Netnotkun barna og unglinga
SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga.
Í könnuninni voru nokkrar spurningar um aðgengi barna og unglinga að klámi. Öll börn og unglingar í könnuninni voru spurð hvort þau hefðu óvart farið inn á vefsíður með myndum eða myndböndum af nöktu fólki/klámi á sl. 12 mánuðum en að auki voru þátttakendur í 6.-10. bekk spurðir hvort þeir hefðu viljandi farið inn á slíkar vefsíður auk annarra spurninga því tengt. Í ljós kom að tæplega 36% íslenskra barna höfðu ýmist óvart eða viljandi farið inn á vefsíður með myndum eða myndböndum af nöktu fólki/klámi. Tæp 29% barna og unglinga í 4.-10. bekk höfðu óvart farið inn á slíkar vefsíður. Tæp 24% barna í 6.-10. bekk höfðu einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn á slíkar vefsíður. Þar af fóru 15% tvisvar í mánuði eða oftar.
Strákar eru mun líklegri en stelpur til þess að hafa farið viljandi inn á vefsíður með klámi en alls höfðu 38% stráka einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn á vefsíðu með klámi, og 27% þeirra tvisvar í mánuði eða oftar. Um 11% stelpna höfðu hins vegar einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn á vefsíðu með klámi. Eftir því sem börn eru eldri er líklegra að þau hafi farið viljandi inn á slíkar vefsíður. Þegar litið er til nágrannalanda okkar erum við ekki fjarri þeim. Í Noregi höfðu 34% barna og unglinga séð kynferðislegt efni á netinu á sl. 12 mánuðum, í Danmörku er hlutfallið 29% og í Svíþjóð 26%.