VALMYND ×

Fréttir

Frestun á útivistardegi

Því miður er veðurspáin ekki góð fyrir morgundaginn og því frestum við útivistardeginum til þriðjudagsins 11.mars.

Móðurmálsvika

Fyrir rúmum áratug tók Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna, UNESCO þá ákvörðun að alþjóðlegi móðurmálsdagurinn skyldi á hverju ári haldinn hátíðlegur þann 21. febrúar. Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafa ákveðið að efna til nokkurra viðburða í vikunni 21.-28. febrúar 2014 í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins.  

Mikil menningarleg verðmæti felast í ræktun móðurmálsins sem styrkir stöðu einstaklinga, auðgar samfélag fólks og tengir saman ólíka menningarheima, bæði innan samfélags og á milli þeirra. Menning á Íslandi býr nú þegar yfir mikilli fjölbreytni og á hverjum degi eru í skólanum börn sem eiga sér fjölmörg ólík móðurmál. Í þessum ríkulega tungumálaforða okkar felast verðmæti sem okkur ber bæði að hlúa að og virða. Dagur móðurmálsins á að minna á það og vera okkur hvatning til að styrkja stöðu móðurmála.

Í tilefni af móðurmálsvikunni verður lögð áhersla á ritun hér í skólanum og unnið með hana á sem fjölbreyttastan hátt.

 

Útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  föstudaginn 28. febrúar  fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 10:00-13:30. 

Við förum þess á leit við foreldra/forráðamenn, að þeir keyri börn sín á skíðasvæðið og sæki þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir foreldrar auðvelt með að keyra börnin sín og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 9:45 og  frá skíðasvæðinu kl 13:40.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 1500 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Sú nýbreytni verður í ár að útbúinn verður gönguhringur við skálann fyrir þá sem vilja mæta með gönguskíði og verður hægt að leigja gönguskíði. 

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru í mataráskrift.  Aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir nemendur sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum (það má nota reiðhjólahjálma).

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og skíðandi foreldrar vel þegnir.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með tilkynningum frá skólanum á fimmtudaginn þar sem veðurspáin er ekki upp á það allra besta og við gætum þurft að fresta  útivistardeginum.

Nóg að gera hjá skólahjúkrunarfræðingi

Skólahjúkrunarfræðingur hefur í ýmsu að snúast í sínu starfi auk almennrar heilsuverndar. Sinna þarf heilbrigðisfræðslu, bregðast við lúsartilfellum, framkvæma flúorskolun hjá 1., 7. og 10. bekk tvisvar í mánuði og sjá um lyfjagjafir svo eitthvað sé nefnt.

Í liðinni viku heimsótti hjúkrunarfræðingur 4. bekk og fræddi nemendur um mikilvægi tannverndar. Einnig var 7. bekkur heimsóttur og fræddur um skyndihjálp.

Þá hefur lúsin enn og aftur gert vart við sig í skólanum og eru foreldrar minntir á mikilvægi kembingar. Send hafa verið bréf heim til þeirra sem þurfa að kemba, ásamt leiðbeiningum þar um.

Rithöfundakynning

Þessa viku fer fram rithöfundakynning á bókasafni skólans. Rannveig Halldórsdóttir, bókasafnsfræðingur, kynnir og les úr verkum Sigrúnar Eldjárns fyrir yngri nemendur og Þórðar Helgasonar fyrir eldri nemendur.

Sigrún Eldjárn hefur ritað og myndskreytt á fimmta tug barnabóka og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2008 fyrir framlag sitt til íslenskrar barnamenningar.

Þórður Helgason hefur skrifað fjórar barnabækur, þrjár unglingabækur og fimm ljóðabækur auk nokkurra smásagna sem birst hafa í blöðum, tímaritum, safnritum og víðar. Þá hefur hann einnig skrifað greinar um bókmenntir í tímarit og ráðstefnurit og víðar, einkum um ljóðagerð, bragfræði og skapandi ritun, en einnig um kennslumál auk fjölda ritdóma í blöð og tímarit. 

Dansað fyrir réttlæti

Síðastliðinn föstudag tóku nemendur í 8. - 10. bekk þátt í femínískri flóðbylgju í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar dansaði fjöldi manna af gleði og krafti fyrir mannréttindum kvenna og sýndu í verki að þeim stendur ekki á sama um það ofbeldi sem stúlkur og konur verða fyrir.

Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og yfir 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert.

Rósaball

Á morgun, föstudaginn 14. febrúar, verður hið árlega rósaball í skólanum hjá 8. - 10. bekk. Aðgangseyrir er kr. 1.500 fyrir pör en kr.1.000 fyrir einstaklinga.

Ballið hefst kl. 20:00 og lýkur um kl. 23:30.

Símasambandsleysi

Í morgun hefur verið símasambandslaust hér í skólanum til kl. 9:10 vegna rafmagnstruflana í nótt. Við biðjumst velvirðingar á þessu ástandi og biðjum fólk að sýna okkur skilning.

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Sólveig Perla fyrir miðri mynd ásamt bekkjarfélögum sem þátt tóku í eldvarnagetraun slökkviliðsins.
Sólveig Perla fyrir miðri mynd ásamt bekkjarfélögum sem þátt tóku í eldvarnagetraun slökkviliðsins.

Í dag, á sjálfan 112 daginn, komu þeir Hermann Hermannsson og Hlynur Kristjánsson frá Slökkviliði Ísafjarðar færandi hendi og afhentu  Sólveigu Perlu Veigarsdóttur Olsen í 3. MH verðlaun í eldvarnagetraun sem árgangurinn tók þátt í fyrir jólin. Vinningurinn var ekki af verri endanum en í vinningspokanum reyndist vera reykskynjari, viðurkenningarskjal, eintak af tímaritinu Slökkviliðsmaðurinn ásamt 10.000 kr.  Við óskum Sólveigu Perlu innilega til hamingju með verðlaunin.

 

 

Vinabekkir hittast

1 af 3

Síðastliðinn föstudag bauð 8. bekkur vinabekk sínum, 1. bekk, í heimsókn. Mikið var spilað, spjallað og leikið og buðu foreldrar upp á heilmiklar kræsingar þannig að úr varð hin fínasta veisla. Boðið tókst í alla staði mjög vel og vonandi var þetta bara fyrsta af mörgum samverustundum vinabekkjanna tveggja.

Fleiri myndir frá samverustundinni má finna á heimasíðu 1. bekkjar og 8. bekkjar.