VALMYND ×

Fréttir

Fjölbreytni í skólastarfinu

Í vetur er boðið upp á valgreinar á miðstigi þar sem hægt er að velja mósaík, stuttmyndagerð, íþróttir og útivist, skák, skrautskrift, myndmennt, FabLab, dans, spil, lúðrasveit, kór, námskeið hjá Rauða krossinum eða skartgripagerð. Nemendur fá að fara á 8 stöðvar á skólaárinu og nú er fyrstu umferð að ljúka.

Hópurinn í stuttmyndagerð vann myndasýningu í Movie Maker og má sjá afrakstur þeirrar vinnu hér.

Krakkarnir í mósaík unnu listaverk á spegla og hönnuðu svo glæsilega spegla eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og einnig inni á myndasafni skólans. 

Íþróttahátíð

Í dag, föstudaginn 11. október verður haldin í Bolungarvík hin árlega íþróttahátíð grunnskóla á Vestfjörðum.  Keppni hefst kl. 11:00 og er áætlað að henni ljúki milli 18:30 og 19:00. Hlé verður gert til kl. 20:00 en þá hefst ball í skólanum sem lýkur kl. 23:30 og er aðgangseyrir kr. 1.500. Engin kennsla er því hjá 8. - 10. bekk í dag.

Keppnisgreinar eru hefðbundnar s.s. skák, sund, fótboti, körfubolti, badminton, dans, förðun, spurningakeppni og borðtennis.

Nánari upplýsingar hafa verið sendar heim til foreldra og forráðamanna.

Skáld í skólum

Í dag er nemendum G.Í. boðið upp á bókmenntadagskrána Skáld í skólum, sem er á vegum Rithöfundasambands Íslands í samvinnu við Miðstöð íslenskra bókmennta. Rithöfundarnir Hildur Knútsdóttir og Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl stinga á kýlum og leika fyrir lærdómi, lesa ljóð og prósa, sýna teiknimyndir og leiknar stuttmyndir, og ræða hvaða merkingu það hefur að vera skáld, verða skáld og þurfa alltaf að vera þetta andskotans skáld - eins og segir í kynningu

Um er að ræða 40 mínútna dagskrá í Hömrum í dag,  sem hentar öllum aldurshópum.

Forvarnardagurinn

Forvarnardagurinn er í dag, miðvikudaginn 9. október. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Nánari upplýsingar varðandi forvarnardaginn er á heimasíðu verkefnisins.

Nóg um að vera í Djúpinu

Vetrarstarf félagsmiðstöðvarinnar Djúpsins er nú hafið af fullum krafti. Að sögn Estherar Óskar Arnórsdóttur, forstöðumanns, er þétt dagskrá framundan og ljóst að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Síðastliðinn föstudag var Beggi blindi með uppistand og í kvöld er förðunarkeppni. Á næstunni eru fyrirhugaðir lufsufundir fyrir stelpur, ullarsokkabandí, V.I.P. fundir fyrir stráka, foreldrakvöld, hæfileikakeppni, ratleikur, brennibolti, Great Gatsby ball og ýmislegt fleira.

Djúpið er opið á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar. Nánari upplýsingar má sjá hér á Facebook síðu Djúpsins. 

Alþjóðlegur dagur kennara

Alþjóðadagur kennara er 5. október ár hvert. Skólar hér á landi halda daginn hátíðlegan með margvíslegum hætti og hugsa til starfssystkina í öðrum og fjarlægum löndum.

Aðal markmið Alþjóðasambands kennara (EI) er að öll börn í heiminum fái að ganga í skóla og njóta gæðamenntunar. Stefnt er að því að þetta markmið náist fyrir 2015.

Fimmtíu og sjö milljónir barna í heiminum njóta nú engrar menntunar. Því þarf að lyfta grettistaki til að ná markmiði Alþjóðasambandsins. Liður í því er að fjölga kennurum þar sem mesti skorturinn er. Þess vegna er slagorð Alþjóðasambands kennara árið 2013: Fjölgum kennurum!

Kennarar á norðanverðum Vestfjörðum ætla í tilefni dagsins að hittast í Skúrnum við Húsið kl. 16:00 í dag.

Fréttabréf septembermánaðar

Nú hefur fyrsta fréttabréf skólaársins litið dagsins ljós. Skólaárið hófst af miklum krafti í haust með margskonar nýjungum og fjölbreytileika, sem endurspeglar þá grósku sem er í skólastarfinu.

Fréttabréfið má nálgast hér en einnig hefur það verið sent í tölvupósti á forráðamenn nemenda.

Aðalfundur Foreldrafélags G.Í.

Aðalfundur Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði verður haldinn í kvöld, í sal skólans kl. 20:30. Á dagskránni eru venjuleg aðalfundarstörf, en auk þeirra verður Svavar Þór Guðmundsson með áhugavert erindi um netsamskiptamiðla barna og unglinga.

Boðið verður upp á kaffi og konfekt og eru allir foreldrar hvattir til að mæta.

Stemning á Silfurtorgi

1 af 4

Það var góð stemning á Silfurtorgi í morgun þegar allir nemendur og starfsfólk skólans marseruðu um bæinn og enduðu á torginu. Tilefnið er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn sem haldinn er í dag. Árni Heiðar Ívarsson, íþróttakennari, stjórnaði göngunni af röggsemi og enduðu allir á því að dansa og syngja á Silfurtorgi í blíðskaparveðri.

Nálgast má fleiri myndir inni á myndasafni skólans hér á síðunni.

Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn

Í ár tekur Ísland þátt í sjöunda skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október en vegna birtu og veðuraðstæðna fer verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 2. október.

Af því tilefni ætla nemendur og starfsfólk G.Í. í skemmtigöngu um bæinn í dag líkt og undanfarin ár. Lagt verður af stað frá skólanum kl. 9:00 og endað á Silfurtorgi, þar sem stefnt er að því að skapa karnival stemningu.