Útivistartími barna og unglinga
Frá og með 1. september síðastliðinn breyttust útivistartímar barna og unglinga.
Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum.
Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.
Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. Útivistarreglur eru samkvæmt barnaverndarlögum og er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Við hvetjum foreldra til að vera samtaka og hjálpast þannig að við að virða þessar reglur.