VALMYND ×

Nikodem á leið í Hörpuna

Bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach. (Mynd: tonis.is)
Bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach. (Mynd: tonis.is)

Síðastliðna helgi voru haldnir svæðistónleikar Nótunnar, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu. Tónleikarnir voru haldnir í Borgarnesi að þessu sinni og sendi Tónlistarskóli Ísafjarðar þrjú atriði til þátttöku. Pétur Ernir Svavarsson, nemandi í 8. bekk G.Í. lék frumsamið lag á píanó og Þormóður Eiríksson nemandi í M.Í. lék eigið verk á gítar.

Nikodem Júlíus Frach, nemandi í 6. bekk G.Í. lék verkið Country eftir Dabski á fiðlu, en bræður hans þeir Mikolaj Ólafur Frach og Maksymilian Haraldur Frach léku undir á píanó á og kontrabassa.

Öll þessi atriði hlutu Nótuna, sem er verðlaunagripur fyrir framúrskarandi atriði. Auk þess var Nikodem valinn til áframhaldandi þátttöku á lokahátíð Nótunnar, sem fram fer í Hörpu sunnudaginn 23. mars n.k.  

Við óskum öllum þessum hæfileikaríku hljóðfæraleikurum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Deila