VALMYND ×

Nemendur G.Í. gera það gott í tónlistinni

Í gær voru haldnir svæðistónleikar Nótunnar, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu. Þátttakendur komu frá sex tónlistarskólum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Tónlistarskóli Ísafjarðar valdi þrjú atriði til þátttöku og voru nemendur G.Í. í þeim öllum.

Tónleikarnir skiptust í þrjá flokka, þ.e. grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Í grunnnámi léku Unnur Eyrún Kristjánsdóttir á píanó og Jóhanna María Steinþórsdóttir á saxófón. Í miðnámi sungu Birta Rós Þrastardóttir, Hekla Hallgrímsdóttir, Brynja Sólrún Árnadóttir, Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson ásamt 9 öðrum í skólakór T.Í. Í framhaldsnámi lék svo Hilmar Adam Jóhannsson á fiðlu og píanó í hljómsveit píanónemenda, ásamt sjö öðrum. Allir þessir nemendur stóðu sig mjög vel og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Skólakórinn og píanóhljómsveitin fengu bæði verðlaun fyrir framúrskarandi tónlistaratriði, auk þess sem þau voru bæði valin fyrir hönd svæðisins til að taka þátt í lokatónleikum Nótunnar, sem haldnir verða í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 14. apríl n.k.

Við óskum þessu unga og efnilega tónlistarfólki innilega til hamingju með árangurinn.

Deila