VALMYND ×

Fréttir

Löng helgi framundan

Þessi vika verður stutt í annan endann, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og vorfrí hjá nemendum og starfsfólki á föstudaginn. Margir eru á leið til Akureyrar á Andrésar andar leikana og koma þessi auka frídagar sér vel fyrir þann hóp sem og aðra.

Á sumardaginn fyrsta hefst harpa, fyrsti mánuður sumars, en hér áður fyrr hétu sumarmánuðirnir harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður og haustmánuður. Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld og eru mun eldri en jólagjafir. Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomunni og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur frýs saman aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Eins átti sá sem kom auga á fyrsta tungl sumarsins að steinþegja þar til einhver ávarpaði hann. 

Sjálfstyrkingarnámskeið

Þessa viku er 10. bekkur á sjálfstyrkingarnámskeiði, en markmiðið með því er að efla sjálfsmynd í gegnum listræna sköpun og tjáningu. Sjálfskoðunin fer fram í gegnum samskipti og tjáningu þar sem lögð eru fyrir ýmis verkefni í myndlist, orðlist og leiklist. Einstaklingar vinna einir, í pörum og/eða í hópum. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Elísabet Lorange, kennari og listmerðferðarfræðingur Foreldrahúss, en hún hefur margra ára reynslu að vinna með börnum og unglingum í einstaklings- og hópavinnu í skólum, leikskólum, meðferðarheimilum og á námskeiðum. 

Heimsókn á bílaverkstæði

Í fyrradag fóru nemendur 2. bekkjar í heimsókn á bílaverkstæði SB.  Þar tók Guðmundur Sigurlaugsson á móti þeim og sýndi nemendum hvar gert er við bíla, bílvél, gírkassa og fleira. Einnig komust nemendur að því að mikið af viðgerðum á bílum og bilanagreiningar fara fram í tölvu.  Að lokum fengu allir að prófa að setja loft í dekk.  

Að heimsókn lokinni stöldruðu nemendur við á Skipagöturóló og léku sér góða stund.

Fjármálafræðsla

Nemendur nutu fróðleiks og veitinga
Nemendur nutu fróðleiks og veitinga

Nú nýlega fóru nemendur 9. bekkjar í heimsókn í banka bæjarins og fengu fræðslu um ýmislegt sem viðkemur fjármálum. Skipt var í tvo hópa, annar hópurinn fór í Landsbankann og hinn í Íslandsbanka. Báðir hóparnir stóðu sig mjög vel, nemendur voru kurteisir og prúðir og spurðu gáfulegra spurninga eins og þeirra var von og vísa. Móttökurnar voru glæsilegar á báðum stöðum, góðar veitingar og mikilvægar upplýsingar. Var gerður góður rómur að þessum heimsóknum, nemendur voru margs vísari þegar heim kom og hafa eflaust getað frætt fólkið sitt heima.

Nemendur 10. bekkjar fengu einnig fjármálafræðslu í síðustu viku, þegar Rósa Ingólfsdóttir skattstjóri kom í heimsókn og fræddi þá um skattamál. Flutti hún góðan fyrirlestur og voru nemendur mjög duglegir að spyrja um ýmislegt sem brann á vörum þeirra varðandi þeirra skattamál.

Skólahreysti

Keppendur G.Í. frá vinstri: Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli Rafn og Friðrik Þórir.
Keppendur G.Í. frá vinstri: Eva Rún, Aldís Huld, Elín Ólöf, Patrekur Brimar, Gísli Rafn og Friðrik Þórir.

Í kvöld sýnir RÚV frá undankeppninni í Vestfjarðariðli Skólahreysti, sem fram fór í síðasta mánuði. Grunnskólinn á Ísafirði tryggði sér þar sigur í riðlinum og þar með þátttökurétt í úrslitum Skólahreysti MS 2013, sem fram fara í Laugardalshöll 2. maí n.k.

