sig til keppni frá Vestfjörðum svo að okkar menn fara næst í úrslitakeppnina sjálfa.  Lið G.Í. skipuðu þeir Baldur Björnsson, Vilmar Ben Hallgrímsson og Dagur Benediktsson. Við óskum þeim innilega til hamingju og góðs gengis í úrslitunum.

Líf og fjör á maskadegi

Þessir herramenn léku sér saman
Þessir herramenn léku sér saman
1 af 4

Það hefur svo sannarlega verið líf og fjör í skólanum í dag, á sjálfan maskadaginn. Nemendur jafnt sem starfsfólk mættu í hinum ýmsu gerfum og áttu sumir kennarar jafnvel erfitt með þekkja sinn nemendahóp. Ýmsar persónur og fígúrur mættu í skólann í morgun, s.s. dúkkur, trúðar, indíánar, kúrekar, Lína langsokkur, banani, hermenn og stríðsmenn, superman og svo mætti lengja telja.

Yngstu bekkirnir skemmtu sér saman í morgun við að lita, perla, horfa á teiknimynd o.fl. Loks var slegið upp þremur maskaböllum á sal skólans þar sem allar þessar persónur skemmtu sér saman í sátt og samlyndi. Fjölmargar myndir eru nú komnar hér inn á myndasíðuna.


Á morgun er starfsdagur og eiga nemendur þá frí.

112 dagurinn

112-dagurinn er haldinn um allt land í dag, mánudaginn 11. febrúar. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni verður áherslan á getu almennings til þess að bregðast við á vettvangi alvarlegra slysa og veikinda, að fólk hringi í 112 og veiti fyrstu aðstoð áður en sérhæfð aðstoð berst. 112-dagurinn er haldinn víða um Evrópu á sama tíma en 112 er samræmt neyðarnúmer í löndum Evrópusambandsins.