Skólaþing
Laugardaginn 2. nóvember komu foreldrar og starfsmenn saman í Grunnskólanum á Ísafirði á skólaþing. Byrjað var á að skilgreina hvaða aðilar mynda samfélagið í kringum skólann og hvert hlutverk þeirra er. Unnið var í níu hópum sem fjölluðu um hvers aðilar skólasamfélagsins geta vænst af skólanum og svo hvers skólinn getur vænst af samfélaginu. Niðurstöður hópanna voru margþættar og gott að fá mismunandi sjónarhorn í umræðuna. Sem aðilar að skólasamfélaginu voru nefndir nemendur, starfsfólk og foreldrar en einnig stjórnvöld, heilsugæsla og fjölmiðlar svo eitthvað sé nefnt. Allir voru á því að aðilar skólasamfélagsins gætu vænst fagmennsku, trúnaðar, metnaðar, ábyrgðar og góðs samstarfs af skólanum og skólinn gæti vænst virkni, þátttöku, góðs samstarfs og sanngjarns umtals af viðkomandi. Í lokin ræddu þátttakendur svo spurninguna: Hvað kemur barni best til að ná árangri í lífinu. Niðurstöður þar voru svipaðar hjá öllum hópum og nefndu flestir jákvæða sjálfsmynd, sjálfstraust, þrautseigju, að geta tekist á við mótlæti, hæfni til að tileinka sér nýja þekkingu og upplýsingalæsi.
Skólaþingið er einn þáttur í áætlun Grunnskólans um að auka þátttöku foreldra í stefnumótun og skólastarfi. Búið er að halda sambærilegt nemendaþing og verða niðurstöður þinganna notaðar við skólanámskrárvinnu þannig að námskrá skólans endurspegli eins vel og hægt er hvernig skólinn ætlar að koma til móts við þarfir samfélagsins.
Deila