VALMYND ×

Nemendaþing G.Í. kynnt í Danmörku

Í dag eru Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri og Guðríður Sigurðardóttir, kennari, á ráðstefnunni ,,Norden viser vej - udforinger og styrker i de nordiske uddannelser" eða Áskoranir og styrkur í norænni menntun, sem fram fer í Kaupmannahöfn í Danmörku. Þar munu þær stöllur kynna nemendaþing skólans, sem haldið var s.l. haust. Aðdragandinn er að nokkrum íslenskum skólum var boðið að senda inn kynningu á áhugaverðum verkefnum og var okkar verkefni það eina sem valið var frá Íslandi. Á ráðstefnunni eru erindi frá skólum á öllum Norðurlöndunum. 

Nemendaþingið sem haldið var 1. október s.l. hafði það að markmiði að vinna að því að efla vitund nemenda um eigin ábyrgð í skólastarfinu og fá fram sjónarhorn þeirra á hlutverk aðila skólastarfsins. Þingið var haldið með þjóðfundasniði þar sem nemendum í 6. - 10. bekk var blandað í umræðuhópa.  Valdir voru borðstjórar úr hópi nemenda í 9. og 10. bekk, sem fengu sérstakan undirbúning til að auðvelda þeim að stýra umræðum.  Eldri nemendum var annars raðað af handahófi en þess gætt að yngri nemendur hefðu að minnsta kosti einn með sér í hóp sem þeir gætu treyst.

Umræðuefni nemenda á þinginu voru í þremur liðum.

A)   Hvaða aðilar mynda skólasamfélagið?  

B)   Hvað gætu hóparnir sem mynda skólasamfélagið gert til að gera skólastarfið betra og árangursríkara?  

C)   Hvað myndu aðilar skólasamfélagsins ,,græða“ á því ef allir gerðu sitt besta?

Umræðurnar í hópunum gengu yfirleitt mjög vel og nemendur voru áhugasamir um spurningarnar.  Þeir skilgreindu aðila skólasamfélagsins allt frá nemendum og starfsfólki skólans til bæjarstjórnar og menntamálaráðherra.  Þeir komu einnig með margar gagnlegar tillögur um það hvað hver af þessum hópum gæti gert til að efla skólastarfið og sem dæmi nefndu mjög margir hópar mikilvægi þess að hlustað væri á nemendur og að allir fengju tækifæri til þátttöku. 

Að þinginu loknu svöruðu nemendur þremur spurningum sem notaðar verða til að leggja mat á hvort þessi vinna skilar því að nemendum finnist þeir geta haft aukin áhrif í skólastarfinu með þátttöku í umræðum af þessu tagi. 

Skólastjórnendur tóku saman niðurstöður allra hópa og hafa þær niðurstöður farið til umræðu í bekkjunum sem tóku þátt.   

Deila