Nú er um að gera að setjast fyrir framan skjáinn kl. 21:10 í kvöld og sjá þessi glæsilegu ungmenni okkar taka á því.

Lestrarlota

Í dag hefst lestrarlota hér í skólanum og munu þá allir, bæði starfsfólk og nemendur,  lesa í hljóði frá kl. 8:10 - 8:30 á morgnana, fram í næstu viku. Þriðjudaginn 23. apríl er alþjóðlegur dagur bókarinnar, en sá dagur er fæðingardagur Halldórs Kiljan Laxness og dánardagur William Shakespeares. Dagurinn er ætlaður til að hvetja ungt fólk til yndislesturs og er hann ennfremur tileinkaður rithöfundum og útgefendum. Lestrarlotunni lýkur miðvikudaginn 24. apríl.

Sigursælir nemendur

Keppendurnir allir ásamt kennurum og skólastjóra T.Í.
Keppendurnir allir ásamt kennurum og skólastjóra T.Í.

Báðir hópar tónlistarnemendanna sem kepptu á lokahátíð Nótunnar í Hörpunni um liðna helgi, gerðu sér lítið fyrir og unnu báðir til verðlauna. Skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar vann Nótuna í miðnámi ásamt tveimur öðrum atriðum og hljómsveit píanónemenda vann sérstök ÍSMÚS verðlaun fyrir frumlegasta atriði hátíðarinnar.

Glæsileg frammistaða hjá þessu unga fólki okkar, sem við óskum svo sannarlega til hamingju með árangurinn.

Fylgdu hjartanu

Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson

Í fyrradag kom Þorgrímur Þráinsson í heimsókn í 10. bekk með forvarnafræðslu undir yfirskriftinni Fylgdu hjartanu. Þessi fræðsla Þorgríms beinist að því að styrkja sjálfsmeðvitund nemenda áður en þeir fara í framhaldsskóla, ekki síst að setja sér markmið í lífinu og ná þeim. 

Nemendur létu mjög vel af fræðslu Þorgríms og þótti hún gagnleg.

Nemendur á leið í Hörpuna

Sunnudaginn 14. apríl fer fram Lokahátíð Nótunnar, uppskeruhátíðar íslenskra tónlistarskóla í Eldborgarsal Hörpu í Reykjavík.
Á tónleikunum verða 24 tónlistaratriði, víðs vegar að af landinu, sem valin voru laugardaginn 16. mars á fernum svæðistónleikum á Ísafirði, Egilsstöðum, Reykjavík og Selfossi. Af þremur tónlistaratriðum frá Vesturlandi og Vestfjörðum sem valin voru til þátttöku í Eldborgartónleikunum koma tvö frá Tónlistarskóla Ísafjarðar, en það eru skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar og hljómsveit píanónemenda. Með kórnum syngja nokkrir nemendur G.Í., þau Pétur Ernir Svavarsson, Birta Rós Þrastardóttir, Brynja Sólrún Árnadóttir, Hekla Hallgrímsdóttir og Hilda María Sigurðardóttir. Þá leikur Hilmar Adam Jóhannsson með hljómsveit píanónemenda, bæði á píanó og fiðlu og er yngsti meðlimur hljómsveitarinnar.

Það verður gaman að fylgjast með þessum hæfileikaríku krökkum og óskum við þeim góðs gengis.

Nánari upplýsingar er að finna inni á heimasíðu Tónlistarskóla Ísafjarðar og Nótunnar.

Fundað um framtíð skólalóðarinnar

Í síðustu viku voru lagðar fram tillögur að breyttu skipulagi skólalóðarinnar. Tveir nemendur frá hverjum árgangi frá 3. - 7. bekk fóru á kynningarfund með skólastjórnendum, þar sem tillögurnar voru kynntar. 

Nemendurnir tóku virkan þátt í umræðunum og höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Þeir eru mjög spenntir fyrir þeim framkvæmdum sem eru fyrirhugaðar og hlakka til að fá fjölbreyttari möguleika á hreyfingu í frímínútunum.