VALMYND ×

Fréttir

Góðar gjafir til 1. bekkinga

Glaðir og þakklátir 1. bekkingar
Glaðir og þakklátir 1. bekkingar

Á síðustu dögum hafa krakkarnir í 1. bekk fengið góðar gjafir.  Björgunarfélag Ísfjarðar færði öllum nemendum endurskinsvesti og Kiwanismenn færðu þeim reiðhjólahjálma að gjöf.  Það voru þakklát börn sem tóku við þessum rausnarlegu og nytsamlegu gjöfum og senda kærar þakkir til gefenda.

Ljóð unga fólksins

Veturliði Snær Gylfason með ljóðabókina góðu
Veturliði Snær Gylfason með ljóðabókina góðu

Nú er lokið ljóðasamkeppninni Ljóð unga fólksins 2013. Þessi keppni hefur verið við lýði í þó nokkuð mörg ár, á 3-5 ára fresti. Keppnin er undir merkjum Þallar, samstarfshóps um barnamenningu á bókasöfnum og skiptast bókasöfn um land allt á um að halda hana. Vinningshöfum voru afhent verðlaunin 23. apríl, á degi bókarinnar, í tengslum við barnamenningarhátíð í Kringlusafni Borgarbókasafns Reykjavíkur. Keppt var í tveimur flokkum, 9-12 ára og 13-15 ára.

Alls bárust yfir 900 ljóð í keppnina og voru valin úr þeim fjölda rúmlega 70 ljóð sem gefin hafa verið út á bók. 

Veturliði Snær Gylfason, nemandi í 9. bekk G.Í., er einn þeirra höfunda sem á ljóð í bókinni og fékk hann bókina senda í viðurkenningarskyni og óskum við honum innilega til hamingju.

Vorskipulagið

Venju samkvæmt er mikið um að vera í maímánuði og að mörgu að hyggja. Vorskipulagið er að komast á hreint, en þó má alltaf gera ráð fyrir smávægilegum breytingum þegar nær dregur.

Skipulagið í heild sinni er að finna hér og einnig neðst vinstra megin á síðunni.

Útileikfimin

Útileikfimin hefst eftir helgina og er því mikilvægt að allir séu klæddir eftir veðri. Ef ástæða þykir til, þá kippa íþróttakennarar kennslunni inn fyrir dyr, en við vonum að til þess þurfi ekki að koma.

Nýtt fréttabréf

Út er komið fréttabréf aprílmánaðar. Eins og alla aðra mánuði er nóg að gera í skólalífinu utan hins hefðbundna náms. Fréttabréfið má sjá hér.

Úrslit í Skólahreysti MS 2013

F.v. Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli og Friðrik Þórir. Á myndina vantar Guðnýju Birnu sem kom inn í úrslitin í stað Aldísar Huldar.
F.v. Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli og Friðrik Þórir. Á myndina vantar Guðnýju Birnu sem kom inn í úrslitin í stað Aldísar Huldar.

Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS 2013 fór fram í Laugardalshöll í kvöld að viðstöddu fjölmenni. Þeir 12 skólar sem tryggt höfðu sér þátttökurétt í úrslitunum, öttu kappi í hraðaþraut, hreystigreip, dýfum, armbeygjum og upphífingum.

Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti í úrslitunum og stóðu krakkarnir sig allir með miklum sóma. Um 120 skólar, víðs vegar að af landinu tóku þátt í upphafi og megum við því vera virkilega stolt af þessum úrslitum.

Sigurvegarar keppninnar, þriðja árið í röð, var Holtaskóli í Keflavík. Í öðru sæti varð Breiðholtsskóli og Lindaskóla hafnaði í því þriðja.

Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Friðrik Þórir Hjaltason, Patrekur Brimar Viðarsson, Guðný Birna Sigurðardóttir og Eva Rún Andradóttir. Til vara voru þau Gísli Rafnsson og Elín Ólöf Sveinsdóttir, en þjálfari liðsins er Árni Heiðar Ívarsson. Auk keppenda fór full rúta af stuðningsliði suður í morgun til að standa við bakið á okkar fólki. Það krefst mikils líkamlegs sem og andlegs styrks að takast á við keppni sem þessa, fyrir troðfullri Laugardalshöll í beinni sjónvarpsútsendingu. Það er því mjög mikils virði fyrir keppendur að finna þann stuðning sem þeir fengu í höllinni.

Við óskum krökkunum innilega til hamingju með frammistöðuna og óskum þeim góðrar heimferðar.

Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS

Úrslitakeppnin í Skólahreysti MS 2013 fer fram í Laugardalshöll fimmtudaginn 2. maí kl. 20:00. Grunnskólinn á Ísafirði sigraði sinn riðil í undanúrslitunum og keppir því til úrslita ásamt ellefu öðrum skólum víðs vegar að af landinu. RÚV sýnir beint frá keppninni kl. 20:00.

Stuðningsmenn G.Í. fjölmenna suður til að styðja við bakið á sínu liði og fer rúta á fimmtudagsmorgun frá skólanum. Keppendur G.Í. eru Friðrik Þórir Hjaltason, Patrekur Brimar Viðarsson, Eva Rún Andradóttir og Guðný Birna Sigurðardóttir, sem er ný í liðinu. Til vara eru þau Gísli Rafnsson og Elín Ólöf Sveinsdóttir og þjálfari er Árni Heiðar Ívarsson.

Við óskum krökkunum góðs gengis og fylgjumst að sjálfsögðu með í sjónvarpinu.

Fjögurra daga vinnuvika

Í þessari viku eru einungis fjórir skóladagar, þar sem fyrsta maí ber upp á miðvikudag og er sá dagur lögbundinn frídagur og alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins.

Gleðilegt sumar

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum gleðilegs sumars.

Alþjóðlegur dagur bókarinnar

Alþjóðlegur dagur bókarinnar er haldinn hátíðlegur í dag 23. apríl. Unesco tók daginn upp 1995 og miðar mörg sín verkefni tengd lestri og bókmenntum að þessum degi. Dagurinn á að hvetja ungt fólk til þess að lesa og stunda yndislestur. Hann er einnig tileinkaður rithöfundum og útgefendum.

23. apríl er viðeigandi dagsetning en dagurinn er fæðingardagur Halldórs Laxness og dánardagur hins enska Shakespeare og Miguel de Cervantes sem var spænskur leikritahöfundur og ljóðskáld. 

Nú stendur einmitt yfir lestrarlota hér í skólanum, sem lýkur á morgun, en nemendur hafa byrjað hvern skóladag síðustu vikuna á hljóðlestri.